151. löggjafarþing — 21. fundur,  17. nóv. 2020.

menntastefna 2020--2030.

278. mál
[17:03]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir, að mínu mati, afar góða yfirferð yfir það hvað felst í menntun. Og af því að hann vissi nákvæmlega hvaðan mottóið í menntastefnu kom, eins og hann orðaði það, þá ætla ég, með leyfi forseta, aðeins að fara yfir textann í bókinni sem þetta kemur úr, Menón eftir Platón. Þetta er í innganginum þar og ég tel að hv. þingmaður hafi jafnvel svolitla ánægju af þessu:

„Markmið skólamenntunar er í augum Sveinbjarnar fólgið í viðleitninni til að gera menn“ — þetta er dálítið gamall texti, þarna stendur menn — „að vel upplýstum og góðum mönnum. Þessa skoðun rökstyður hann í fyrstu skólaræðu sinni frá haustinu 1819 þegar hann var sjálfur nýkominn úr námi. Þar leitaðist hann við að sýna fram á skyldleika og gagnvirkni þekkingar og dyggðar á þeim forsendum að maðurinn sé í senn skynjandi og sjálfráð vera. Fullkomnun mannsins sé í því fólgin að rækta með sér þessi tvö auðkenni sín, þekkingu og dyggð. Það er þetta sem menntun á að efla með mönnum, að gera þá hæfa til að „leggja rétta virðing á heiminn og sjálfa oss“. Sveinbjörn áréttaði þessa skoðun sína með því að vitna í latneska máltækið „Vér lærum ekki fyrir skólann heldur fyrir lífið“, en hann þýðir það svo í skólaræðunni: Við lærum ekki til að verða lærðir, heldur til að vera góðir.“

Þannig að mér þótti mjög vænt um að hv. þm. Guðmundur Andri Thorsson skyldi vitna í þetta. (Forseti hringir.) — Þetta er allt of snemmt, virðulegur forseti. Ég kem aftur eftir smá.