151. löggjafarþing — 21. fundur,  17. nóv. 2020.

menntastefna 2020--2030.

278. mál
[17:08]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er hjartanlega sammála hv. þingmanni um mikilvægi þess að efla starfs-, iðn- og tækninám. Það er einmitt fjallað um það í nýrri menntastefnu, með leyfi forseta:

„Hugvitsdrifið samfélag framtíðarinnar kallar á aukna áherslu á starfs-, iðn- og tækninám. Slíkt nám verður eflt með það að leiðarljósi að færni þróist í takt við þarfir samfélagsins og áskoranir fjórðu iðnbyltingarinnar.“

Ég get upplýst þingið um það sem við höfum verið að gera, við erum að setja aukna áherslu á þetta og nú í fyrsta sinn er búið að taka saman menntatölfræði sem er sambærileg við það sem Efnahags- og framfarastofnunin hefur verið að gera. Þá kemur í ljós að um 30% af þeim sem velja nám á framhaldsskólastigi velja starfsnám. Það kemur líka í ljós að það er mjög sambærilegt hlutfall þeirra sem fara t.d. í mannvirkjagerð og allt því tengdu hér og á Norðurlöndunum, við erum á svipuðum stað. Það hefur líka komið í ljós í þessari tölfræði, ef við berum til að mynda saman Ísland og Danmörk, að Danir myndu flokka Verslunarskóla Íslands sem starfsnám. Þannig að tölfræðin sem við höfum stundum verið að horfa á er ekki alveg sambærileg. Ég mun birta þessar niðurstöður okkar á næstu dögum.

Ég vil líka segja hv. þingmanni að ég er að fara að setja í samráð frumvarp þess efnis að við opnum enn frekar á háskólastigið með þessari brú, þ.e. að þeir sem lokið hafa þriðja hæfniþrepi á framhaldsskólastigi geti sótt um háskólanám. Eitt af því sem við sjáum er að foreldrar ráðleggja börnum sínum oft frá því að fara í starfsnám af því að þeir telja að þau séu að loka á einhverja aðra framtíðarmöguleika. (Forseti hringir.) Þannig að þetta er allt á fleygiferð.