151. löggjafarþing — 21. fundur,  17. nóv. 2020.

menntastefna 2020--2030.

278. mál
[17:12]
Horfa

Þórunn Egilsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Það er virkilega gleðilegt að standa hér þegar mælt er fyrir menntastefnu. Ég get sem þingflokksformaður elsta stjórnmálaafls landsins ekki staðist þá freistingu að vitna í fyrstu stefnuskrá flokksins. Eins og allir vita sem eitthvað þekkja til sögunnar hafa menntamál verið flokknum afar hugleikin og í fyrstu stefnuskrá flokksins, sem samþykkt var 12. janúar 1917, segir, með leyfi forseta:

„Alþýðumenntunina, sem flokkurinn telur hyrningarstein allra þjóðþrifa, vill hann stefnumarka og styðja, einkum með aukinni kennaramenntun og eflingu ungmennaskóla í sveitum og lýðskóla fyrir karla og konur í landsfjórðungi hverjum. Hina æðri menntun vill flokkurinn einnig láta til sín taka og halda hinu vísindalega merki Íslands hátt á lofti …“

Þessi orð hafa alveg staðist tímans tönn en það er gaman frá því að segja að menntastefna þessi, sem fram er komin hér, er byggð á grunni vinnu sem grasrót flokksins hefur unnið. Á 100 ára afmæli flokksins árið 2016 var settur af stað hópur sem vann að því að móta menntastefnu. Það er frábært að vera í öflugum flokki þar sem grasrótarstarfið skilar sér alla leið hingað inn í sali Alþingis. Þannig eiga stjórnmál að virka.

Hæstv. forseti. Eins og við öll vitum er starf kennara eitt af mikilvægustu störfum samfélagsins. Menntastefnan er lykill að betra starfsumhverfi fyrir kennara. Það er mikilvægt að skólar og aðrar menntastofnanir verði eftirsóknarverðir vinnustaðir og kennarastarfið áhugavert. Það er gott að vera kennari en það verður eflaust enn betra verði þingsályktunartillaga þessi samþykkt.

Með menntun opnast tækifæri. Allir eiga að hafa jöfn tækifæri til menntunar á eigin forsendum og án mismununar. Við höfum öll einhverja hæfileika til að bera en lykillinn að því að þróa hæfileika er góður aðgangur að menntun þar sem allir geta lært og allir skipta máli.

Leiðarljós menntastefnunnar eru þrautseigja, hugrekki, þekking og hamingja. Þessi orð segja mikið. Þau einkunnarorð eru leiðarljós fyrir stjórnvöld, menntastofnanir, kennara sem og nemendur, og eru það sem við þurfum að tileinka okkur því að með þessi orð í skólatöskunni komumst við lengra saman. Við þurfum öll að sýna þrautseigju, þrautseigju til að takast á við áskoranir, stórar sem litlar, og gefast ekki upp þótt á móti blási, hugrekki til að taka á móti nýjum áskorunum. Og svo er það þekkingin, mikilvægi þess að deila áfram þekkingu og vera móttækileg fyrir nýrri þekkingu. Þá er það hamingjan, en með hamingju að leiðarljósi og í brjósti verður allt auðveldara. Ég vil trúa því að hamingjan geti verið spurning um ákvörðun.

Hæstv. forseti. Menntastefnan byggir á fimm stoðum sem styðja eiga við framtíðarsýn og gildi hennar. Stoðirnar eru: Jöfn tækifæri fyrir alla, kennsla í fremstu röð, hæfni fyrir framtíðina, vellíðan í öndvegi og gæði í forgrunni. Það væri of langt mál að ætla sér að fara inn í alla þætti menntastefnunnar en ég dreg hér út nokkra þætti hennar.

Í menntastefnunni er mælt fyrir um nám við allra hæfi. Skólar og aðrar menntastofnanir skulu taka mið af þörfum, getu og hæfni sérhvers nemanda og vinna út frá styrkleikum og áhuga hvers og eins. Ég fagna þessum lið menntastefnunnar því að brottfall nemenda hefur verið áhyggjuefni og með aukinni áherslu á þennan lið — sem við höfum vissulega verið að vinna eftir og ég veit að kennarar hafa lagt mikla áherslu á þetta í störfum sínum — þá náum við að stíga skref til að aðstoða nemendur enn betur og tryggja að allir finni sig í menntakerfinu. Við þurfum að mæta hverjum nemanda á þeim stað sem hann er.

Hæstv. forseti. Í menntastefnunni er einnig komið inn á mikilvægi læsis. Lestur er hluti af þjóðmenningu okkar. Í gær, á degi íslenskrar tungu, var kynnt niðurstaða lestrarkönnunar sem Miðstöð íslenskra bókmennta lét gera. Niðurstöður könnunarinnar sýna að lestur hefur heldur aukist og þá sérstaklega notkun hljóðbóka. Afkastamestu lesendurnir eru konur og barnafjölskyldur. Lestur er öflugasta tæki nemenda til að afla sér þekkingar og tjáning í ræðu og riti er forsenda þátttöku í lýðræðissamfélagi. Þess vegna leggur menntastefnan sérstaka áherslu á málskilning, lesskilning, tjáningu, ritun og hlustun og aðgerðir sem miða að því að mæta þeim sem glíma við lestrarörðugleika.

Menntastefnan kemur einnig inn á mikilvægi snemmbærs stuðnings, en í stefnunni er mælt fyrir um að börn og ungmenni skuli fá aðstoð og stuðning við hæfi í námsferlinu og þeim liðsinnt áður en vandinn ágerist. Stuðningurinn getur beinst að nemandanum sjálfum eða umhverfi hans. Þá kemur fram að mikilvægt er að aðlaga stuðninginn að þörfum viðkvæmra einstaklinga og hópa. Þessu atriði fagna ég mjög því að ég treysti kennurum til að lesa nemendur sína og skilja þá. Þeir eru í bestum færum til að hjálpa nemendum, greina stöðu þeirra og hjálpa þeim áfram. Allt of oft þarf að bíða eftir greiningum og þekki ég dæmi þess úti um landið að það hafi verið til trafala og ekki gengið sem skyldi. Þetta er því einkar góður punktur sem ég fagna.

Hæstv. forseti. Með því að styðja við þessa þætti; nám fyrir alla, aukinn stuðning við lestur, málskilning og lesskilning sem og snemmbær stuðningur fyrir þá sem þurfa, getum við komið í veg fyrir að missa af hæfileikaríkum einstaklingum sem gefast snemma upp í námi. Með þessari stefnu og framlagningu hennar erum við komin með gott tæki til að tryggja að allir fái að blómstra í skólakerfinu.

Hæstv. forseti. Verkefni stjórnmálanna er að vinna að framfaramálum hvers tíma, hafa áhrif og vinna samfélaginu gagn. Hér er sannarlega verið að því og vil ég þakka hæstv. menntamálaráðherra fyrir að hafa fylgt þessu eftir, komið þessu hingað inn, lagt mikla vinnu í verkið og unnið það vel. Ég óska nefndinni og okkur þingmönnum velfarnaðar við að vinna það áfram, okkur öllum til gagns.