151. löggjafarþing — 21. fundur,  17. nóv. 2020.

menntastefna 2020--2030.

278. mál
[17:20]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Við tölum áfram um menntastefnuna og ég ætla ekki að bæta miklu við. Það sem mér liggur á hjarta er í rauninni vandinn sem blasir við þriðjungi barnanna okkar í skólunum. Ég óska hins vegar hæstv. menntamálaráðherra til hamingju með stefnuna, hún er náttúrlega bara full af bjartsýni og brosi og kærleika í allar áttir. Hins vegar fannst mér kannski ekki alveg passa að státa sig af 100 ára gömlum Framsóknarflokki í menntastefnu sem hefur orðið þess valdandi, ef á að taka þannig til sín, að þriðjungur drengjanna okkar útskrifast úr tíunda bekk illa læs eða með lélegan lesskilning. Ég vona að það sé ekki það sem Framsóknarflokkurinn vill skrifa á sig í sinni 100 ára frábæru menntastefnu en svoleiðis hefði með einhverju gríni mátt taka því.

En hvað um það. Ég er enn þá föst í því sem mér finnst skipta langmestu máli í menntastefnu, að breyta í rauninni kennsluháttum í upphafi skólagöngu með öllu hinu sem verið er að kalla eftir, með jafnræði til náms, með gleði í skólanum, með hamingju og þrautseigju og öllu því. Það er bara ekki hægt að vera hamingjusamur í skólanum ef nemandi er 10, 11, 12, 13, 14, 15 ára og skilur ekki hvað fram fer í skólanum. Það er eiginlega þvílíkur áfellisdómur á okkur hér og nú að vera búin að horfa ítrekað upp á það að eftir tíu ára grunnskólanám skuli svona stór hluti barnanna okkar vera illa læs, nánast ólæs, með lélegan lesskilning. Nú hefur okkar góði hæstv. menntamálaráðherra verið að berjast í því að gera góða hluti í þrjú ár af þessu kjörtímabili, það er ekki mikið eftir af kjörtímabilinu en okkur auðnast að fá fram þessa menntastefnu. Það breytir ekki þeirri staðreynd að ég veit ekki til þess að staða læsis hafi batnað á tímabilinu hjá börnunum okkar. Ég get ekki séð það, þannig að þegar ég tala um að mér finnist skipta mestu máli að breyta um kennsluhætti þá finnst mér ekki ástæða til þess að níu eða tíu ára gamalt barn fái einhverja trúarbragðafræði eða hvaða fræði sem er, landafræði eða sögu eða hvað sem er, hvað þá annað tungumál, þegar það er ekki talandi á sínu eigin, hvað þá lesandi.

Talað er um að veita börnunum gleði. Þau eru mörg mjög feimin. Þau eru mörg mjög inn í sig. Það er erfitt að draga þau fram. Þau eru ólík eins og þau eru mörg. En í hverju einasta þeirra er falinn fjársjóður, mannauður. Hvernig drögum við fram mannauðinn hjá heildinni nema nákvæmlega að þessi menntastefna fái að blómstra fyrir þau öll, með jafnvægi, jafnrétti til náms, gleðinni, hamingjunni í skólanum og vellíðan í því sem þau eru að gera? En hvernig förum við að því að draga fram þessa vellíðan? Við vitum að börnin okkar eru ofboðslega einlæg og þau eru opin og segja satt. Þau koma til dyranna eins og þau eru klædd og það erum við fullorðna fólkið sem segjum: Uss, ekki segja þetta, uss, ekki gera þetta, uss, ekki vera svona, vertu einhvern veginn hinsegin af því þú passar ekki inn í samfélagið sem við erum búin að smíða utan um þig. Mér finnst það ekki góðar aðfarir. Hins vegar hefði ég viljað sjá litla einstaklinginn koma í skólann þar sem hann er hvattur til að segja hvað hann sé að gera núna, hvernig honum líði í dag og hvattur til að segja öðrum aðeins frá sér. Mér finnst vanta að kennslan sé einstaklingsmiðuð, að við stígum aðeins út fyrir rammann og troðum ekki alltaf öllum í sama boxið eins og við gerum svo gjarnan vegna þess að þarna eru faldir fjársjóðir sem aldrei fá að blómstra og njóta sín, aldrei nokkurn tíma.

Þegar börnin okkar stálpast fá þau væntingar um að læra og gera eitthvað, fara í t.d. iðnnám eða mennta sig á hvaða hátt sem er en nú er vaxandi lesvandi meðal ungra stúlkna. Nú eru þær að nálgast það sem drengirnir okkar glíma við. Það er ekki nóg að setja fram fallega sviðsmynd. Við verðum líka að segja hvernig við ætlum að láta hana verða að veruleika og hvað við getum gert til að hjálpa börnunum okkar til þess að þessi fallega menntastefna fái að blómstra fyrir öll börn. Grundvallaratriðið, og ég er bara föst þar, er að draga fram litla einstaklinginn strax og hann kemur í skólann og gera hann sjálfsstyrkan og læsan, láta honum líða vel, láta hann ekki verða út undan, láta hann ekki fara út í horn og láta gera grín að honum, vera ekki lagður í einelti.

Þá kemur að öllum börnunum okkar sem eru af erlendum uppruna og öllum börnunum okkar sem verða út undan, bara út af því að þau eiga líka erfitt með tungumálið sitt. Þetta eru stór verkefni og rosalegar áskoranir en ég tel að með góðri samstöðu og aðkomu allra þeirra góðu og færu sérfræðinga sem við eigum, sem koma að menntamálum og koma að börnunum okkar, koma að öllum málum sem varða hvort sem heldur er útlendingamál eða önnur mál, þá muni okkur takast að gera þessa menntastefnu að veruleika. En ég vildi gjarnan sjá að það gengi hraðar og betur fyrir sig og ég vildi gjarnan sjá að tekið yrði út úr námskránum á fyrstu árunum eitthvað sem ég tel ónauðsynlegt á meðan börnin okkar eru ekki orðin læs. Af hverju að leggja of þunga klafa á mann þegar maður getur ekki borið byrðarnar? Af hverju ekki frekar að lofa okkur að fara stígandi inn í það og taka því fagnandi og finnast spennandi að nú séum við að fá nýja bók af því að við getum lesið hana? Það er jafn óspennandi að fá nýju bókina og vita nákvæmlega ekkert hvað stendur í henni vegna þess að staðreyndin er sú að ef erfiðlega gengur að læra að lesa og koma sér inn í það í byrjun þá vex ákveðinn kvíði og vanmat hjá litla einstaklingnum og þó að honum gæti gengið betur þá er hann kominn í svo erfiða stöðu af því að honum finnst hann ekki geta staðið sig nógu vel. Þótt börnin séu ekki margra ára gömul vita þau nákvæmlega hvernig þeim líður og það er okkar að lesa í það. Það er okkar, fullorðna fólksins, að hjálpa þeim hvernig sem við förum að því og ef það þýðir að við þurfum að stíga út úr einhverjum grjóthörðum föstum ramma sem segir að þau eigi að læra dönsku 10 ára eða ensku 11 ára og vera bara komin með þetta allt saman, þá eigum við að gera það. Þau eiga að læra um búddisma og hindúisma og alls konar trúarbragðafræði og þau eiga læra um öll löndin og höfuðborgirnar og söguna. Það er allt saman frábært. En væri ekki betra að þau kynnu þetta allt saman þegar þau útskrifast úr tíunda bekk, væru búin að læra þetta allt saman þá, og væru líka blússandi læs? Mætti þá ekki ýta aðeins til hliðar einhverju af því sem er algjörlega að sliga þau?

Virðulegi forseti. Við skulum ekki gleyma því að samfélagsgerðin, fjölskyldugerðin, sem við byggjum á í þessu samfélagi er einfaldlega þannig að stór hluti af því sem börnin okkar eiga að læra er gert í heimanámi. Hjá mörgum er heimanám og foreldrar báðir að vinna úti, þ.e. þeir sem ekki þegar hafa misst vinnuna í því hroðalega árferði sem er í dag, við skulum hafa fyrirvara með það. Foreldri sem kemur heim úrvinda eftir langan vinnudag og á eftir að kenna úrvinda barninu sínu að lesa eða hvað sem er, er ekki í öfundsverðri stöðu. Við ættum frekar að hafa það fjölskylduvænna, að börnin okkar læri og gangi frá öllu í skólanum. Þau koma heim eftir sinn langa vinnudag, þau eru þreytt eins og við, og þá á ekki að taka við ný vinna. Þá á ekki að taka við eftirvinna. Þau eru búin að vera í vinnunni frá því klukkan átta á morgnana og þau eiga ekki að vinna lengri vinnudag en við hin þannig að ég segi: Það gæti verið meiri gleði þá fyrir fjölskylduna að koma saman og vera búin í vinnunni og geta einbeitt sér að börnunum. Það væri meiri gleði inni á heimilinu.

Við getum framfylgt menntastefnunni sem hæstv. menntamálaráðherra kemur hér með, þessari fallegu og bjartsýnu menntastefnu sem sýnir ekkert annað en velvild til alls og allra, en við verðum að gera það með því að stíga út fyrir boxið. Ef við ætlum virkilega að kenna börnunum okkar að lesa þá verðum við að gera meira en að tala um einhverja snemmtæka íhlutun. Það verður að vera viðbót. Það verður að taka af þeim eitthvað af klöfunum sem þau eru að fá á herðarnar þegar þau eru ólæs í öðrum og þriðja og fjórða bekk. Það er ekki hægt annað því að annars líður þeim ekki vel.

Í rauninni hef ég svo sem ekkert meira að segja, það er mér hjartans mál að við séum ekki svona ofboðslega lágt skrifuð. Ef við berum okkur t.d. saman við löndin í kringum okkur þá stöndum við okkur bara alls ekki nógu vel þegar kemur að því að mennta börnin okkar, því miður. En ég segi bara bjartsýni og bros og ég trúi því að við öll sem hér erum séum tilbúin, og allir sem að þessum málum koma, til að taka utan um það og ég er tilbúin að styðja hæstv. menntamálaráðherra í öllum hennar góðu verkum.