151. löggjafarþing — 21. fundur,  17. nóv. 2020.

menntastefna 2020--2030.

278. mál
[17:30]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar aðeins að fara yfir nokkra þætti í menntastefnunni til þess svara þeim áhyggjum sem hv. þm. Inga Sæland hefur. Þegar farið er yfir einstaka þætti menntastefnunnar þá er fyrsti liðurinn nám við allra hæfi. Þar stendur, með leyfi forseta:

„Samfélaginu ber skylda til þess að hlúa sem best að velferð barna og ungmenna og tryggja öllum tækifæri til þess að þroskast og dafna á eigin forsendum innan menntakerfisins. Mikilvægt er að tryggja að allir finni sig í menntakerfinu og að stuðlað sé að jafnrétti innan þess.“

Nákvæmlega það sem hv. þingmaður hefur áhyggjur af. Staðreyndin er sú að ef um er að ræða dreng sem býr utan höfuðborgarsvæðisins og er með annað móðurmál en íslensku þá vegnar honum ekki eins vel í menntakerfinu. Þess vegna segir fyrsti liðurinn að það verði að vera jafnrétti innan menntakerfisins. Liður númer tvö, menntun um allt land, búseta á ekki að hafa áhrif á möguleika til náms, tekur einmitt á þessum þætti vegna þess að við sjáum að þarna er munur. Þriðji þátturinn, fjölbreytt samfélag: „Ísland er fjölmenningarsamfélag sem nýtir þá auðlind sem felst í fjölmenningarlegu skólastarfi, fagnar margbreytileika nemenda og nýtir til að efla samfélagið.“ Þarna erum við einmitt að fjalla um börn með annað móðurmál en íslensku. Í fyrsta sinn er búið að gera heildstæða stefnu til að ná utan um þennan hóp. Í fyrsta sinn er komið stöðumat til að meta hæfni og færni þessara barna þegar þau koma inn í menntakerfið.

Ég er hjartanlega sammála hv. þingmanni að við þurfum að gera betur. En þegar farið er yfir menntastefnuna þá er alveg ljóst hvert við stefnum. Þetta verður framúrskarandi menntakerfi árið 2030.