151. löggjafarþing — 21. fundur,  17. nóv. 2020.

menntastefna 2020--2030.

278. mál
[17:32]
Horfa

Inga Sæland (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir andsvarið. Eins og ég sagði áðan þá hef ég ekkert út á menntastefnuna sem slíka að setja, hún er geislandi fögur, eins og þar stendur. Það vantar ekkert upp á. Það vantar ekki þar upp á bjartsýni og bros og að gera sitt besta og að jafna aðstöðu nemenda úti um allt land og gera allt fyrir alla. Það sem ég er að tala um er að það er ekki nóg. Mér finnst ekki nóg að vera með þetta á blaði, frekar en bara stjórnarsáttmála eða hvað annað, um góðan vilja til góðra verka. Ég vildi í rauninni sjá aðgerðaáætlun, mjög stífa aðgerðaáætlun um það hvernig hæstv. menntamálaráðherra hyggst taka á þeim vanda sem ég hef verið að tala um hér, sem verið hefur risavaxinn vandi í mínum huga frá því að ég kom á þing og frá því að ég kynnti mér þær aðstæður sem mörg börn búa við hvað leshæfileika varðar. Þegar ég tala um að breyta kennsluforminu og kannski námsgögnum og gera hitt og þetta, þá er ég að tala um aðgerðir, ekki bara að setja orð á blað.

Ég ítreka við hæstv. ráðherra að ég er ekki að setja út á menntastefnuna sem slíka, alls ekki. Ég er bara að segja að mér finnst við þurfa að gera betur. Mér finnst við þurfa að mölva niður ákveðna veggi og breyta áherslunum sem sett hafa börnin okkar í þá stöðu sem þau eru í dag. Ef við gerum það ekki mun þessi aðstaða ekkert breytast, þá verður áfram ákveðinn hópur, allt of stór prósenta, bæði af drengjum og stúlkum sem útskrifast úr 10. bekk illa læs og með lélegan lesskilning og eiga í rauninni enga framtíð fyrir sér í menntakerfinu til framtíðar, ekki neina. Það er bara því miður þannig. Mig langar að sjá breytingar á því verða að veruleika.