151. löggjafarþing — 21. fundur,  17. nóv. 2020.

menntastefna 2020--2030.

278. mál
[17:39]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Við fjöllum um tillögu til þingsályktunar um menntastefnu fyrir árin 2020–2030. Þetta plagg lítur út sem rosalega flott stefna og rosalega flottar umbúðir, en ég vona heitt og innilega að þetta verði ekki bara umbúðir heldur innihald og að séð verði til þess að við tökum skólakerfið okkar í gegn og stokkum það upp. Eins og fram kom áðan var gerð PISA-könnun 2018 og þar kom fram að 34% pilta áttu í erfiðleikum með að skilja einfaldan texta. Það er auðvitað grafalvarlegt mál. Það segir okkur líka að í háskólum, eins og staðan er í dag, eru 30% piltar og 70% stúlkur. Það hlýtur að endurspegla þetta. Piltarnir virðast einhvern veginn hafa setið eftir í skólakerfinu. Við verðum líka að átta okkur á því að í kerfinu eru piltar líklegri til að nota ólögleg efni, þeir eru líklegri til að vera gerendur og þolendur í eineltismálum og sjálfsmynd þeirra er eitthvað brotin, a.m.k. hjá einhverjum þeirra, sérstaklega ef þeir dragast aftur úr í skólakerfinu og ná hvorki læsi né góðum lesskilningi. Þá erum við komin í alvarlega stöðu. Það segir sig sjálft. Þar af leiðandi er meiri hætta á að þeir flosni upp úr skóla. Ef við skoðum t.d. fangelsin þá glíma þar 40–60% fanga við lestrarörðugleika, það er grafalvarlegt mál, og 50% af þeim eru með ofvirkni, athyglisbrest eða ADHD. Þar er nefnilega líka pottur brotinn í kerfinu hjá okkur. Það eru biðlistar eftir þessum greiningum í kerfinu í dag og við erum meira að segja komin í þá furðulegu stöðu að það eru eiginlega biðlistar til að komast á aðalbiðlistann, sem er auðvitað alveg skelfilegt og okkur til háborinnar skammar vegna þess að þetta eru þeir sem þurfa mesta aðstoð og eru í mestri hættu á að flosna upp úr skólunum.

Það er fleira í þessu, eins og staða þeirra sem eru heyrnarlausir, blindir eða fatlaðir á einhvern hátt. Það kerfi þarf líka að taka til gagngerrar endurskoðunar. Þar þarf meiri aðstoð, meiri fagþekkingu og betri aðkomu að þeim málum. Við getum líka spáð í hvað kerfið okkar getur verið miskunnarlaust eða skrýtið. Við erum kannski með foreldra langveikra barna og fatlaðra og þau fá styrk. Viðkomandi foreldri vill kannski að nýta sér það í þessu ástandi, og taka bara einn kúrs í skóla. Bara einn kúrs. En þá missa þau bæturnar. Þá er þeim refsað í stað þess að verðlauna viðkomandi. Þetta getur verið læknir, sem ætlar að taka eina önn í skóla, hjúkrunarfræðingur, prófessor eða smiður sem vill nýta sér þetta, en þá erum við að refsa þeim. Við megum ekki gera svona hluti. Það er eitthvað rangt við þetta allt saman.

Við erum búin að búa til ákveðinn kassa í menntakerfinu í dag en því miður passa bara ekki allir inn í kassann. Við þurfum að fara að hugsa út fyrir hann, við þurfum að virkja einstaklinginn. Mér finnst þetta vera komið á það stig að við þurfum að stokka upp skólakerfið að mörgu leyti. Það er mjög skrýtið að fara í gegnum skólakerfið og vera ekki læs, vera ekki með neinn lesskilning en eiga samt að læra tungumál, læra landafræði, læra ýmsa hluti sem maður getur ekki lært vegna þess að maður hefur ekki grunninn. Kerfið virðist ekki geta brugðist við þessu og þá verða þessir einstaklingar bara eftir. Þarna þurfum við að bregðast vel við.

Mér líst alveg glimrandi vel á þessa stefnu og að það sé nám fyrir alla er bara frábært. Ég get heldur ekki annað séð en að það eigi að auka t.d. starfs-, iðn- og tækninám. Það er bara frábært ef við förum að gera þeim greinum hærra undir höfði í menntakerfinu, vegna þess að við getum ekki og eigum ekki að gera annað eins og staðan er í dag. Listnám, verknám, starfsnám, iðnnám og tækninám er auðvitað framtíðin.

En eins og ég lagði hér áherslu á er aðalatriðið að efla læsi. Svo megum við ekki gleyma einum af mikilvægustu þáttunum sem er geðræktin, sem kemur fram í D.2. Það er hlutur sem taka þarf mjög vel á, vegna þess að þar er pottur brotinn. Svo er líka annað sem kemur fram hér og það er rödd nemendanna. Um leið og ég sá þetta, rödd nemenda, þá mundi ég að einhvern tíma vorum við á fundi með stúdentum og þeir sögðu: Jú, við fáum að vera með og jú, við erum kölluð inn í nefnd, en það er ekkert hlustað á okkur. Það skilar engu.

Það hlýtur að vera rosalega sárt. Það er sagt: Nú erum við að fjalla um ykkar mál, tökum ykkur inn í nefndina og þið fáið að vera með. Það er eins og þau fái að vera með í lestinni en þau hafa á tilfinningunni að þau séu að eyða tíma, dýrmætum tíma í þessa vinnu og að það sé ekkert hlustað. Þetta hefur svolítið komið fram í þessu ástandi, í Covid-málunum, þá var sérstaklega bent á þetta. Stúdentunum fannst þetta mjög sárt, sem er ósköp skiljanlegt vegna þess að maður vill láta hlusta á sig, við viljum það öll. Þess vegna segi ég að við eigum að virkja þetta unga fólk sem vill koma og taka þátt í vinnunni og benda okkur á þá galla sem eru í kerfinu. Við eigum að hlusta og sérstaklega að nota það sem þau segja til að bæta ástandið.