151. löggjafarþing — 21. fundur,  17. nóv. 2020.

menntastefna 2020--2030.

278. mál
[17:47]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég fagna þessum umræðum hér á þingi. Þær eru mjög mikilvægar og þær koma akkúrat inn á kjarna þessarar menntastefnu. Ég átta mig á því sem mennta- og menningarmálaráðherra að mesta hreyfiafl samtímans er menntun. Ef ungur drengur eða ung stúlka eru ekki komin með ákveðinn lesskilning þegar þau hafa náð ákveðnum aldri, þá minnka tækifæri viðkomandi verulega. Ég ætla að taka sem dæmi eitt af því sem við sjáum og sem hefur verið gerast, og ég ætla að nefna Bandaríkin í þessu samhengi. Í þeim ríkjum Bandaríkjanna þar sem ekki hefur verið fjárfest nægjanlega vel í menntun eða nýsköpun, verða ekki til ný störf. Fólkið flyst frá þeim ríkjum. Við þekkjum þetta líka á Íslandi. Ef við pössum ekki upp á sterka, staðbundna menntun myndast ójöfnuður. Mér finnst menntastefnan einmitt ná utan um þá þætti sem við ræðum hér.

Mig langar að nefna annað. Á tímabilinu 2006–2010 var ég varaformaður menntaráðs Reykjavíkurborgar. Eitt af því sem við lögðum sérstaka áherslu á voru börn með annað móðurmál en íslensku, og að huga að drengjunum. Fyrir þann tíma hafði ekki verið lögð sérstök áhersla á það. Þetta þurfum við að gera á landsvísu. Þessi menntastefna nær einmitt utan um þessa þætti. Og þegar hv. þm. Inga Sæland nefnir að það þýði ekkert að vitna í einhverjar blaðsíður o.s.frv., þá myndi ég einmitt segja: Jú, það er býsna gott, vegna þess að þetta er loforð þingsins um að hér verði framúrskarandi menntakerfi árið 2030.