151. löggjafarþing — 21. fundur,  17. nóv. 2020.

menntastefna 2020--2030.

278. mál
[17:56]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir framsöguna áðan um menntastefnuna. Stefnur eru þess eðlis að þær bera allt það besta í sér og leggja áherslu á allt það besta sem við reynum að draga fram. Það er eðli stefna. Hvernig við náum því fram er auðvitað undir okkur komið, undir ríkinu komið. Það er undir þeim komið sem vinna með stefnuna, þ.e. starfsfólkinu, auðvitað þeim stofnunum sem að henni koma og sveitarfélögunum líka.

Mér finnst mikilvægt að menntastefnan tali við námskrána og að við berum dálítið saman hvort hér vanti eitthvað eða hvort hér sé eitthvað sem við þurfum að skoða betur eða eitthvað slíkt, þannig að þessar tvær mikilvægu stefnur tali saman, þ.e. námskráin sem er jú grundvallarplagg skólanna og svo menntastefna sem á að vera yfir.

Það hefur margt komið fram og þar sem ég kem innan úr skólakerfinu rennur mér blóðið til skyldunnar. Mér fannst kannski helst til dökk myndin sem einhver dró upp áðan. Reynsla mín, upplifun og þekking á skólakerfinu er a.m.k. sú að þar starfar mjög frjótt fólk sem í vinnu sinni reynir sitt besta til að hafa menntunina mjög fjölbreytta. Hér var nefnt rétt áðan það að læra að lesa í gegnum leik. Það er auðvitað eitt af því sem er gert þegar börn koma úr leikskólanum inn í grunnskólann. Skólakerfin tala enn meira saman í dag en þau gerðu. Þetta er gríðarleg þróun sem hefur orðið á ekki svo mörgum árum, að mínu mati a.m.k. Það er auðvitað eitt af því sem skiptir máli.

Sannarlega glímum við við alls konar erfiðleika í skólunum. Þar eru börn sem búa ekki eins vel og önnur eða eiga við ýmsa erfiðleika að etja og það er oft flókið að finna úrlausnir sem passa fyrir alla. Ég vil leyfa mér að segja að kennarar geri sitt besta til að reyna það. Markmiðið er auðvitað að efla færni allra nemenda til að ná fram almennri velferð þeirra og sinna einstaklingsbundnum þörfum þeirra. Ég hef velt því líka fyrir mér oft og tíðum, og það var mikið rætt og hefur í gegnum tíðina verið mikið rætt, að skólastarfið sé og hafi verið dálítið mikið niðurnjörvað í mínútur og allt slíkt. Það hefur sumum fundist vera til trafala fyrir starfið þó að það hafi breyst líka í gegnum tíðina að einhverju leyti. Það er eitt af því sem að mínu mati þarf einhvern veginn að endurskoða. Það stýrist dálítið í gegnum kjarasamninga og mínúturnar sem þar eru undir. Það setur sannarlega ákveðnar skorður og okkur hefur kannski ekki gengið alveg nógu vel að vinna með það að mínu mati.

Ég held að það sé mikilvægt fyrir nemandann að ná heildrænum árangri. Talað er um, eins og nefnt var áðan, að læra í gegnum leik. Það er þessi skapandi hugsun og verkþekking sem eykur færni, m.a. til að lesa. Um leið og nemanda líður vel í því sem hann er að gera er hann fljótari að tileinka sér lesturinn.

Af því að hér var talað um langan vinnudag nemenda þá fjallaði lokaverkefni mitt og samstarfskonu minnar m.a. um heimanám. Mér þykir það eiga að vera hið allra minnsta en það á alltaf að vera í formi þess að lesa. Það er líka hægt að gera heima á margvíslegan hátt. Það þarf ekki að vera kvöð eftir vinnudag. Það er hægt að gera á marga vegu og fyrst og fremst þurfa foreldrar að gefa sér tíma til að sinna því, ekki að vera að gera eitthvað annað á meðan þeir eru að hlusta.

Hér var rætt um PISA og að allir séu settir í sama box en PISA setur nemendur vissulega í sama box. Það er umdeildur mælikvarði á árangur nemenda og gæði skólastarfs, eins og flest próf sem eru samræmd af einhverjum toga. Ég held að það verði aldrei svo að öllum líki en sannarlega er gott að hafa einhver viðmið. Við þurfum auðvitað að hafa þau til að geta togað okkur eitthvað áfram. En við megum ekki festast í þeim enda eru grunnskólarnir sérstaklega, og reyndar líka framhaldsskólarnir, með fjölbreytt námsmat þar sem hæfileikar nemenda njóta sín.

Ég vildi bara koma hingað upp þar sem mér finnst málið mikilvægt. Ég hlakka til að vinna með málið þegar við fáum það til umfjöllunar í allsherjar- og menntamálanefnd og ég vona að við getum afgreitt það tiltölulega hratt af því að hér eru góð áform, áform um að innleiða stefnuna í þremur tímabilum og það er mikilvægt að geta byrjað sem allra fyrst að vinna eftir henni. Það verður áhugavert að sjá hvernig til tekst eftir fyrstu sex mánuðina. Við getum svo haldið áfram og velt því fyrir okkur hvort eitthvað þurfi að lagfæra eða hvort okkur hafi tekist sérstaklega vel með eitthvað og þá hvers vegna. Þetta starf er bara þess eðlis að við viljum rýna það alla daga.

Ég er ánægð með að það sé komin fram stefna. Mér finnst skipta máli að við höfum verkfæri til að vinna með og ég er sammála því sem fólk hefur talað um, að það sé sammála stefnunni, að hún sé afskaplega fín og allt það. Eins og ég sagði í upphafi eiga stefnur að vera þannig en það skiptir máli að við búum svo um hnútana að skólarnir geti farið eftir þeirri stefnu. Þar berum við ábyrgð hér á Alþingi en einnig sveitarfélögin.

Af því að við erum búin að tala svo mikið um þetta erfiða ástand sem felst í áskorununum vegna Covid finnst mér ágætar þær fréttir sem eru að berast af auknum bókalestri á þessum tímum — en búið er að gera tvær kannanir með dálitlu millibili — og ekki síst þar sem börn eru á heimili. Það þykir mér afskaplega jákvætt og ég vona að það haldi áfram þó að frelsi okkar verði vonandi meira fljótlega.