151. löggjafarþing — 21. fundur,  17. nóv. 2020.

menntastefna 2020--2030.

278. mál
[18:04]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér er ljúft og skylt að fara í andsvör og fara aðeins yfir það sem fram kom í máli hv. þingmanns er varðar aðalnámskrána. Við fjöllum að sjálfsögðu um hana vegna þess að samspil allra þátta í menntakerfinu og samræmi á milli þeirra skiptir mjög miklu máli. Við nefnum undir liðnum E.2., með leyfi forseta:

„Aðalnámskrár skulu endurspegla menntastefnu og styðja við hæfni til framtíðar. Þær verða endurmetnar með þetta í huga og tryggt að þær styðji við alþjóðlegar skuldbindingar sem Ísland hefur undirgengist. Áhersla verður á að í boði séu fjölbreytt námsgögn sem taka mið af möguleikum stafrænnar miðlunar og margbreytileika nemenda.“

Með því er verið að tryggja að samspil sé á milli menntastefnu og aðalnámskrár fyrir öll skólastig. Þegar við vorum að undirbúa menntastefnuna var námskráin að sjálfsögðu grunngagn í því eins og ég held að hv. þingmaður sjái.

Ég tel mjög mikilvægt að við ræðum að samþykkt sé þingsályktun um menntastefnu sem nær til framtíðar og að Alþingi sé sammála um þessar fimm stoðir, þ.e. jöfn tækifæri fyrir alla, kennslu í fremstu röð, hæfni fyrir framtíðina, vellíðan í öndvegi og gæði í forgrunni. Svo er hægt að byggja á því þannig að ákveðinn stöðugleiki og fyrirsjáanleiki sé í því hvernig við nálgumst menntun í landinu. Við notuðum líka mikið af tölfræði þegar við vorum að setja menntastefnuna saman og skoða hvar við gætum gert betur, hverja við þyrftum að styðja betur við. Þannig varð menntastefnan til.