151. löggjafarþing — 21. fundur,  17. nóv. 2020.

menntastefna 2020--2030.

278. mál
[18:06]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka ráðherranum andsvarið. Ég þykist alveg vita að þetta grundvallarplagg hafi einmitt verið haft til grundvallar þegar verið var að vinna þetta. Það sem ég er kannski að velta upp eru hugtök eins og sjálfbærni og ýmislegt fleira sem mér fyndist að mættu koma fram, hugtök sem við lögðum mikla áherslu á þegar við vorum að breyta námskránni síðast sem gríðarlega mikil vinna fór í. Það er kannski eitt og annað slíkt sem ég myndi vilja lesa saman. En ég er alveg sammála hæstv. ráðherra og þeim sem hér hafa talað um að þetta er gott plagg og þar er farið í örstuttu máli yfir áherslurnar.

Af því að ég kem úr náms- og starfsráðgjöfinni veit ég að þar komu fram athugasemdir þar sem var óskað eftir að textinn þar yrði ítarlegri. Það er væntanlega eins og með svo margt annað að fólk vill koma sínu vel á framfæri. Það kemur væntanlega allt í ljós þegar við förum að vinna málið í nefnd og fáum umsagnir um það sem verða væntanlega fyrst og fremst frá skólasamfélaginu og frá sveitarfélögum líka, myndi ég ætla.

Ég er alla vega ánægð með þetta plagg því að ég tel mjög mikilvægt að við höfum svona ramma. Það leiðbeinir okkur áfram um það hvernig við viljum sjá þetta til langrar framtíðar, eins og ráðherrann nefndi, en líka um leiðirnar sem við þurfum að fara að því. Það er mjög mikilvægt að við getum séð þær fyrir þegar kemur að innleiðingunni, að við sjáum á hverju tímabili mælikvarðana, aðgerðirnar og allt það. Það held ég að sé afar mikilvægt.