151. löggjafarþing — 21. fundur,  17. nóv. 2020.

menntastefna 2020--2030.

278. mál
[18:09]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er alveg ljóst að sjálfbærni skiptir mjög miklu máli og þessi menntastefna endurspeglar auðvitað allar þær alþjóðlegu skuldbindingar sem tengjast heimsmarkmiðunum, menntun fyrir alla, sjálfbærni og annað. Það er að sjálfsögðu haft í huga þegar við vinnum að menntastefnunni. Það verður líka að segjast eins og er að þegar við vorum að vinna þingsályktunina sjálfa þurfti að stytta hana svolítið, svo að ég sé alveg hreinskilin. Krafa var um að hún væri gerð með þessum hætti. Ég er mikil samvinnukona og ef eitthvað kemur fram í hv. allsherjar- og menntamálanefnd um að við þurfum að bæta í eða eitthvað slíkt þá er ég mjög opin fyrir því. Þingsályktunin var fyrst 30 blaðsíður, svo að ég segi það alveg eins og er. Ef eitthvað hefur fallið út sem við viljum ekki er ég bara mjög opin fyrir því að það sé endurskoðað, svo að ég upplýsi hv. þingmann um það. Eins og kom fram í framsögu minni var mikil áhersla á sjálfbærni og sjálfbæra þróun. Ég tel að hlutirnir lifi lengur ef nálgunin er út frá sjálfbærni í öllu, hvort sem það er greiðslujöfnuður, lestur barna eða aðkoma foreldra. Það á líka við um menntastefnuna.