151. löggjafarþing — 21. fundur,  17. nóv. 2020.

menntastefna 2020--2030.

278. mál
[18:12]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Mig langar að byrja á því að óska hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra til hamingju með þessa menntastefnu. Ég held að það sé til fyrirmyndar að við tökum hana til umræðu hér á þingi. Eins og fram kom í andsvarinu er hún stutt og hnitmiðuð, en mér sýnist býsna vel valdir þeir lykilþættir sem ég held að við ættum öll að geta verið sammála um. Ég náði því miður ekki að fylgjast með allri umræðunni sem farið hefur fram um þetta mál. Það var vegna þess að ég átti fund með ungum umhverfissinnum. Ég nefni það hér vegna þess að mér finnst við allt of oft tala um hvert ungdómurinn sé eiginlega fara og hver vandamálin séu í menntakerfinu okkar. En eftir að hafa setið fund með ungum umhverfissinnum sem hafa óskað eftir því að funda hér með öllum þingflokkum þá hugsaði ég: Vá, hvað þetta er flott ungt fólk sem hefur fyrir því að hafa samband við þingmenn og koma sínum málum á framfæri með málefnalegum og flottum hætti. Nýverið komu til okkar í hv. efnahags- og viðskiptanefnd ungar konur úr grunnskóla sem færðu rök fyrir því að afnema ætti virðisaukaskatt af tíðavörum. Ég var nú virk á mínum yngri árum en ekki hefði mér hugkvæmst að fara að skrifa erindi til þingsins og mæla fyrir slíkum málum. Ég held að við getum verið stolt af unga fólkinu okkar og þá hlýtur að vera eitthvað ofboðslega gott við menntakerfið fyrst unga fólkið er eins og það er.

Ég hjó eftir því í upphafi þessarar umræðu að hv. þm. Inga Sæland talaði fyrir íslenskunni og lestrinum sem ætti að skipta öllu máli og að kannski ætti ekki að kenna neitt annað en það. Ég vil alls ekki fara þá leið. Ég á þrjú börn og alla vega tvö þeirra glíma við lesblindu og hafa átt í miklum erfiðleikum með að læra að lesa og fundist það leiðinlegt, vegna þess að allt sem er erfitt er yfirleitt leiðinlegt. Þá er svo mikilvægt að skólinn okkar kenni börnum ýmislegt á yngstu stigunum og sé með fjölbreytt námsframboð þannig að krakkarnir finni hvar styrkleiki þeirra liggur og nái að þroskast í gegnum hann. Ég held að það sé gríðarlega mikilvægt.

Þá kom aðeins til umræðu þetta með aukagreinarnar, sem ég held að sé mikilvægt, en ég átta mig samt sem áður á því að við í stjórnmálunum og við sem eldri erum höfum kannski verið allt of dugleg við það, eins og ég hef heyrt suma kennara segja, að henda alls konar verkefnum inn í skólakerfið. Því miður er það bara þannig að við búum í breyttu samfélagi og við gerum alveg ofboðslega miklar kröfur til menntastofnana okkar, og miklu meiri kröfur en gerðar voru áður. Það getum við líka þakkað hæfu fólki sem starfar í skólunum. Síðustu mánuðir hafa svo sannarlega sýnt að þarna er hæft fólk sem hefur einhvern veginn tekist að umbylta öllu sínu starfi á tímum Covid og tekist á við gríðarlegar takmarkanir. En allt sem ég hef séð hefur verið alveg ofboðslega vel gert og á það fólk miklar þakkir skildar fyrir það.

Mig langaði aðeins að koma inn á það sem hæstv. ráðherra nefndi áðan um mikilvægi þess að námsgögn séu við hæfi beggja kynja og vil nefna kennsluaðferðir og aðbúnað í skólum. Ég á, eins og ég sagði áðan, þrjú börn, ég á tvo drengi og alla vega annar drengurinn er algerlega handviss um að skólinn sé algjörlega sniðinn fyrir stúlkur en ekki drengi. Og hvað sem okkur kann að finnast um það, hvort það er rétt eða rangt, þá er það hans upplifun og það er slæmt. Þannig að við þurfum að huga betur að því að bæði kynin og auðvitað bara allir einstaklingar upplifi sig þannig að verið sé að horfa á þá og þeirra þarfir. Mér sýnist stefnan taka mjög vel á því og við höfum lengi talað fyrir einstaklingsmiðuðu námi.

Svo er aftur á móti spurning hvernig skólunum er gert að koma til móts við þá kröfu sem við höfum sett fram um einstaklingsmiðað nám. Við þurfum að huga sérstaklega að því, og ég beini því líka til hæstv. menntamálaráðherra að huga sérstaklega að skólunum. Þá horfi ég einkum á grunnskólana sem eru á forræði sveitarfélaganna, sem við vitum að eru núna að glíma við töluvert tekjufall og þurfa að horfa vel í reksturinn. Þá vil ég líka brýna sveitarstjórnarfólkið okkar til að halda utan um skólana. Ég held að við höfum öll lært það í síðustu kreppu að það borgar sig ekki að spara aurana þegar kemur að skólakerfinu okkar.

Mig langaði að nefna hérna sérstaklega kafla C í menntastefnunni, varðandi hæfni fyrir framtíðina. Þetta er allt rosalega mikilvægt og þess vegna er erfitt að fara að raða því í mikilvægisröð, en punktur nr. 6, Sköpun og gagnrýn hugsun, held ég að sé grundvöllur hæfni til framtíðar, þ.e. að börnin okkar séu með gagnrýna hugsun, ég tala nú ekki um á tímum samfélagsmiðla þar sem upplýsingar flæða og börnin eru með tæki í vasanum þar sem þau geta fengið upplýsingar um nánast allt. Þar af leiðandi þurfa þau að hafa mjög gagnrýna hugsun til að átta sig á því hvað af þessu er rétt og satt og hvaða spurninga maður á spyrja þegar upplýsingar flæða. Sama er með sköpunina. Á tímum sem þessum þegar tæknin er alltaf að taka yfir nýja og nýja hluti þá er eitt sem við vitum að tæknin mun ekki taka yfir og það er sköpunin og hæfni til þess að horfa út fyrir kassann og finna nýjar leiðir til að skapa nýja hluti.

Mig langar líka að nefna kafla D, Vellíðan í öndvegi. Ég tek undir það og þarna er punktur nr. 2, um geðrækt og hversu mikilvæg hún er á tímum sem þessum. Við höfum talað mjög mikið um geðheilbrigðismál, aðgengi að sálfræðingum og höfum stigið stór skref í þessum sal, og hæstv. heilbrigðisráðherra líka, í því að efla geðheilsu og aðgengi okkar að meðferð varðandi slíkt. Þar þarf að hugsa inn á við og vera í forvörnum líka þegar kemur að geðheilbrigðismálum.

Heilsuefling er þarna nr. 1. Heilsuefling og geðrækt eru auðvitað algerlega samtvinnaðar. Við höfum lengi kennt börnum hversu mikilvægt er að borða hollan mat og hreyfa sig, allir eiga að vita eitthvað um það. En hvað með að rækta líka geðheilbrigðið og kenna börnum að takast á við mismunandi tilfinningar? Það er ógnvekjandi hversu mikið er um kvíða og oft og tíðum held ég að hægt væri að koma fyrr til móts við unga einstaklinga með því hreinlega að kenna þeim að takast á við mismunandi tilfinningar, nota aðferðir hugrænnar atferlismeðferðar, svo að ekki þurfi allir á þjónustu okkar frábæra heilbrigðisstarfsfólks að halda heldur geti sumir svolítið hjálpað sér sjálfir með ákveðnar forvarnir að leiðarljósi.

En ég óska hv. allsherjar- og menntamálanefnd góðs gengis við að fjalla um þetta mál og tel það mikilvægt, enda vitum við öll að grunnurinn að velferðarhagkerfi okkar liggur í menntuninni.