151. löggjafarþing — 21. fundur,  17. nóv. 2020.

menntastefna 2020--2030.

278. mál
[18:22]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra andsvarið og ég tek alveg undir það að læsi og lesskilningur er auðvitað undirstaðan að öllu öðru námi, það er þannig. Ég verð reyndar að segja og ég tek fram þegar ég ræði þessi mál — ég á marga góða vini sem eru kennaramenntaðir en ég er það ekki — að ég ætla ekki að þykjast vera neinn sérfræðingur í því. Ég er ekki meiri sérfræðingur en það að ég hef sjálf lært að lesa og kennt þremur börnum að lesa. Ég hef lengi pirrað mig á, svo ég noti bara það orðalag, áherslum á hraðlestur og að mæla orð á mínútu vegna þess að mér finnst lesskilningur svo miklu mikilvægari. Við sjáum í þessum greiningum að krakkar ná oft ágætisárangri í lestri en svo kemur bara í ljós á seinni stigum að lesskilninginn vantar. Það skiptir auðvitað mun meira máli en hraðinn þó að hann geti augljóslega unnið með manni, sérstaklega þegar lengra er komið inn í námið. En það er mikilvægt að við vinnum með lesturinn þannig að börn hafi gaman af því að lesa og þá komum við auðvitað inn á bækur. En við getum líka í námi almennt horft á aðgengi að alls konar námsgögnum af því að þau eru ekki lengur bara bækur, það er rosalega mikið á internetinu, Youtube-vídeó og slíkt. Börn í dag fá þekkingu sína af mismunandi miðlum og þar þurfum við að huga sérstaklega að íslenskunni. Ég tek heils hugar undir það.