151. löggjafarþing — 21. fundur,  17. nóv. 2020.

menntastefna 2020--2030.

278. mál
[18:28]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir að kynna okkur þessa stefnu. Stefna eins og þessi verður náttúrlega ævinlega almennt orðuð og jafnvel opin í báða enda. Það eru samt nokkur atriði sem ég hefði viljað hnykkja á, sem mér finnst að leggja þyrfti meiri áherslu á í þessari umræðu.

Ég vil byrja á því að fara með brot úr ljóði Einars Benediktssonar, sem heitir Móðir mín. Þar segir, með leyfi forseta:

Við spor hvert um Bifröst, að Heljar hyl,

til himins vor tunga hjó vörðu.

Þú last — þetta mál með unað og yl

yngdan af stofnunum hörðu.

— Ég skildi að orð er á Íslandi til

um allt sem er hugsað á jörðu.

Það er kannski þetta sem er grunnstefið í því sem ég ætlaði að nefna, sem er íslenskukennsla, læsi og málskilningur. Ekki bara lesskilningur heldur málskilningur. Ég hnaut um lið C.2., sem heitir Framþróun íslenskunnar. Ég hefði í sjálfu sér viljað kalla þennan lið Varðveisla íslenskunnar. Íslenskan er náttúrlega undir ágjöf hvaðanæva að. Ég veit ekki hvort ég á að segja að helstu óvinir íslenskunnar séu íslenskir auglýsingatextasmiðir og fjölmiðlamenn en það jaðrar við að ég geri það vegna þess að það ágæta fólk, sem á að vera leiðarvísir fyrir okkur öll, hefur fyrir okkur vont mál á hverjum einasta degi, og ekki bara okkur heldur börnunum okkar sem halda að íslenska eigi að hljóma svona, sem er ekki.

Í annan stað langaði mig líka til að hnykkja hér á íslensku fyrir útlendinga. Það er í sjálfu sér minnst á það en það er ekki minnst á börn. Rannsóknir hafa sýnt að barn þarf fyrst að læra móðurmálið sitt ef það á að ná árangri í máli númer tvö. Ef það gerir það ekki getur staðan orðið sú að barnið nær ekki færni í móðurmálinu sínu og ekki heldur í máli númer tvö. Við höfum því miður þegar dæmi um þetta þar sem börn af erlendum uppruna eru hvað fjölmennust á Íslandi vegna þess að við gættum ekki að þessu á sínum tíma þegar þau komu hingað. Við þurfum að vinda bráðan bug að því að vinna á þessu vandamáli.

Hér er líka liður A.4, um snemmbæran stuðning, og aftur segi ég: Svona stefna þarf örugglega að vera almennt orðuð o.s.frv., en ég sakna þess nokkuð að þarna skuli t.d. ekki vera sérstaklega minnst á lesblindu, einhverfu og ADHD. Að mínu áliti og margra annarra þarf að fara í sérstakt átak núna, og hefði þurft fyrir löngu, til að aðstoða fólk sem er að glíma við lesblindu. Jú, hér er talað um að finna út sem fyrst hvaða börn þurfa á stuðningi að halda og hvar, ég virði það. En ég segi aftur: Ég hefði viljað að tekið væri á þessum þremur áskorunum, þ.e. lesblindu, einhverfu og ADHD. Allt of lengi hafa einstaklingar sem glíma við þetta þrennt verið afgreiddir í skólakerfinu, að þeir geti ekki lært, að það sé eitthvað að þeim o.s.frv.

Ég hitti ágætan mann ekki alls fyrir löngu, á fimmtugsaldri, sem rekur stórt fyrirtæki í byggingariðnaði og er mjög farsæll. Hann sagði mér að hann hefði glímt við lesblindu alla sína ævi. Honum gekk mjög vel í námi en hann þurfti að berjast í gegnum námið af því að hann var að glíma við lesblindu. En hann ætlaði ekki að hætta fyrr en hann gæti lesið sér til skemmtunar, ekki bara til gagns heldur til skemmtunar, og því fór hann á sérstakt námskeið. Hann sagði við mig: Það er á síðustu einu til tveimur árum sem ég get lesið bók án þess að líða eins og ég sé sjóveikur. Þessi ágæti maður barðist og hann hafði sigur. En það eru mjög margir sem berjast en gefast upp, skiljanlega. Það er það fólk og það eru þau börn sem við þurfum að grípa. Þess vegna eru það mér nokkur vonbrigði að þetta atriði skuli ekki vera sett inn. Okkur er brýn þörf á því að efna til átaks til þess að koma auga á lesblindu og aðstoða fólk alveg fram eftir ævinni til að vinna bug á henni. Það kemur kannski inn á það sem hér er kallað Menntun alla ævi. Það er mjög göfugt en mér finnst mjög brýnt að þetta atriði verði sett þar inn.

Fólk sem glímir við einhverfu er oft haldið snilligáfu á ákveðnum sviðum sem þarf að rækta og næra til að þetta fólk njóti sín, til að þessi börn njóti sín og til að þeim vegni betur. Þetta er það sem ég hefði kannski viljað fá meira þarna inn, að vísu er það líka annað. Ég er ekkert mjög impóneraður yfir kaflanum um læsi. Þegar ég tala um málskilning þá á ég t.d. við að lykillinn að því að öðlast málskilning getur verið að læra ljóð. Nú glottir einhver og segir að þetta sé bara út af aldrinum sem ég er á og allt það, en það er ekki svoleiðis. Ég lærði ljóð þegar ég var barn og aldrei mér til gagns, fór ekki að lesa ljóð mér til gagns fyrr en rétt fyrir miðjan aldur. Ég missti þar með af ýmsum gullkornum sem hafa fylgt mér síðan. Þetta er svo auðvelt núna. Við getum kynnt Jóhannes úr Kötlum fyrir börnunum með því að syngja með Valgeiri Guðjónssyni, svo að ég nefni eitt dæmi. Við getum lært Stein Steinar með því að syngja með Magnúsi Eiríkssyni. Þetta er bara spurning um aðferð. Síðan er náttúrlega alls ekkert skilyrði að ljóðahöfundur sé löngu dauður til að njóta hans. Kennum börnunum ljóðið hans Megasar, Tvær stjörnur, svo að ég nefni bara eitt dæmi. Þetta er eitthvað sem mér finnst að ætti að koma hér inn.

Í ljósi þess sem maður sér og heyrir til fólks á ýmsum aldri þá finnst mér einhvern veginn að móðurmálskennsla undanfarandi ára hafi nánast verið í rúst. Við verðum að bregðast við á næstu tíu árum. Hér segir að þetta sé spurning um framþróun en ég vil heldur tala um varðveislu, vegna þess að ef við gætum ekki að okkur þá er ekkert víst að íslenskan verði til eftir tíu ár. Við þurfum að gæta að því. Nú er ég ekki að kynna neina hreintungustefnu en manni finnst það samt sem áður mjög súrt þegar fólk, bara þrítugt eða fertugt, kann ekki einföldustu fallbeygingar o.s.frv. Það bendir til þess að eitthvað hafi brugðist og við þurfum að bregðast við til þess að börnin okkar fari ekki öll að tala eins og danskar kaupmannsfrúr gerðu á miðri síðustu öld af því að þær nenntu ekki að læra beygingarnar.

Stefnan er góðra gjalda verð og ég þakka fyrir hana. Ég hlakka til að takast á við hana í allsherjar- og menntamálanefnd. Ég endurtek þakkir mínar til hæstv. ráðherra fyrir að koma með hana hér inn. Ég sé að það er drjúgt verk að vinna fyrir nefndina. Auðvitað tökum við vel við því, því að mennt er máttur.