151. löggjafarþing — 21. fundur,  17. nóv. 2020.

menntastefna 2020--2030.

278. mál
[18:41]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir þetta. Jú, jú, ég minntist á það í minni ræðu að hér væru kaflar um það sem ráðherrann fór yfir. Ég sagði það mína skoðun og ég er enn á þeirri skoðun að það sé ekki kveðið nógu sterkt að orði. Mér finnst núna að það þurfi að koma inn í þennan texta að hér þurfi átak, það sé átaks þörf og stefnan feli í sér að það verði gert átak nú þegar og það endist okkur út þann tíma sem stefnan tekur til. Ég gerði mér alveg grein fyrir því að bæði í kaflanum um snemmbæran stuðning og læsiskaflanum væri tæpt á þeim atriðum sem ég hef verið að tala um. En ég segi aftur: Ég hefði kosið að hér væri sterkar að orði kveðið. Ég sé t.d. ekki neins staðar hér og hef ekki séð núna, ef ég gaumgæfi textann aftur, að þetta vandamál sé sérstaklega tekið til, þessi áskorun sem ég talaði um hér áður, þ.e. að kenna börnum innflytjenda sitt eigið móðurmál meðfram því sem þau læra íslensku. Ég held að það sé algjör nauðsyn á því. Við erum að fá til okkar meira fólk að utan en við höfum lengi fengið og okkur ber skylda til þess, þegar við höfum tekið á móti því ágæta fólki og börnunum, að sjá til þess að þau verði ekki út undan í þjóðfélaginu og þau geti notið sinna hæfileika, Þess vegna hefði ég haldið að bara það eitt að fara betur yfir íslenskukennslu fyrir börn innflytjenda væri nauðsynleg viðbót við stefnuna.