151. löggjafarþing — 21. fundur,  17. nóv. 2020.

menntastefna 2020--2030.

278. mál
[18:46]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir þetta innlegg. Það er þannig nú um stundir að ég held að það sé ekki jafn mikið brottfall hjá neinum hópi í skólakerfinu núna, eða hafi verið undanfarin nokkur ár, og hjá einmitt þeim hópi barna sem hingað hefur flutt og hefur annað móðurmál en íslensku og hefur einmitt lent í þessari gryfju sem ég minntist á áðan. Þess vegna held ég að það sé alveg full ástæða til að gera það sem ég benti á — nú er ég ekki að lasta þessa stefnu, síður en svo — og tel mig hafa sýnt fram á, að það sé þörf á því í þessari stefnu að kveða enn sterkar að orði en hér er gert.

Að því sögðu þá er líka ljós í myrkrinu. Þó að það komi kannski ekki fram í þessari stefnu þá gladdist ég mjög þegar ég heyrði að íslenska ríkisstjórnin ætlar að hætta við að hætta við löggildingu iðngreina. Það hefðu mér fundist skrýtin skilaboð til ungmenna sem vilja læra iðn vegna þess að ég veit að hæstv. ráðherra og ég erum sammála um að verkkunnátta, góð verkkunnátta, er undirstaða velmegunar í landinu. Eitt fallegasta orð sem er til í íslenskri tungu er einmitt orðið verksvit, ég kann ekki mörg fallegri en það. Þetta þurfum við náttúrlega að efla og höfum ekki staðið okkur undanfarandi og þurfum þess vegna að taka verulega á í því efni. Þess vegna gleðst ég yfir því að íslenska ríkisstjórnin skuli hafa þyrmt bökurum en ekki ætlað að hengja þá fyrir einhvern annan með því að eyðileggja löggildingu þeirrar starfsemi. Það eru því ljós hér og hvar í myrkrinu. En stefnan er ágæt. Það þarf að kveða aðeins sterkar að orði.