151. löggjafarþing — 21. fundur,  17. nóv. 2020.

atvinnuleysistryggingar.

300. mál
[18:51]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um atvinnuleysistryggingar til að mæta efnahagslegum áhrifum heimsfaraldurs kórónuveiru. Um er að ræða enn frekari aðgerðir á vinnumarkaði. Frumvarpið gerir ráð fyrir auknum rétti atvinnuleitenda til tekjutengdra atvinnuleysisbóta. Er þar verið að bregðast við auknu atvinnuleysi og tryggja enn betur en nú er stöðu þeirra sem hafa misst vinnuna í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveiru.

Í september var samþykkt hér á Alþingi að lengja tímabundið rétt einstaklinga sem teljast tryggðir innan atvinnuleysistryggingakerfisins til tekjutengdra atvinnuleysisbóta. Var tímabil tekjutengdra atvinnuleysisbóta þannig lengt úr þremur mánuðum í allt að sex mánuði að hámarki, að því gefnu að viðkomandi atvinnuleitandi hefði ekki fullnýtt rétt sinn til slíkra bóta á yfirstandandi bótatímabili þegar breytingin tók gildi í september.

Það hefur verið í umræðunni og verið gagnrýnt að einhverjir þeirra sem tryggðir eru innan atvinnuleysistryggingakerfisins og misst hafa vinnuna vegna þrenginga á vinnumarkaði í tengslum við heimsfaraldur kórónuveirunnar hafi ekki náð að nýta sér þennan aukna rétt. Er þar um að ræða einstaklinga sem hafa lítinn eða engan rétt átt til launa í uppsagnarfresti og komu því inn í atvinnuleysistryggingakerfið strax og áhrifa faraldursins fór að gæta á vinnumarkaði í apríl á þessu ári. Þar sem almenna reglan innan atvinnuleysistryggingakerfisins er sú að greiddar eru tekjutengdar atvinnuleysisbætur fyrstu þrjá mánuðina eftir að bótatímabil hefst hafa þessir einstaklingar í einhverjum tilvikum verið búnir að fullnýta rétt sinn til tekjutengdra atvinnuleysisbóta í september og hafa því fallið utan við tímabundnu lenginguna á rétti til slíkra bóta.

Þær tímabundnu breytingar sem lagðar eru til í frumvarpinu snúa að því að færa framar það tímamark sem framlenging á rétti til tekjutengdra atvinnuleysisbóta miðar við og gefa þannig fleiri einstaklingum kost á að nýta sér þann rétt. Lagt er til að miða við að heimilt verði að greiða tekjutengdar atvinnuleysisbætur í allt að sex mánuði ef viðkomandi atvinnuleitandi var ekki búinn að fullnýta rétt sinn til slíkra bóta á yfirstandandi bótatímabili þann 1. júní sl. í stað þess að miða við septembermánuð.

Markmið þessara breytinga er að tryggja enn betur en nú er að þeir sem tryggðir eru innan atvinnuleysistryggingakerfisins og misst hafa vinnuna vegna þrenginga á vinnumarkaði í tengslum við heimsfaraldur kórónuveiru geti átt rétt á tekjutengdum atvinnuleysisbótum í allt að sex mánuði að hámarki þrátt fyrir að þeir hafi átt lítinn eða engan rétt til launa í uppsagnarfresti og hafi því komið inn í atvinnuleysistryggingakerfið strax þegar áhrifa faraldursins fór að gæta á vinnumarkaði í apríl.

Virðulegi forseti. Á meðan það óvissuástand sem nú ríkir á vinnumarkaði varir verðum við að reyna eftir fremsta megni að tryggja stöðu heimilanna og sporna gegn neikvæðum áhrifum ástandsins á þá sem verða fyrir atvinnumissi vegna þeirra áhrifa sem faraldurinn hefur á vinnumarkaðinn. Ég legg því áherslu á að frumvarpið verði samþykkt á Alþingi sem allra fyrst í ljósi þess hve aðkallandi aðgerðin er.

Að lokum legg ég til að frumvarpinu verði vísað til hv. velferðarnefndar að lokinni þessari umræðu.