151. löggjafarþing — 21. fundur,  17. nóv. 2020.

atvinnuleysistryggingar.

300. mál
[18:56]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa spurningu. Við áttum orðaskipti um þetta fyrr í dag líka og ég vil segja strax að það er ekki af illmennsku einni saman sem ráðherra leggur þetta til. Það sem við erum að gera, og kom fram í framsöguræðu minni, er að bregðast við gagnvart þeim einstaklingum sem misstu vinnuna eftir að kórónuveirufaraldurinn skall á. Frumvarpið nær til þeirra. Það var skýrt þegar við fórum af stað með þetta frumvarp að það væri hugsað þannig, það næði til þeirra sem hefðu misst vinnuna þegar kórónuveirufaraldurinn skall á. Eins og ég rakti í framsögu minni var eyða í lögunum, sem m.a. hv. þingmaður hefur bent á og ég þakka fyrir það og það er vel, og við erum að loka þeirri eyðu. Við erum að miða við að allir sem misstu vinnuna eftir að heimsfaraldurinn skall á njóti tekjutengdra atvinnuleysisbóta í sex mánuði.

Síðan má alltaf velta fyrir sér, líkt og þingmaðurinn gerði, hvort hægt sé að ganga enn lengra, gera enn meira. Þá vil ég í því samhengi benda á að núverandi ríkisstjórn hefur farið í umfangsmiklar aðgerðir til að standa við bakið á þeim sem því miður hafa misst vinnuna í tengslum við kórónuveirufaraldurinn. Það stefnir í að fjármagnið sem rennur til þess á þessu ári verði 80 milljarðar sem er milli 50 og 60 milljörðum hærri upphæð en gert var ráð fyrir í fjárlögum yfirstandandi árs. Ástæðan er því sú, svo að svarið sé einfalt, að við erum að miða við þá einstaklinga sem misstu vinnuna í kórónuveirufaraldrinum. Það voru rökin á bak við þessa tímabundnu tekjutengdu lengingu á sínum tíma og það eru enn þá rökin fyrir málinu sem ég mæli fyrir hér.