151. löggjafarþing — 21. fundur,  17. nóv. 2020.

atvinnuleysistryggingar.

300. mál
[19:01]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þegar þetta mál kom fram og við ákváðum að fara í lengingu á tekjutengda tímabilinu í sex mánuði lá ljóst fyrir að sá skurðpunktur sem miðað var við sneri að þeim einstaklingum sem misst hefðu vinnuna í mars eða síðar vegna Covid-19. Síðan var þarna ákveðin eyða og ég hef skýrt út með hvaða hætti við erum að loka henni núna. Það er því ekkert nýtt í þessu. Það er ekkert nýtt í þessu og ekki heldur í málflutningi hv. þingmanns.

Síðan vil ég benda hv. þingmanni á, sem heldur því fram að núverandi ríkisstjórn hafi ekki gripið til aðgerða, þegar kemur að þeim einstaklingum sem misst hafa vinnuna, til að verja heimilin … (Gripið fram í.) — Virðulegur forseti. Hv. þingmaður getur ekki haldið ró sinni hér í salnum. Ríkisstjórnin réðst í aðgerð sem snýr að hlutabótum þar sem tugir milljarðar voru veittir í aðgerðir til að verja ráðningarsamband þar sem líka var tryggt að réttur einstaklinga innan atvinnuleysisbótakerfisins skertist ekki. Það var miklu stærri aðgerð en ráðist var í til að mynda í efnahagshruninu vegna þess að þá skertist rétturinn á meðan á hlutabótum stóð. Við höfum líka ráðist í aðgerðir, svo sem vinnu með stuðningi þar sem hefur verið slakað á þeim tímakröfum sem þar hafa verið og Nám er tækifæri sem nú er komið af stað þar sem gert er ráð fyrir alla vega þrisvar sinnum stærri átaki heldur en gert var í efnahagshruninu.

Ég tek undir með hv. þingmanni að við eigum alltaf að skoða hvort við getum gert meira, hvernig við getum gert meira og hvað gagnast fólki sem er í þeirri hræðilegu stöðu að hafa misst vinnuna. Við erum að gera það og ég sagði í dag að við værum að undirbúa frekari aðgerðir gagnvart þessum hópi. En um leið hljótum við líka að geta verið sanngjörn gagnvart því að ríkisstjórnin hefur gert ýmislegt gott. Um leið og ég fagna (Forseti hringir.) umræðu hv. þingmanns þá verðum við líka að gæta ákveðinnar sanngirni og hafa sannleikann að leiðarljósi þegar kemur að (Forseti hringir.) þessum málum.