151. löggjafarþing — 21. fundur,  17. nóv. 2020.

vextir og verðtrygging o.fl.

38. mál
[19:37]
Horfa

Flm. (Inga Sæland) (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Bryndísi Haraldsdóttur fyrir andsvarið. Af hverju að banna eitthvað? Hún er dæmi um það sem ég var að nefna í ræðunni minni áðan, þegar menn segja: Jú, þið hafið val. Af hverju þá að banna þessi lán? Þið ráðið alveg hvort þið takið verðtryggt lán eða óverðtryggt lán en munið bara að þið fátæku einstaklingar munið aldrei hafa efni á því að borga óverðtryggða lánið og ykkur er beint í verðtrygginguna vegna þess að þá borgið þið miklu lægra af láninu ykkar, alveg þangað til að verðbólguskotið mætir og allt í einu er það vaxið ykkur upp fyrir höfuð.

Ég skil vel að hv. þm. Bryndís Haraldsdóttir skilji ekkert í því af hverju ætti að banna verðtryggingu því að það er í umboði hennar ágæta Sjálfstæðisflokks sem þessi verðtrygging hefur fengið að blómstra, það er í umboði þess flokks sem kennir sig við kapítal sem verndar í rauninni fjármagnseigendur framar öllu öðru. Ég er hins vegar málsvari einstaklinganna, fátæka fólksins í landinu, þeirra sem höllustum fæti standa. Ég er ekki að segja að afnám verðtryggingar verði ekki til að eyðileggja sparifé hv. þingmanns í lífeyrissjóðnum hennar, enda ráðum við hvort sem er engu í þessu lífeyrissjóðakerfi okkar, er það?

Það hefur verið ákall úti í samfélaginu um að losa okkur undan þessu verðtryggingaroki. Það er það sem við erum að gera hér og nú með þessu frumvarpi. Ég ætla bara að vona að hv. þingmaður sjái ljósið og vilji koma í veg fyrir að hugsanlegt verðbólguskot flytji næstu 10.000–12.000 fjölskyldur út á götu eins og gerðist í síðasta efnahagshruni. Verðtryggingin sem er í gildi í dag er ekkert öðruvísi en hún var þá, alls ekkert öðruvísi, og fólk er að taka þau lán frekar en óverðtryggðu lánin. Ég get aldrei ítrekað það nóg að óverðtryggða lánið (Forseti hringir.) ber miklu hærri vexti og er með þyngri greiðslubyrði og einstaklingnum er vísað í verðtrygginguna. Við þurfum að losna við hana.