151. löggjafarþing — 21. fundur,  17. nóv. 2020.

vextir og verðtrygging o.fl.

38. mál
[19:44]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Við ræðum hér frumvarp um breytingu á lögum um vexti og verðtryggingu, lögum um vísitölu neysluverðs og lögum um fasteignalán til neytenda, afnám verðtryggingarinnar.

Og ég byrja fjörlega: Hvers vegna eigum við að banna þessi lán? Það er mjög einfalt. Það er ákveðinn hópur þarna úti sem er enn með gömlu lánin frá Íbúðalánasjóði. Hvernig vaxtakjör eru á þeim? Það eru 4,5% vextir plús verðtrygging. Geta þessir einstaklingar breytt lánum á einfaldan hátt? Nei. Hvers vegna ekki? Jú, vegna þess að ef einstaklingur hefur verið í vinnu en lendir í slysi, bílslysi, vinnuslysi, eða veikist og fer t.d. á örorku- eða endurhæfingarlífeyri, þá er hann kominn í allt aðra stöðu. Þá er hann kominn í þá stöðu að hann fær ekki greiðslumat. Hann er kannski búinn að kaupa íbúð og er kannski með lán sem er töluvert hærra og umfram greiðslumat sem miðast við lífeyrislaunin sem hann er allt í einu kominn með, miðað við fyrri laun sem hann var með. Hann hefur því ekki tækifæri til þess að breyta láninu. Þetta á líka við um marga núna sem eru orðnir atvinnulausir. Við vitum að það er orðinn rosalega stór hópur. Að segja hér í ræðustól að það geti allir breytt lánunum sínum í dag er rangt. Það geta það ekki allir.

Annað í þessu samhengi er að það er stór munur hér, og það er kannski mörgu leyti rétt, að verðtryggð lán bera lægri vexti. En það er bara nýtilkomið vegna vaxtalækkana. Það er því hægt að fá verðtryggð lán á góðum vöxtum í dag. En um leið og verðbólgan fer af stað þá er voðinn vís. Þeir einstaklingar sem eru með verðtryggð lán sjá fram á að vaxtabyrði þeirra og greiðslubyrði verði tiltölulega þægileg að því leyti til að hún hækkar ekki gífurlega þó að verðbólgan fari af stað, en eignin rýrnar. Þeir einstaklingar sem eru með gömlu 4,5% lánin frá Íbúðalánasjóði með verðtryggingu, segjum að þeir borgi 125.000 kr. á mánuði í dag og ráða vel við það, en ef þeir ætla að breyta þessu láni yfir í óverðtryggt lán eru þeir í stökustu vandræðum.

Þess vegna er staðan ósköp einfaldlega sú að við verðum og eigum að sjá til þess við séum með heilbrigðan lánamarkað á Íslandi eins og er á Norðurlöndunum. Við værum bara með íbúðalán sem bæru 1–2% vexti. Í sjálfu sér ætti að vera til sveiflujöfnunarsjóður sem gæti séð til þess, og það væri líka aðhald á kerfið að láta ekki verðbólguna fara á fleygiferð. Við þekkjum hvaða afleiðingar bankahrunið hafði. Tölurnar eru á reiki en það voru sennilega í kringum 10.000 heimili sem bara fóru. Það er enn ekki komið á hreint hverjir fengu þau og á hvaða kjörum, hvað varð um þau og á hvaða kjörum þessi heimili voru seld. Heyrst hafa alls konar tölur. Að fjöldinn allur af húsum hafi farið og verið seld án nokkurrar greiðslu vegna þess að viðkomandi kaupendur voru metnir sem sterkir greiðendur.

Það var líka talað um, sem er kannski mesta furðan, að það þyrfti að hafa verðtryggingu til að verðtryggja lífeyrissjóði. Til hvers? Stærsti hlutinn er skertur hjá þeim sem fá úr lífeyrissjóði, verið er að skerða greiðslur allt upp í 65–70%. Í sjálfu sér skilar lífeyrissjóðurinn minnstu til þeirra sem mest þurfa á honum að halda og mestu til þeirra sem þurfa minnst á honum að halda. Þeir sem eru á hæstu laununum þurfa engar áhyggjur að hafa, en hinir sem eru á lægstu launum eða hreinlega á örorkulífeyri eða endurhæfingarlífeyri, fara á eftirlaun, eru ekkert í góðum málum. Verðtryggingin bætir ekki stöðu þeirra neitt rosalega í gegnum lífeyrissjóðakerfið.

Það er eitthvað undarlegt að við skulum vera með það lögfest að það skuli vera krafa um 3% ávöxtun lífeyrissjóða umfram verðtryggingu. Það er auðvitað fáránlegt í því vaxtaumhverfi sem er í dag.

Við verðum líka að átta okkur á því að eins og staðan er í dag er verðbólgan komin af stað. Verðbólgan er núna um 4% og gengið farið niður um 20%. Matvara hefur verið að hækka um frá 10% alveg upp í 17%. Það er staðreynd að hjá flestum lífeyrislaunaþegum, hvort sem það eru öryrkjar eða eldri borgarar, er löngu búið að éta upp þá hækkun sem þeir fengu í upphafi árs. Og ekki er það á dagskrá þessarar ríkisstjórnar að bæta þeim upp á einn eða neinn hátt þá gífurlegu kjaraskerðingu sem þeir hafa orðið fyrir, hvort sem það er vegna hækkaðs matarverðs eða á annars sem valdið hefur því að leiga hækkar og kostnaður við íbúðir hækkar. Það er allt að hækka nema lífeyrislaunin og launin hjá þeim sem eru á lægstu launum.

Það er mjög nauðsynlegt að við sjáum til þess að svona frumvarp komist í gegn vegna þess að hér erum við að breyta lögum um vexti og verðtryggingu, eins og segir í I. kafla frumvarpsins: Óheimilt er að verðtryggja neytendalán eða fasteignalán til neytenda. Það er mjög skýrt og einfalt og ætti ekki að vera mikið vandamál að koma því í gegn. Síðan er breyting á lögum um vísitölu neysluverðs. Við vitum að vísitala neysluverðs er til vandræða. Við erum með kerfi sem við erum búin að byggja upp á undanförnum áratugum, eða réttara sagt fjórflokkurinn hefur byggt það upp, og það virðist vera þeirra heilagi gral að halda þessu öllu óbreyttu, sama hvað á gengur, hvort sem það er bankahrun, gengissig, Covid. Það á alltaf að halda því óbreyttu. Eins og komið hefur fram er það almenningur, þeir sem verst eru staddir, sem á að herða sultarólarnar, þeir eru breiðu bökin sem eiga að taka skellinn, en hinir sem eiga fjármagnið eru ekki bara með belti og axlabönd heldur líka í samfestingi. Það er njörvað niður, þeir mega ekki tapa krónu. Áhætta þeirra á ekki að vera nokkur skapaður hlutur, þeir eiga enga áhættu að taka. Það er engin hætta á að bankarnir fái ekki sinn gróða, að þeir græði ekki bara milljarða. Það er engin hætta á að stærstu fjármagnseigendur í þessu landi gefi neitt eftir. Nei, þeir einu sem eiga að gefa eftir og eiga ekki að njóta eins eða neins eru þeir sem alltaf eru látnir taka á sig höggið og eru með breiðu bökin. Það eru þeir sem eru á lægstu launum og þeir sem eru á lífeyrislaunum, eldri borgarar, öryrkjar.

Þetta frumvarp okkar í Flokki fólksins er mál sem menn ættu að taka fagnandi og ætti sleppa í gegn, sérstaklega ef við tökum II. kafla þess, þar sem um er að ræða tímabilið frá 1. nóvember 2020 til 31. október 2021, þá eigi að taka vísitölu neysluverðs úr sambandi. Hver er áhættan fyrir ríkið? Hún er hverfandi. Á sama tíma er hagnaðurinn fyrir þá sem þurfa á þessu að halda, þá verst settu, gífurlegur. Það ætti að vera í forgangi hjá þessari ríkisstjórn að verja þennan hóp en einhverra hluta vegna virðist vera í forgangi að verja fjármagnseigendur, verja það að bankarnir græði á tá og fingri, verja þá sem hafa það best, en níðast á hinum.

Það er eiginlega með ólíkindum að við skulum þurfa að leggja svona frumvarp fram. Í sjálfu sér ætti það að vera eyrnamerkt hverri ríkisstjórn á hverjum tíma — þessi ríkisstjórn hefði átt að vera búin að læra af bankahruninu og vera tilbúin til þess, með þeim lærdómi, að sjá til þess í dag, í miðju kófi, að gera eitthvað. Hugsa með sér: Við erum búin að níðast á þeim sem síst skyldi, það eru kannski 15.000 manns sem misstu heimili sín í bankahruninu og eru að byrja aftur, en þá á kannski að fara aftur að skella á það öllum byrðunum. Þetta er eiginlega gjörsamlega óskiljanlegt. Það virðist vera eins og það sé einhver tregða hjá ríkisstjórninnni að læra af reynslunni og viðurkenna hreinlega mistök. Þeim virðist vera algerlega fyrirmunað að fara út í það, það er eins og þeir hugsi með sér að þeir séu bara búnir að negla niður hvar breiðu bökin eru, búnir að ákveða það, og sama hvað á gengur er búið að finna fórnarlömbin. Það eru þeir sem síst skyldi og þeir sem verst hafa það. Það sýnir hversu einbeittir þeir eru í þessu að þetta eru einu hóparnir, þeir sem verst eru settir í lífeyrissjóðskerfinu, eldri borgarar og öryrkjar, sem hafa eiginlega ekki fengið neitt, nema örsmáa hungurlús í hjálp í þessum Covid-faraldri. Það er eins og það hvarfli ekki að þeim að gengið hefur fallið um 20%. Það er verðbólga. Nú er komin sú staða að fólk getur ekki einu sinni farið út úr húsi, það þarf að fá sent heim með tilheyrandi kostnaði og erfiðleikum. En það virðist ekki hvarfla að þeim eina mínútu að aðstoða viðkomandi fólk við að bjarga sér. Nei, þau skulu bara herða sultarólina. Þau eru breiðu bökin. Þeir sem á að verja og búið er að setja í samfesting með axlabönd og belti, eru bankarnir og fjármagnseigendur. Þeir eru guðsríki þessarar ríkisstjórnar. Hinir mega bara éta það sem úti frýs.