151. löggjafarþing — 21. fundur,  17. nóv. 2020.

eignarréttur og erfð lífeyris.

54. mál
[20:32]
Horfa

Flm. (Inga Sæland) (Flf):

Virðulegi forseti. Ég kem enn og aftur upp. Nú mæli ég fyrir þingsályktunartillögu um eignarrétt og erfð lífeyris. Það er þriðja málið sem ég mæli fyrir hér í kvöld. Hvert einasta þingmál Flokks fólksins, hver einasta þingsályktunartillaga, hvert einasta frumvarp, snýst um réttindi fólksins í landinu, snýst um að reyna að hækka grunnframfærslu fólksins í landinu, snýst um að útrýma fátækt í landinu. Því fyrr sem kjósendur átta sig á því að við erum vonin, Flokkur fólksins, því fyrr næst árangur í því að útrýma þessari sömu fátækt.

Ég mæli fyrir þingsályktunartillögu um að Alþingi álykti að fela fjármála- og efnahagsráðherra að leggja fram lagafrumvarp fyrir árslok 2021 sem hafi að markmiði að tryggja eignarrétt og ráðstöfunarrétt fólks á lífeyri og að heimila erfð lífeyrisréttinda. Frumvarpið tryggi m.a. að fólk geti valið á milli þess að greiða skyldubundinn lífeyrissparnað í sjóð sem veitir hlutfallslega réttindaávinnslu eða að greiða inn á sérgreindan reikning þar sem hægt er að velja hvernig lífeyrir er ávaxtaður.

Í dag vitum við ekkert hvað verður um þetta fjármagn. Við vitum bara að það er lögbundin 3,5% ávöxtunarkrafa á lífeyrissjóðina, núna þegar allir eru að tala um að stýrivextir séu komnir í 1%. Þó að það sé ekki alveg beint í takti við það sem ég er að tala um núna í sambandi við þessa þingsályktunartillögu þá skýtur það náttúrlega skökku við, hlýtur að vera, að fara fram á 3,5% ávöxtunarkröfu hjá lífeyrissjóðum á meðan við erum að tala um að keyra stýrivexti niður og annað slíkt. Það verður eitthvað að endurskoða þetta í framhaldinu. Kannski verður það næsta frumvarp sem Flokkur fólksins kemur með til ykkar.

Í öðru lagi mælum við fyrir því með þessari tillögu að við andlát lífeyrisþega gangi lífeyrisréttindi hans að erfðum til maka og barna að fullu. Erfingjar geti valið hvort lífeyrir verði greiddur út eða hvort réttindi flytjist til erfingja.

Í greinargerð með þingsályktunartillögunni segir að þegar lífeyriskerfinu var komið á fót í kjölfar kjarasamninga árið 1969 hafi það verið almennur skilningur launafólks að skyldubundin gjöld í lífeyrissjóði myndu tryggja launafólki eignarrétt á lífeyrisréttindum. Síðan þá hefur eignarréttur fólks á lífeyri ítrekað verið takmarkaður og skilyrtur, ýmist með lögum og reglugerðum eða samþykktum lífeyrissjóða.

Fólk hefur almennt lítið val um það hvernig lífeyrissparnaður þess er ávaxtaður. Um það ráða stjórnir lífeyrissjóða mestu. Lífeyrissjóðir hafa gert mistök í fjárfestingum og stundum, eins og allir vita náttúrlega, hafa þau mistök orðið dýrkeypt fyrir sjóðfélaga. Í slíkum tilvikum eru möguleikar sjóðfélaga til að krefjast breytinga eða hafa áhrif takmarkaðir. Sjóðfélagi sem er ósáttur við rekstur lífeyrissjóðs síns hefur jafnan ekki önnur úrræði en að greiða atkvæði um hvaða fulltrúi verkalýðsfélags verði skipaður í stjórn lífeyrissjóðs eða að skipta um lífeyrissjóð. Það tekur reyndar lítið betra við þar. Þá sitja fulltrúar atvinnurekenda tíðum einnig í stjórnum lífeyrissjóða en gagnvart þeim hefur sjóðfélagi almennt engin úrræði.

Þótt lífeyrisréttindi eigi að njóta verndar eignarréttarákvæðis stjórnarskrárinnar er varla hægt að skilgreina lífeyrisréttindi sem eign vegna þess hve lítið forræði sjóðfélagar hafa á lífeyrisréttindum. Því er nauðsynlegt að breyta lögum þannig að þau tryggi fólki viðunandi ráðstöfunarrétt á þeim. Ef lög veita fólki ekki rétt til að hafa áhrif á hvernig réttindin eru varðveitt er lögbundin skylda um greiðslu iðgjalda í raun og veru skattheimta með óljós vilyrði um endurgreiðslu einhvern tímann síðar.

Flokkur fólksins leggur til að fólk fái að velja á milli þess að greiða í sjóð sem veitir hlutfallsleg réttindi eða að greiða inn á sérgreindan reikning sem hefur að geyma inneign þess. Fólk ætti að geta valið milli þess hvort lífeyrissparnaður þess er nýttur í áhættusamar eða hófsamar fjárfestingar. Mörgum blöskrar þær ákvarðanir sem lífeyrissjóðir taka um ráðstöfun sparnaðar þess en hafa lítil sem engin úrræði á móti. Sjóðfélagi á að hafa val um hvort lífeyrissparnaður hans er nýttur í að fjármagna t.d. byggingu kísilvers eða í kaup á verðtryggðum skuldabréfum. Það er hafsjór þarna á milli.

Því er lagt til að Alþingi feli ráðherra að leggja fram frumvarp sem tryggi fólki val á milli þess hvort lífeyrissparnaður þess veiti hlutfallsleg réttindi eða verði geymdur á sérgreindum reikningi og að sjóðfélagi geti þá valið milli sparnaðarleiða. Þannig getur sjóðfélagi, svo dæmi séu tekin, valið hvort lífeyrissparnaður hans verði ávaxtaður með t.d. útlánum til húsnæðiskaupa, varðveittur í skuldabréfum eða nýttur í áhættusamar fjárfestingar.

Við tölum ítrekað um frelsi einstaklingsins. Það er nýbúið að segja að konur eigi að ráða yfir líkama sínum. Það skiptir engu máli um hvað málið snýst. Ég segi nú að mér finnst nú nærtækara að við fáum að ráða yfir lögþvinguðum aðgerðum sem við erum beitt og í þessu tilviki eru 15,5% af launum okkar sett í lífeyrissjóðskerfi, í lífeyrissjóð, sem við fáum í rauninni lítið sem ekkert um að segja. Það er stórfurðulegt. Maður skilur ekki þetta kerfi. Það furðulega við það er að ef maður deyr frá þessum lífeyrissjóðum, sem maður er kannski búinn að borga í nánast alla sína starfsævi og margir eiga orðið milljónir í, þá skuli stærsti hlutinn af því bara falla í hítina.

Meðal þeirra takmarkana og skilyrða sem gilda um lífeyri fólks er sú regla að lífeyrisréttindi falla niður við andlát sjóðfélaga. Því erfast lífeyrisréttindi í skyldubundnum lífeyrissjóðum almennt ekki til eftirlifandi ættingja sjóðfélaga. Eignarréttarvernd 72. gr. stjórnarskrárinnar — hér vitna ég í annað sinn í stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, okkar grundvallarlög nr. 33/1944 — tryggir m.a. rétt til að ráðstafa eignum til eftirlifenda við andlát. Þessi réttur er skertur þegar lög kveða á um að réttindi sjóðfélaga falli niður við andlát. Lífeyrissjóðum er heimilt að kveða í samþykktum sínum á um rýmri rétt eftirlifenda en sá réttur er sjaldan miklu meiri en hið lögbundna lágmark. Heimild er til staðar í lögum til að kveða á um skiptingu lífeyrisréttinda milli hjóna en allt of fáir nýta þá heimild.

Í stað þess að lífeyrisréttindi erfist er eftirlifandi maka aðeins tryggður makalífeyrir í tvö ár. Hugsið ykkur. Börnum er aðeins tryggður barnalífeyrir til 18 ára aldurs. Lífeyrissjóður verzlunarmanna greiðir sem dæmi makalífeyri sem nemur 60% af réttindum sjóðfélaga og aðeins í þrjú ár frá andláti sjóðfélaga.

Virðulegi forseti. Við ættum að hlusta á raddir þeirra sem hafa upplifað þessa hlið kerfisins, þeirra sem hafa misst ástvini, orðið fyrir tekjufalli, þeirra sem hafa þurft að flytja af fjölskylduheimili í minna húsnæði og leita aðstoðar hjálparsamtaka til að ná endum saman. Allt það erfiði þrátt fyrir að hinn látni hafi átt fjárhagsleg réttindi sem hefðu ella staðið undir framfærslu eftirlifenda. Hví ekki að leyfa fjölskyldu látins sjóðfélaga að njóta góðs af lífeyrissparnaði hans? Er það ekki sanngjarnara en að deila sparnaði hans niður á sjóðfélaga lífeyrissjóðs í heild?

Flokkur fólksins segir nei. Okkur þykja þetta grundvallarmannréttindi. Okkur þykja það líka vera grundvallarmannréttindi að það sem er tekið af launum okkar, lögþvingað, í þessu tilviki 15,5% og sett í lífeyrissjóð, fái skilyrðislaust að njóta verndar 72. gr. stjórnarskrár. Það er í rauninni stórmerkileg að þetta form skuli hafa verið við lýði svo lengi sem raun ber vitni. Það er merkilegt að það sé hægt, bara með einu pennastriki, að hirða af manni milljónir úr lífeyrissjóðnum sem hafa verið teknar af manni lögþvingað í gegnum starfsævina og það sé ekki í gildandi rétti einu sinni möguleiki fyrir eftirlifendur okkar, lögerfingja okkar, að njóta ávaxtanna af okkar erfiði í gegnum lífið. Þetta er svo gamaldags og þetta er svo ótrúlegt að maður eiginlega skilur þetta ekki.

Þessi þingsályktunartillaga er í raun ekki neitt annað en ósk um það að fjármálaráðherra leggi fram lagafrumvarp sem kveði á um að við eigum það sem við höfum greitt í lífeyrissjóðina og við eigum það sjálf, ekki einhverjir aðrir.

Virðulegi forseti. Ég hlakka til að heyra hvað verður um þessa þingsályktunartillögu. Ég kvíði því að hún fari sennilega í ruslið eins og meira og minna allt annað sem frá stjórnarandstöðu kemur. Það skiptir engu máli hvort málið er gott eða vont. Það er afskaplega lítið tillit tekið til þess. Það verður athyglinnar virði að sjá hvort þetta mál fær, eftir að búið er að eyða í það tíma í ágætri hv. efnahags- og viðskiptanefnd, þangað sem við vísum tillögunni væntanlega, ef ég skil það rétt, að koma í þingsal á ný og fá síðari umræðu þingsályktunartillögu og í kjölfarið atkvæðagreiðslu.

Maður á nú ekki að veðja og alls ekki á hv. Alþingi og í æðsta ræðustóli landsins, en ég ætla að gera undantekningu og segja að ég er næstum því tilbúin að veðja að það verður um þessa þingsályktunartillögu eins og flest annað, að í boði ríkisstjórnarinnar verður henni hent í ruslið og þyki ekki þess virði að hv. alþingismenn greiði um hana atkvæði. En ég vona þó ég hafi rangt fyrir mér.