151. löggjafarþing — 21. fundur,  17. nóv. 2020.

eignarréttur og erfð lífeyris.

54. mál
[20:44]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Við erum að fjalla hér um þriðja málið í röð frá þingflokki Flokks fólksins, tillögu til þingsályktunar um eignarrétt og erfð lífeyris. Ef við tækjum þessi þrjú mál saman og þau yrðu öll samþykkt einn, tveir og þrír, hugsið ykkur hvaða paradís við værum komin í. Ekki við heldur almenningur þarna úti. Verðbólgudraugurinn væri dauður, við værum búin að kveða hann niður (Gripið fram í.) — 350.000 kr. skatta- og skerðingarlaust, spáið í þetta. Og merkilegast af öllu, að fólk eigi sinn eigin lífeyrissjóð, sem fólk borgar í af sínum eigin launum.

Það má segja að það sé eiginlega stórmerkilegt að við skulum yfir höfuð þurfa að leggja þessa tillögu fram. Eins og lífeyrissjóðirnir eru byggðir upp þá er þetta gamaldags kerfi. Það er eiginlega með ólíkindum, ef við horfum á lífeyrissjóðskerfið í heild sinni, að þar eru 5.500 milljarðar í dag. Spáið í þessa tölu, þetta er nálægt því að vera sex ára fjárlög ríkisins. Í þessu kerfi eru rúmlega 2.000 milljarða skatttekjur. En ef við förum aðeins aftar, í hrunið, hvað tapaðist þá? Það er ekki komið á hreint en uppreiknað í dag myndi ég telja að það væri nálægt 1.000 milljörðum, það sem tapaðist, og þar af eru skatttekjur upp á 300–400 milljónir. Þetta eru svo skuggalegar tölur að maður svitnar bara. (Gripið fram í.) Tapið þar myndi t.d. fjármagna 350.000 kr. í tíu ár þannig að peningana skortir ekki, það er nóg til af þeim.

Það eru gerðar kröfur um ákveðna ávöxtun lífeyrissjóðanna, og þeir eru orðnir svo stórir á íslenskum markaði að ég hef gífurlegar áhyggjur af því. Þeir eru að vísu að reyna að fjárfesta erlendis, að reyna að komast út, en einhvern veginn hefur maður á tilfinningunni að þeir eigi allt of stóran hlut á markaðnum og séu eiginlega bara að kaupa og selja í sjálfum sér.

Við erum komin með séreignarlífeyrissjóðina, það virkar rosalega flott, allir ofboðslega ánægðir. Nú er unga fólkið meira að segja að nota séreignarsjóðina til að festa sér íbúð og komast þannig inn á íbúðamarkað, margir sem hefðu annars ekki getað það. Hugsið ykkur ef þessir sömu einstaklingar hefðu líka allan lífeyrinn á bak við sig. Hvers vegna í ósköpunum ættum við ekki að hafa það þannig? Þetta er hluti af laununum okkar og spáið í hversu ótrúlega vitleysu við erum búin að búa til í þessu kerfi, að við skulum vera með svona fáránlegt kerfi að þú getir borgað í það alla ævi, jafnvel ekki tekið krónu út úr því, og það hverfur bara í einhverja hít. Skýringarnar sem eru gefnar; jú, það þarf að eiga fyrir því ef fólk lendir í örorku. Það er hægt að búa til allt annað kerfi um það, það þarf bara ekkert að vera inni í þessu kerfi og ætti eiginlega ekki að vera inni í þessu kerfi, það kemur bara til skerðinga.

Við þekkjum fáránleikann í kerfinu, íslenska lífeyrissjóðakerfið, örorkukerfið, og þetta er orðið svo mikið bull, þetta er orðið svo stagbætt, þetta er orðið svo vitlaust, að maður heldur í upphafi að þetta séu mistök en ég held að þetta sé hreinlega vísvitandi og með vilja gert til að búa til kerfi sem enginn skilur og allir græða á nema þeir sem eiga sjóðina, þeir tapa. Og hugsið ykkur kostnaðinn við að reka þetta kerfi eins og það er byggt upp. Við vitum nokkurn veginn kostnaðinn innan lands en við fáum ekki að vita um kostnaðinn erlendis. Það er kostnaður sem liggur hvergi fyrir. Það liggur ekki einu sinni fyrir hverjir fá það og hverjir eru að sýsla með þetta og hvernig þeir eru valdir. Þetta er spillingarkerfi, því miður, það verður bara að segja það eins og það er. Ef það er ekki gagnsætt þá er eitthvað skrýtið við það. Í þessu kerfi segjast menn bera svo rosalega mikla ábyrgð — við sjáum alla ábyrgðina sem þeir öxluðu eftir bankahrunið, það var enginn sem axlaði nokkra ábyrgð á tapi upp á 600 milljarða — og þurfa á fjórðu milljón, margir, í laun á mánuði vegna ábyrgðar. Ábyrgðar á hverju? Þeir bera enga ábyrgð. Þetta er launakostnaður sem er hægt að losna við með því að einfalda kerfið, að þetta verði bara eign viðkomandi einstaklings og hann geri nákvæmlega það sama við þetta, þetta er ekki flókið, og hann gerir við séreignarsparnaðinn sinn. Hann ræður sjálfur hvað hann gerir, hann ræður sjálfur hvernig hann ávaxtar það, hvort hann tekur áhættu eða ekki.

Eins og ég hef oft sagt í þessum fáránleika þá er kerfið að stærstum hluta fjármagnstekjur en samt er þetta skattað eftir á, eins og hverjar aðrar tekjur. Þetta er lögþvingaður eignaupptökuvarinn réttur, þú hefur ekkert val, þú verður að borga þetta. Hluti af þessu er dreginn af þínum launum, hluta af þessu borgar vinnuveitandinn. Þar af leiðandi er þetta bara ígildi launa. Hvers vegna í ósköpunum erum við að láta vinnuveitendur, þá sem borga okkur launin, ráða þessu kerfi? Í morgunþætti Bylgjunnar í morgun benti Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, á að allar breytingar sem þeir sem eru á vegum launamanna, verkalýðshreyfingarinnar, í lífeyrissjóðnum vilja leggja fram falla á sléttu ef vinnuveitendur eru á móti. Þetta er nú allt lýðræðið í þessu. Það er sem sagt ekkert lýðræði. Það er alveg með ólíkindum að það skuli standast lög að vinnuveitendur séu að skipta sér af launum sem viðkomandi starfsmenn hafa fengið. Þarna er brestur á.

Það er líka alveg með ólíkindum að þegar sá sem hefur greitt í lífeyrissjóð í 40 ár fellur frá að maki fái lágmarkið ekki bara sjálfkrafa áfram þar til hann fellur frá (IngS: Það er það sem við erum að gera.) — það er það sem við erum að gera. Þetta er svo eðlilegt, þetta er svo einfalt, en því miður virðist það vera þannig að því einfaldara sem kerfið er þeim mun flóknara verður það fyrir ríkisstjórnina og hún virðist ekki geta skilið svona einfaldleika. Ég segi það einfaldlega vegna þess að stjórnvöld hafa byggt upp þetta kerfi, lífeyrissjóðakerfið og almannatryggingakerfið, stagbætt kerfi, sem er með keðjuverkandi skerðingar út um allt, jafnvel langt út fyrir velsæmismörk.

Ég er með dæmi sem sýnir fáránleikann í þessu. Ef þú setur 1 kr. í kerfið, eins og það var og er, getur þú misst 2 kr. Hver býr til svona kerfi? Hver ver svona kerfi? Og hvers vegna? Við ættum að spyrja okkur að því. Það er einfalt mál, það er fjórflokkurinn, Sjálfstæðisflokkur, Framsóknarflokkur, Samfylking og Vinstri græn — þetta eru flokkarnir sem hafa ráðið hér alla tíð. Þetta eru flokkarnir sem komu þessu kerfi á. Þetta eru flokkarnir sem viðhalda þessu kerfi. Þetta eru flokkarnir sem munu berjast með kjafti og klóm gegn öllu því sem við lögðum hér fram vegna þess að það hentar þeim ekki.