151. löggjafarþing — 22. fundur,  18. nóv. 2020.

störf þingsins.

[15:14]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Um 800 heimili hafa sótt um matarúthlutun núna í nóvember. Þetta eru um 2.000 manns sem fá matarúthlutun frá Fjölskylduhjálp Íslands, eða nærri því 800 fjölskyldur. Þar, eins og hjá öðrum hjálparsamtökum, er þörfin fyrir aðstoð mikil og fer vaxandi. Þið sem eruð í ríkisstjórn, Sjálfstæðismenn, Framsóknarfólk og Vinstri græn; er ekki kominn tími hjá ykkur nú þegar að hysja upp um ykkur samviskuna, gera eitthvað í þessum málum strax? Þið sem eruð í ríkisstjórn, takið nú höfuðið upp úr keðjuverkandi skerðingarpyttinum og sjáið til þess að allir fái að njóta jólabónuss síns í ár.

Keðjuverkandi skerðingar á jólabónusum eru alveg fáránlegar. Það er verið að skerða keðjuverkandi jólabónusinn, sem er smánartala upp á um 30.000 kr. eftir skatt. En það fá ekki allir að njóta. Nei, það er notað, lífeyrissjóðir, allt til að skerða þennan smánarbónus. Síðan eru settar á þessa hungurlús keðjuverkandi skerðingar, eins og ég hef bent á, og þannig er bónusnum náð til baka að fullu. Hvar er siðferðið? Hvar er jafnræðið? Við þingmenn fáum fjórum sinnum meira eftir skatt og engar skerðingar. Þessi hópur fær engar bætur út af Covid. Þetta er hópurinn sem situr eftir og líka með skertan jólabónus Er ekki kominn tími til þess að þið sem völdin hafið sjáið til þess, frá og með þessum jólum, að jólabónusinn verði skatta- og skerðingarlaus?