151. löggjafarþing — 22. fundur,  18. nóv. 2020.

nýsköpun í ylrækt og framleiðsla ferskra matvara til útflutnings.

[15:58]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V):

Herra forseti. Það ber að þakka þessa ágætu umræðu um stórt mál. Það er að við getum nýtt auðlindir okkar sem best. Það er að við getum virkjað hugvitið til að standa okkur betur í því að nýta auðlindirnar. Hér erum við fyrst og fremst að tala um jarðrækt, ylrækt og fiskeldi. Það er auðvitað frumskilyrði að aðstæður og umbúnaður sé með þeim hætti að auðvelt sé að starfa á þessum vettvangi og ná framförum. Þar er mikilvægt, sérstaklega þegar við horfum til landbúnaðarins, að við breytum svolítið um kúrs og endurskoðum þau stuðningskerfi sem þar eru og gerum þau straumlínulagaðri í þá veru að bændur geti sjálfir ákveðið hvað þeir gera, í stað þess að byggja á að mörgu leyti úreltu stuðningskerfi.

En það er auðvitað margt sem hafa þarf í huga þegar þessi mál eru skoðuð. Hér er verið að tala um útflutning og það er mjög mikilvægt. En það eru ýmis ljón á veginum þar þó að ekki sé annað en samgöngurnar eða möguleikarnir á því að geta flutt út í stórum stíl afurðir úr ylrækt. Það er hægt en það er erfitt vegna þess að skipasamgöngur hér eru einfaldlega of stopular til að hægt sé að koma ferskum afurðum á markað með fullnægjandi hætti.