151. löggjafarþing — 22. fundur,  18. nóv. 2020.

nýsköpun í ylrækt og framleiðsla ferskra matvara til útflutnings.

[16:09]
Horfa

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf):

Herra forseti. Aukin grænmetisframleiðsla er dauðafæri fyrir Ísland. Þetta tækifæri er einstakt. Það nýtir kosti Íslands á sjálfbæran hátt, er atvinnuskapandi, mætir breyttri neysluhegðun og er umhverfisvænt á tímum loftslagsbreytinga. En til að hægt sé að nýta þetta tækifæri þurfa stjórnvöld að koma að uppbyggingunni með auknum opinberum stuðningi. Lækka ætti verð á rafmagni, flutningskostnaði og öðrum kostnaði. Umfangsmikil grænmetisframleiðsla hér á landi ætti að vera hluti af vel hugsuðu fjárfestingarátaki í stað þess að vera smátt hliðarverkefni sem fær að fljóta með þegar ráðherrarnir muna eftir því.

Herra forseti. Við eigum að setja okkur háleit markmið. Við eigum að hafa það markmið að fjórfalda grænmetisframleiðslu hér á landi á næstu árum í stað þess að auka hana aðeins um fjórðung, eins og vilji stjórnvalda stendur til. Nú er lag.

Um fjórðung allrar losunar gróðurhúsalofttegunda má rekja til matvælaframleiðslu og landnýtingar tengt henni. Af losun vegna matvælaframleiðslu eru um 60% vegna dýraafurða. Væru kýr sérstök þjóð væru þær í þriðja sæti yfir mestu framleiðendur gróðurhúsalofttegunda á eftir Kína og Bandaríkjunum. Búvörusamningar framtíðarinnar eiga því að snúast meira um hið græna en ekki bara hið ferfætta. Við þurfum að hjálpa bændum að breyta framleiðslu sinni í þessa átt. Við eigum að styðja fleiri nýja bændur sem starfa í grænum framleiðsluheimi. Það getur kostað peninga að búa til peninga. Það getur kostað fé að hugsa stórt en það borgar sig ef það er skynsamlegt. Þess vegna er fjórföldun grænmetisframleiðslu hér á landi skynsamleg hugmynd (Forseti hringir.) og ég varpa henni aftur fram hér. Við þurfum að vaxa upp úr þessari kreppu sem við erum í og sá vöxtur á að vera grænn (Forseti hringir.) og vænn og ekki er verra ef við getum borðað hann.