151. löggjafarþing — 22. fundur,  18. nóv. 2020.

nýsköpun í ylrækt og framleiðsla ferskra matvara til útflutnings.

[16:16]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V):

Herra forseti. Okkur blandast ekki hugur um að það eru mörg tækifæri í þessum greinum sem við erum að ræða hér. Það sýna líka dæmin að margir eru stórhuga á þessu sviði og hafa náð miklum árangri og við þekkjum mörg dæmi um það. Bara til að nefna tvö dæmi hvort úr sínum geiranum þá vil ég nefna fyrirtækið Stofnfisk sem er að flytja út frjóvguð laxahrogn, út um allan heim, og var að tilkynna nú fyrir nokkrum dögum um einn stærsta slíkan samning sem það hefur gert við bandaríska fiskeldisstöð, stóran samning til fimm ára. Ég get líka nefnt fyrirtæki á borð við Friðheima og stórhuga eigendur þess sem eru að nýta tækifærin.

En það sem ég vildi leggja til málanna í seinni ræðu minni er að á þessum sviðum, eins og öllum öðrum, þurfum við að gæta þess að starfsumhverfið sé gott. Mér dettur í hug, af því að það er hæstv. nýsköpunar- og iðnaðarráðherra sem er hér til svara, að það væri forvitnilegt að láta gera úttekt á vegum OECD á starfsskilyrðum og samkeppni og samkeppnishæfni íslensks landbúnaðar og fiskeldis. Ég er viss um að það væri afar fróðlegt að sjá hvað kæmi út úr slíkri könnun. Ég held að hér eins og svo víða annars staðar skipti máli að menn og fyrirtæki og konur fái að njóta sín og fái sem best svigrúm til þess að geta skapað það sem hjartanu er næst. Ég held að þetta sé mjög mikilvægur þáttur í því að okkur takist að byggja upp alvöruatvinnugreinar sem geta skapað verðmæti, vinnu og störf hér innan lands en ekki síður ef við ætlum að ná árangri í útflutningi.