151. löggjafarþing — 22. fundur,  18. nóv. 2020.

kynhlutlaus málnotkun.

73. mál
[16:53]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Andrés Ingi Jónsson) (U):

Virðulegur forseti. Ég þakka ráðherra svarið. Hún vildi ekki nefna allt of mörg dæmi, en mig langar að nefna eitt úr lögum um vandaða starfshætti í vísindum, sem ég held að hæstv. ráðherra hafi lagt fram. Þar segir í 3. gr.: „Þau sem sinna rannsóknum skulu sýna aðgát.“ Þetta finnst mér vera elegant dæmi um hvernig hægt er með lágmarksbreytingum að gera orðfæri þannig að það nái til okkar allra.

Hér nefndi ráðherrann þær breytingar sem felast í lögum um kynrænt sjálfræði. Ég held einmitt að þær séu hluti af ástæðunni fyrir því að við þurfum að ræða þetta hér og nú vegna þess að þær eru hluti af því hvernig jafnréttisumræðan er að breytast, að við erum á ákveðnum vendipunkti. Það verður að segjast eins og er að breytingarnar sem koma nú í frumvörpum frá ólíkum ráðuneytum til að bregðast við veruleikanum þar sem lög um kynrænt sjálfræði eru til staðar, eru í mesta lagi lágmarksbreytingar. Við erum t.d. með breytingar á barnalögum þar sem orðunum móður og föður eru oftast breytt í foreldra, bara tekið á skýrustu nafnorðadæmunum, eða sett er inn sérákvæði fyrir fólk með hlutlausa skráningu kyns. Við þurfum að ganga miklu lengra. Við þurfum að taka málsniðið eins og það leggur sig og þá búum við einmitt við þann lúxus sem hæstv. ráðherra kom inn á, að í íslenskunni höfum við þriðja kyn, við höfum hvorugkynið, og við erum komin með fornafn sem hægt væri að nota þar. Við getum notað hán, kynhlutlausa fornafnið. Það er hægt að grípa til þess, ekki bara gagnvart einstaklingum með hlutlausa (Forseti hringir.) skráningu kyns, heldur líka þegar líkamlegt (Forseti hringir.) eða félagslegt kyn er ekki þekkt eða er málinu óviðkomandi. Þannig er það í flestum lögunum okkar (Forseti hringir.) að kyn á ekki að skipta máli. Þess vegna eigum við að geta orðað hlutina opnar.