151. löggjafarþing — 22. fundur,  18. nóv. 2020.

kynhlutlaus málnotkun.

73. mál
[16:55]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Eins og ég fór yfir í aðeins of löngu máli hér áðan þá er íslensk tunga mál Stjórnarráðs Íslands, samanber 8. gr. laga nr. 61/2011, sem var mælt fyrir á Alþingi þegar ég gegndi embætti mennta- og menningarmálaráðherra, um stöðu íslenskrar tungu og táknmáls. Þar er kveðið á um að tungumálið sem notað er í starfsemi Stjórnarráðsins eða á vegum þess sé íslenska og að það skuli vera vandað, einfalt og skýrt. Málstefnu Stjórnarráðsins er ætlað að tryggja það í raun og veru að þessi ákvæði og markmið laganna nái fram að ganga, að farið sé að málstefnunni, og hún sé endurskoðuð reglulega og það sé gert samráði við Íslenska málnefnd annars vegar og svo málnefnd um íslenskt táknmál. Eins og ég kom að hér áðan þá er núgildandi málstefna að verða átta ára gömul. Orðið hafa mjög hraðar breytingar, bæði á lagaumhverfinu hvað varðar kynin, og sömuleiðis á viðhorfum í samfélaginu. Þannig að það er ljóst að það þarf að uppfæra og endurskoða þessa stefnu í samráði við Íslenska málnefnd. Þetta er verkefni sem tekið verður til skoðunar á þeim vettvangi.

Ég ítreka það hins vegar sem ég sagði áðan, að það er mikilvægt að eiga samtal við Alþingi um slíkar breytingar og kynna sér þróunina sem átt hefur sér stað í löndunum í kringum okkur. Hv. þingmaður nefndi að íslenskan hefði þrjú kyn, sem eru auðvitað karlkyn, kvenkyn og hvorugkyn, málfræðilega, á meðan flest Norðurlandamálin eru með það sem kallað er samkyn og svo hvorugkyn, sem er reyndar áhugavert út frá kynjasjónarmiði, að þar eru ekki karlkyn og kvenkyn heldur einmitt samkyn og svo hvorugkyn. En þarna erum við komin út í málfræðilegar vangaveltur sem kalla á töluvert lengri ræðutíma. En þetta er nokkuð sem þarf að taka til skoðunar á þessum vettvangi. En ég legg áherslu á að það sé líka gert í samtali við Alþingi.