151. löggjafarþing — 22. fundur,  18. nóv. 2020.

frumvarp um skilgreiningu auðlinda.

193. mál
[18:07]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Sigurður Páll Jónsson) (M):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir yfirferð hans og þau svör sem hann bar hér á borð. Ég vona að hann sé kominn með frumvarp sem talað er um í þingsályktunartillögunni sem samþykkt var í þinginu í fyrrasumar. Ráðherrann talaði um sjálfbærni. Í því sambandi hlýtur að vera vænlegra til árangurs ef hægt er að finna út gjald sem hægt er að greiða af viðkomandi náttúruauðlind þegar það hefur fengið þá vinnu sem þarf til að svo verði. Eins minntist ráðherrann á náttúruauðlindabókhald, sem er ansi fallegt orð og væri mjög skilmerkilegt að fá slíkt bókhald skráð.

Mig langar í þessu sambandi að minnast á aðra tillögu sem er á dagskrá, vonandi mjög fljótlega, og beinist til hæstv. fjármálaráðherra. Hún er í raun og veru framlenging á þessu þar sem Alþingi ályktar að fela fjármála- og efnahagsráðherra að skipa starfshóp sem skili í fyrsta lagi tillögu um hvort innheimta eigi afnotagjald fyrir nýtingu auðlinda og þá hvaða auðlinda, í annan stað leggi hann fram tillögu um aðferð við álagningu auðlindagjalds sem gæti gengið fyrir allar auðlindir og gerði grein fyrir kostum og göllum þeirra aðferða og taki saman upplýsingar um hvernig gjaldtöku af auðlindanýtingu er háttað í nágrannaríkjum sem við berum okkur saman við.

Að þessu loknu vil ég þakka fyrir þann tíma sem settur hefur verið í þetta mál.