151. löggjafarþing — 22. fundur,  18. nóv. 2020.

lán Íbúðalánasjóðs sem bera uppgreiðslugjald.

196. mál
[18:22]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég get tekið undir með hv. þingmanni að það er í raun og veru alveg ótrúleg staða að opinber lánastofnun okkar, Íbúðalánasjóður á sínum tíma sem veitir bara lán gegn fyrsta veðrétti, er með ríkið á bak við sig í raun og veru, skuli hafa gefið út lán sem fólk núna keppist um að vilja losna við til þess að geta komist út á hinn frjálsa markað og fá þar boðleg kjör. Af þessu hljótum við að draga mikinn lærdóm. Stærstu mistökin í þessu máli eru í mínum huga þau að Íbúðalánasjóður skyldi gefa út óuppgreiðanleg bréf, að hann skyldi þurfa að ganga svo langt gagnvart lífeyrissjóðunum í raun og veru, af því að þeir eru aðalmótaðili Íbúðalánasjóðs í þessu öllu saman, að bjóða óuppgreiðanleg skuldabréf og þessi föstu kjör í þetta langan tíma.

Allt var þetta gert í þágu viðskiptavina Íbúðalánasjóðs í þeirri trú að þetta myndi skila þeim bestu mögulegu fjármögnun og vissulega var það rétt til skamms tíma á meðan lánin voru veitt og í því vaxtaumhverfi sem þá var. En kannski trúðu menn því ekki að þeir dagar rynnu upp í framtíðinni sem við sjáum núna, að vextir myndu lækka hressilega. Við eigum þessa umræðu einmitt þegar nýtt met er sett í vaxtalækkunum Seðlabankans. Aldrei hafa vextir Seðlabankans verið lægri en einmitt þegar þessi umræða á sér stað, 0,75%.