151. löggjafarþing — 23. fundur,  19. nóv. 2020.

samgöngusáttmáli höfuðborgarsvæðisins.

[11:06]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Það er fyrst frá því að segja að fyrir stuttu síðan var auglýst starf framkvæmdastjóra þessa félags og ég veit ekki annað en að það ferli sé yfirstandandi núna. Vonandi fæst niðurstaða í það á næstu vikum.

Hv. þingmaður spurði hvort þessi tvö tilteknu dæmi, sem eru Bústaðavegur og Reykjanesbraut, og síðan Arnarnesvegurinn og tenging hans við vegakerfið inn í Reykjavík, væru í þeim farvegi núna að það valdi algeru uppnámi. Ég held að það sé kannski of mikið sagt. Ég held hins vegar að þetta sé dæmi um mál sem þarf að fá góða lendingu í.

Varðandi Arnarnesveginn hef ég skilið það þannig að Kópavogsbær og Reykjavíkurborg séu ásamt Vegagerðinni komin að niðurstöðu. Það er erfitt að segja að hafi þessir aðilar komist sameiginlega að niðurstöðu um málið geti það geti sett höfuðborgarsáttmálann í eitthvert uppnám. Það sem mér finnst skipta máli er að við á þinginu, sem tökum samgönguáætlun hér í gegn og fjármögnum hana, sjáum að þeim markmiðum sem við erum að reyna að ná fram sé náð við framkvæmdir og skipulagsbreytingar sem tengjast mannvirkjagerð á höfuðborgarsvæðinu. Það sem við erum þá sérstaklega að horfa til er umferðarflæði og að ekki sé um of þrengt að umferðinni, að umferðarhnútarnir haldi ekki áfram að stækka. Það þekkja allt of margir sem búa hérna á höfuðborgarsvæðinu. Þeir hafa verið fastir í umferðarhnútum, allt of lengi á ákveðnum tímum dags, á leið til og frá vinnu. Við viljum vinna bug á þessu með auknu fjármagni og samkomulagi við sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu um leið og haldið er áfram að byggja upp (Forseti hringir.) almenningssamgöngur, göngustíga og annað þess háttar.