151. löggjafarþing — 23. fundur,  19. nóv. 2020.

sóttvarnaaðgerðir með sérstakri áherslu á smitrakningu og einstakan árangur sem náðst hefur í henni hér á landi, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra. - Ein umræða.

[11:31]
Horfa

Brynjar Níelsson (S):

Hæstv. forseti. Ég get auðvitað ekki gert kröfur um að við sjáum eitthvað fram í tímann. Ég er bara að hugsa það, vegna þess að ég sé alveg hvaða áhrif þessar mjög svo íþyngjandi og miklu takmarkanir hafa á samfélagið, og jafnvel til lengri tíma. Þess vegna er mér mikilvægt að fá að vita hvort ríkisstjórnin eða ráðherra og sóttvarnayfirvöld hafi rætt það með einhverjum hætti: Bíddu, er þetta eitthvað sem við getum samt haldið áfram að gera út í hið óendanlega, þess vegna, eða eru einhver takmörk á því? Er einhvern tímapunktur þar sem við segjum: Heyrðu, við verðum bara því miður að slaka á þessum takmörkunum. Það mun hugsanlega kosta einhver frekari smit og frekari veikindi og jafnvel frekari dauðsföll. Eða getum við sagt: Ja, við munum gera þetta þangað til að allir eru komnir með bóluefni. Punktur. — Við getum það ekki. Það er bara það sem ég er að segja. Við getum ekki gert það og við verðum einhvern veginn að fara að svara þessu, eða ræða þetta með einhverjum hætti: Eru einhver mörk?