151. löggjafarþing — 23. fundur,  19. nóv. 2020.

sóttvarnaaðgerðir með sérstakri áherslu á smitrakningu og einstakan árangur sem náðst hefur í henni hér á landi, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra. - Ein umræða.

[11:45]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið en ítreka þó spurningu mína: Hvers vegna er ekki bara skylda að fara í tvöfalda skimun á landamærum? Það var spurningin. Ég spurði ekki hvers vegna ríkisstjórnin hefði ákveðið að borga fyrir skimunina. Ég held að það sé ávinningur í því að skylda alla í tvöfalda skimun og ég vil gjarnan fá svar við því: Hvers vegna er það áfram val að fara ekki í skimun á landamærunum? Ég held að það sé gríðarlega mikilvægt, ekki síst vegna þeirra afleiðinga sem eru ljósar og eru okkur kunnar af því að leyfa þetta val.

Ég vil í seinni spurningu minni nefna okkar afreksíþróttafólk sem hefur setið heima án möguleika á þjálfun frá því í byrjun október hér á höfuðborgarsvæðinu, og landinu öllu frá því síðar sama mánaðar, á sama tíma og íþróttafólk um allan heim, bæði austan og vestan hafs, stundar sínar íþróttir í þeim afmörkuðu hópum sem liðin eru. Þetta eru mjög afmarkaðir hópar, það er ekki verið að skipta inn og út. Á sama tíma og íþróttafólki utan landsteinanna er gert kleift að stunda sínar íþróttir er íslensku íþróttafólki bannað að hittast nema eingöngu til að keppa fyrir Íslands hönd á alþjóðlegum mótum. Staða afreksíþróttafólks okkar veikist jafnt og þétt meðan vikurnar líða. Það þarf að mæta með íslenskum landsliðum á erlendri grundu án þess að eiga þess kost að æfa sig fyrir mótin, án þess að eiga þess kost að tryggja hæfni sína og áframhaldandi getu. Þetta var gert þrátt fyrir hvort tveggja strangar sóttvarnareglur innan liðanna, mjög strangar reglur meðal íþróttasambandanna og þrátt fyrir að alltaf sé um að ræða sama hópinn sem hittist á ákveðnum svæðum með hreinsun á milli.

Nú skal það tekið skýrt fram að ég styð sóttvarnaráðstafanir og nauðsyn þeirra en ég styð einnig meðalhóf og að það sé einhver skynsemi í því (Forseti hringir.) sem við erum að gera og skilningur á þeirri starfsemi sem við erum að takmarka með þeim hætti sem hér er. (Forseti hringir.) Ég vil í raun bara fara bónleið til hæstv. ráðherra: Er einhver von til þess að okkar afreksíþróttafólk geti farið að koma saman í þeim takmörkuðu hópum sem það er í?