151. löggjafarþing — 23. fundur,  19. nóv. 2020.

flokkun lands í dreifbýli í skipulagi.

[13:10]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Ég vil enn og aftur þakka þessa umræðu. Í upphafi fannst mér hún hálfskrýtin, síðan fannst mér hún góð og núna finnst mér hún frábær. Það er að mörgu að huga þegar um land er að ræða, nýtingu lands og hvað er best að rækta á viðkomandi landsvæði því að það getur verið misjafnt. Maður ræktar kannski eina afurð og það getur verið slæmt fyrir landið að rækta hana aftur og aftur á sama reit þannig að það þarf að skipta um. Bændur eru örugglega best fallnir til þess að gera það.

Síðan er komin ný staða í sambandi við verndun landsvæða. Við höfðum mestar áhyggjur af snjóflóðum og þeim hamförum en núna eru loftslagsbreytingarnar að gerast og þá eru að koma inn mjög viðsjárverð veðurafbrigði, gífurlegir þurrkar jafnvel á einum stað og síðan gífurlega rigningar og flóð á öðrum stað. Við höfum orðið vör við það, sem ég tel að sé eitt af því sem fylgir loftslagsbreytingum núna, að jarðvegur losnar og rennur niður eins og flóð niður fjallshlíðarnar. Það verður kannski næsta vandamál kynslóða að reyna að átta sig á því hvar er líklegast að þetta gerist og hvernig er hægt að stöðva það. Þá eru, eins og maður segir, góð ráð dýr. Þá er spurning hvort það borgi sig að auka skógrækt, sem ég tel vera eitt aðalatriðið, við eigum að stórauka skógrækt. Við eigum að gera það vel og vendilega og passa okkur á að nýta rétta landið undir skógrækt, en líka til þess að binda jarðveg. Því er auðvitað vandsvarað en eins og hv. þingmaður kom inn á er talið að 6% landsins sé gott ræktunarland og hvernig við eigum að gera það er spurning til framtíðar.