151. löggjafarþing — 23. fundur,  19. nóv. 2020.

listamannalaun.

310. mál
[14:21]
Horfa

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf):

Herra forseti. Íslendingar hafa að undanförnu haldið fjölmargra streymistónleika tónlistarfólks, svo sem tónleika Helga Björns, Sölku Sólar, Sigríðar Thorlacius, Páls Óskars, Bubba, Sinfóníuhljómsveitarinnar, Hljómhallar, Aldrei fór ég suður, Airwaves og sömuleiðis streymissýningar leikhúsanna og RÚV ásamt upplestrum listamanna svo eitthvað sé nefnt. Það er ekki síst á erfiðum tímum eins og þessum sem fólk áttar sig á gildi og mikilvægi listarinnar. Án listarinnar erum við nálægt því að uppfylla einungis einföldustu kröfur dýraríkisins en nú er hins vegar listin í hættu, a.m.k. listafólkið okkar. Vegna ástandsins er búið að takmarka, í sumum tilvikum banna, viðburði sem stétt listamanna hefur reitt sig á. Við þurfum ekkert að efast um áhrif slíkra takmarkana á leiksýningar og tónleika og árshátíðir, upptökur, bíósýningar og listasýningar en einnig á ýmsan rekstur veitingahúsa og annarra staða sem bjóða upp á lifandi list af öllu tagi. Meira að segja jarðarfarir og brúðkaup hafa verið takmörkuð.

Herra forseti. Listafólk gefur ekki einungis lífinu gildi heldur er þetta stétt sem iðulega gefur vinnu sína þegar mikið liggur við. Við reiðum okkur á þetta ágæta fólk, hvort sem það er í gleði, sorg, við afþreyingu eða upplyftingu andans. En núna þurfa að listamenn á okkur að halda. Starfsgrundvöllur þeirra er takmarkaður og í sumum tilfellum brostinn eða horfinn. Ef listin á að lifa þurfum við hin að gera eitthvað. Þess vegna er mjög ánægjulegt það skref sem hér er tekið, að fjölga listamannalaunum.

Listamannalaun eru fyrir ýmsar stéttir listamanna, hönnuði, myndlistarfólk, rithöfunda, sviðslistafólk, tónlistarflytjendur og tónskáld. Í upphafi þessa faraldurs kom ég með þá róttæku hugmynd að tífalda listamannalaunin. Það er ekki gengið svo langt í þessu frumvarpi en engu að síður er verið að fjölga listamannalaunum, sem ég fagna.

Ég vildi taka stærri skref og ég vildi gera það strax í upphafi þessa faraldurs. Ég hafði einfaldlega þá hugsjón að við myndum ná til þess fjölda sem er sjálfstætt starfandi í menningu á Íslandi. Þá tölu má finna hjá Hagstofunni og þetta eru um 3.500 manns. Fyrir fjölgun listamannalauna í vor fengu 325 listamenn listamannalaun. 325 fengu listamannalaun áður en þeim var fjölgað í vor og núna er þeim fjölgað aðeins aftur. Við erum að sjálfsögðu langt frá þeirri tölu sem ég lagði til. Ég sá tækifæri í þessu til að viðhalda öflugu listalífi og gera enn fleiri listamönnum og listafólki kleift að lifa af list sinni.

Þessi aðgerð um að tífalda fjöldann sem færi á listamannalaun er róttæk, stór, en hversu stór er hún? Slík aðgerð myndi kosta 6,5 milljarða. Til að setja þá tölu í samhengi er 1 prósentustig í auknu atvinnuleysi um 2.000 manns. Og það kostar hvað, herra forseti? Jú, 6,5 milljarða. Það kostar 6,5 milljarða í atvinnuleysisbætur að hafa 1% af vinnuaflinu atvinnulaust. Þetta er sama upphæð og það myndi kosta að tífalda fjölda listafólks á listamannalaunum. Þessi tillaga um að fjölga listamannalaunum myndi að sjálfsögðu draga úr atvinnuleysi en líka stuðla að auknum umsvifum listafólks. Listastarfsemi hefur margvísleg áhrif út fyrir sínar raðir. Það eru afleidd störf, það eru umsvif sem kalla á fleiri störf, óbein störf, afleidd störf, og á móti koma tekjur í formi skatttekna. Þetta er því tillaga sem myndi einfaldlega búa til pening. Við þurfum að hafa í huga að listamannalaun eru listamannalaun. Þetta eru ekki bætur, þetta eru laun fyrir vinnu. Einstaklingur sem fær listamannalaun þarf að gefa skýrslu. Hann þarf að fara yfir það hvað hann hefur verið að gera á meðan hann naut listamannalauna. Hér eru á ferðinni laun, fyrirkomulag sem hefur gefist vel og við eigum að efla. Ég veit að ráðherra er að gera það með þessu frumvarpi en ég vil hins vegar að brýna ríkisstjórnina til góðra verka og til að gera enn betur.

Þessi fjölgun listamannalauna ofan á þá fjölgun sem fékkst í vor er tímabundin, eins og kemur fram í frumvarpinu, og ég held að við ættum að gera hafa þetta til frambúðar, þessa hækkun, þessa fjölgun, og við eigum að fjölga enn meira í því ástandi sem nú er. Sú tala sem það myndi kosta að taka þessi stóru skref er í sjálfu sér ekki það stór, ekki miðað við þær tölur sem við erum að vinna með í þessum sal. Fjárlögin eru 1.000 milljarðar. Landsframleiðslan er 3.000 milljarðar og við erum að tala um margvíslegar aðgerðir sem lúta að því að niðurgreiða uppsagnir hjá fyrirtækjum. Við erum með hlutabótaleið. Við erum með brúarlán. Í öllu stóra samhenginu er þessi tala, 6,5 milljarðar, því ekki stór, ekki miðað við það ástand sem hér ríkir. Ég ítreka að þetta sparar ríkinu pening á móti og kemur í veg fyrir að listafólk neyðist til að fara á atvinnuleysisbætur. Ég ítreka að 1 prósentustig í auknu atvinnuleysi kostar það sama og það myndi kosta að fjölga listamönnum á listamannalaunum. Ég vil endilega halda þessari hugmynd um að gera enn betur á lífi.

Svo má ekki gleyma hinu göfuga gildi listsköpunar. Listin göfgar manninn, gerir mannlífið fjölbreyttara og litríkara og það eru ekki síst verðmæti í því. Það er ekki síst listafólk sem setur Ísland á kortið ár eftir ár í hugum heimsbyggðarinnar.

Ég vil hins vegar nota tækifærið, fyrst ég er að tala við menntamálaráðherra og tala um listsköpun, og minna enn og aftur á, ég veit ekki hversu margar ræður ég búinn að halda um það, að við þurfum að veðja á sjónvarps- og kvikmyndageirann. Ekki síst á þessum tímum þegar okkur vantar atvinnu. Það eru 20.000–25.000 Íslendingar atvinnulausir. Íslendingar eru vel hæfir í þeim afmarkaða geira sem kallast sjónvarps- og kvikmyndagerð. Það er mikil eftirspurn eftir efni sem hægt er að taka upp í íslenskri náttúru, efni sem myndi styðjast við íslenskan mannauð, tækniauð o.s.frv. Þetta tækifæri finnst mér vera dauðafæri fyrir Ísland, að það verði hluti af skilgreindri atvinnustefnu Íslendinga að veðja á sjónvarps- og kvikmyndagerð. Þetta er risamarkaður úti í heimi og við þurfum ekki að fá stóra flís af þeim markað til að það skipti máli hér. Við sjáum það nú, þegar takmarkanir eru í mörgum ríkjum þegar kemur að upptöku ýmis efnis, að það er gríðarleg eftirspurn eftir sjónvarps- og kvikmyndaefni. Það eru ekki margir að framleiða það.

Ég hélt fjölmargar ræður í vor og sagði að við ættum að nýta sumarið og gera Ísland að meira aðlaðandi umhverfi fyrir þennan geira. En á það var ekki hlustað. Þessi grein var ekki að biðja um neitt sérstaklega mikið. Sjónvarps- og kvikmyndageirinn var að biðja um að við myndum hækka endurgreiðsluhlutfall framleiðslukostnaðar, og úr hverju? Úr 25% í 35%. Það hefði gert gæfumuninn að mati greinarinnar, en ríkisstjórnin treysti sér ekki í það. Það var tækifæri sem ríkisstjórnin missti af en það er ekki of seint og ég vil ítreka hvatningu mína til ráðherrans um að beita sér innan ríkisstjórnarinnar, um að taka þetta skref, um að hækka endurgreiðsluhlutfallið úr 25% í 35%. Það myndi kalla hingað fjölbreytt verkefni á vettvangi sjónvarps- og kvikmyndageirans.

Endurgreiðslukerfið virkar þannig að ríkissjóður greiðir ekki krónu fyrr en hann er búinn að fá miklu meira inn. Ég veit að sumir embættismenn og jafnvel stjórnmálamenn sjá ofsjónum yfir því að það eigi að endurgreiða framleiðslukostnað. Já, en við gerum það ekki fyrr en það eru talsvert meiri fjármunir komnir inn. Það að fá stór verkefni á sviði sjónvarps- og kvikmyndageirans býr til störf, ekki síst á þeim sviðum sem okkur vantar þau, því að hvað reiðir þessi geiri sig á þegar hann er að taka upp sjónvarps- og kvikmyndaefni? Hann reiðir sig á hótel, hann reiðir sig á veitingarekstur, hann reiðir sig á leiðsögumenn, tæknikunnáttu. Hann reiðir sig á stétt fólks sem hingað til starfaði kannski í ferðaþjónustu. Þetta er, með leyfi forseta, „win-win“ hugmynd sem við ættum að einhenda okkur í. Þetta skapar störf, umsvif, skatttekjur. Allt um kring er þetta hugmynd af því kalíberi að ég skil ekki af hverju við erum ekki búin að ráðast í þetta fyrir löngu.

Ég hef líkt þessu tækifæri við Eyjafjallajökul. Þá á ég við að eftir síðasta hrun var það eldgosið í Eyjafjallajökli sem kom Íslandi á heimskort ferðamanna. Í þessu hruni getum við ekki reitt okkur og eigum ekki að reiða okkur á eldgos, að sjálfsögðu ekki. Við eigum að reiða okkur á nýsköpun og listir. Þess vegna hefur Samfylkingin lagt áherslu á að við gerum kvikmyndaiðnaðinn að stóriðnaði á Íslandi. En til að svo megi verða verðum við að auka endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar og margfalda Kvikmyndasjóð. Með mikilli innspýtingu í þennan geira myndum við stórauka umsvif hér á landi og með slíkum umsvifum fengjust störf og skatttekjur, ekki síst í þeim geira sem núna þjáist og úti á landsbyggðinni. Þessi verkefni krefjast margs konar þekkingar og nýtingar á hótelum ásamt flutningi, veitingarekstri, leiðsögn, tæknistörfum og auðvitað allrar listarinnar sem verður sköpuð. Þá verða ferðamenn framtíðarinnar til vegna slíks myndefnis því að fjölmargar rannsóknir sýna að það er beint samband milli ferða til Íslands og sjónvarps- og kvikmyndaefnis sem hér er tekið upp.

Við höfum nú þegar dæmi um það, því miður, herra forseti, að við höfum misst af milljarða króna verkefnum, t.d. til Írlands vegna þess að þeir bjóða betur en við. Það er mikil samkeppni milli ríkja um að fá þessi verkefni til sín. Ég veit það, ég er í ágætu sambandi við fólk í þessum geira, að við höfum misst verkefni til Írlands m.a. vegna þess að endurgreiðsluhlutfallið hér er 25% en ekki 35%. Það þarf ekki mikið til að vinna samkeppnina þegar kemur að því að laða að hingað verkefni. Þetta er ein af þeim aðgerðum sem ég vil nefna í þessari umræðu þó að við séum að tala um listamannalaun. Gerum þetta saman. Ég myndi halda að það væri þverpólitískur vilji allra flokka að gera betur þegar kemur að sjónvarps- og kvikmyndagerð.

Og aftur að lokum, herra forseti, vil ég ítreka það að þetta skref í frumvarpinu, að fjölga listamannalaunum, er gott. Forsætisráðherra sagði meira að segja, þegar listamannalaunum var fjölgað í vor, að það hefði verið gert m.a. eftir umræðu sem við stóðum fyrir á þeim tíma. Og það er gott og vel, en tökum aðeins stærri skref, herra forseti, því að þetta er hugmynd sem býr til umsvif, skatttekjur og býr til list. Það er ekkert annað sem hamlar okkur hér en við sjálf. Þetta væri sniðug leið í atvinnusköpun þegar okkur vantar sárlega störf. Við erum með listafólk sem er tilbúið að vinna. Við erum með þetta frábæra listafólk á öllum þessum mismunandi sviðum, hvort sem það eru hönnuðir eða myndlistarfólk, rithöfundar, sviðslistafólk, tónlistarfólk, tónskáld. Við höfum allt þetta frábæra fólk en það vantar vettvang og vinnu og tækifæri til að lifa á list sinni. Þess vegna á hið opinbera að koma að með myndarlegri hætti en hér er gert. Hér verður markaðsbrestur og þegar það verður markaðsbrestur segja fræðin okkur að hið opinbera eigi að koma inn með öllu sínu afli og leiðrétta þann markaðsbrest. Þess vegna kalla ég eftir því að við tökum stærri skref hvað þetta varðar. Þetta myndi stórbæta starfsumhverfi og fjölga þeim einstaklingum sem geta lifað af list sinni.

Samhliða því held ég að við ættum líka að taka umræðu um að hækka listamannalaunin sjálf. Síðast þegar ég vissi voru þau rúmlega 400.000 kr. og mér finnst að sjálfsögðu að miða ætti að því að hækka fjárhæð listamannalauna þannig að hún nái a.m.k. upp í miðgildislaun í landinu, sem eru um 650.000 kr.

Herra forseti. Það er listin og menningin sem gerir okkur að Íslendingum. Listafólk hefur staðið með okkur nú á þessum erfiðu tímum en líka alltaf áður. Nú skulum við standa með listamönnum þegar á reynir. Það þýðir ekki að tala um að gera þetta í fjarlægri (Forseti hringir.) eða fallegri framtíð. Tíminn er núna. Verjum peningum til að búa til peninga og búa til frábæra list um leið.