151. löggjafarþing — 23. fundur,  19. nóv. 2020.

skaðabótalög.

96. mál
[15:33]
Horfa

Flm. (Guðmundur Ingi Kristinsson) (Flf):

Virðulegur forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingu á skaðabótalögum, nr. 50/1993, með síðari breytingum, gjafsókn. Auk mín á frumvarpinu er Inga Sæland. Það hljóðar svo:

„1. gr. Á eftir 27. gr. laganna kemur ný grein, ásamt fyrirsögn, svohljóðandi:

Gjafsókn.

Gjafsókn skal veitt þeim sem höfðar mál til viðurkenningar á skaðabótaskyldu vegna líkamstjóns eða til að krefjast greiðslu skaðabóta vegna líkamstjóns þrátt fyrir að skilyrðum 1. mgr. 126. gr. laga um meðferð einkamála sé ekki fullnægt, enda hafi heildartekjur viðkomandi verið undir meðaltali heildartekna á næstliðnu almanaksári samkvæmt tölum frá Hagstofu Íslands. Fer að öðru leyti um gjafsókn samkvæmt almennum reglum.

2. gr. Lög þessi öðlast þegar gildi.“

Efni þessa máls er að finna í frumvarpi sem lagt var fram á 150. löggjafarþingi, 430. mál, en hlaut ekki afgreiðslu. Það frumvarp fjallaði einnig um grundvöll reglulegrar uppfærslu fjárhæða skaðabótalaga. Betur þykir fara á því að leggja málin fram í aðskildum frumvörpum. Því er í þessu frumvarpi aðeins fjallað um gjafsókn í skaðabótamálum.

Efnisatriði frumvarpsins eru að meginefni til þau sömu og í fyrrnefndu frumvarpi sem lagt var fram á 150. löggjafarþingi en gerð er breyting þess efnis að veiting gjafsóknar taki mið af fjárhag viðkomandi. Þá eru gerðar smávægilegar breytingar formlegs eðlis.

Það er einstaklingum oft þung byrði að höfða dómsmál vegna líkamstjóns sem þeir hafa orðið fyrir. Þeir fallast því gjarnan frekar á þær bætur sem tryggingafélög bjóða að fyrra bragði og gefa eftir þann rétt sem þeir þó telja sig eiga. Til þess að stemma stigu við þessu vandamáli sem snýr að tekjulægri einstaklingum og þar með bæta réttaröryggi þeirra sem hafa orðið fyrir líkamstjóni er lagt til að þeir eigi kost á því að höfða mál til viðurkenningar á skaðabótaskyldu eða greiðslu skaðabóta sem rekja má til líkamstjóns með því að rýmka rétt þeirra til gjafsóknar.

Í almennum reglum um gjafsókn samkvæmt lögum nr. 91/1991, um meðferð einkamála, samanber reglugerð nr. 45/2008 um skilyrði gjafsóknar og starfshætti gjafsóknarnefndar, eru sett ströng skilyrði um bága fjárhagsstöðu umsækjenda fyrir veitingu gjafsóknar. Með frumvarpi þessu er lagt til að gjafsókn skuli veitt, í þeim tegundum dómsmála sem um ræðir, að því skilyrði uppfylltu að heildartekjur umsækjanda á næstliðnu almanaksári hafi verið undir meðaltali heildartekna hér á landi það sama ár samkvæmt tölum frá Hagstofu Íslands. Árið 2019 var meðaltal heildartekna samkvæmt útgefnum tölum Hagstofunnar 5.677.000 kr. Þannig nær hin nýja regla til þeirra sem hafa lágar tekjur, þótt þær séu hærri en núgildandi tekjuviðmið fyrrnefndrar reglugerðar.

Efni frumvarpsins samræmist 3. mgr. 126. gr. laga um meðferð einkamála sem kveður á um að gjafsókn verði enn fremur veitt eftir því sem fyrir er mælt í öðrum lögum. Að frátöldum almennum skilyrðum fyrir gjafsókn samkvæmt 1. mgr. 126. gr. fyrrnefndra laga gilda ákvæði XX. kafla sömu laga um veitingu gjafsóknar á grundvelli þess ákvæðis sem mælt er fyrir um í frumvarpi þessu.

Eins og kom fram í upphafi var mælt fyrir þessu frumvarpi á síðasta löggjafarþingi, 150. þingi. Í því frumvarpi var einnig mál sem þegar hefur verið mælt fyrir um, þ.e. um hækkun á upphæðum skaðabótalaga sem hafa rýrnað og eru ekki nærri helmingur af því sem þær ættu að vera samkvæmt lögum.

Við meðferð frumvarpsins á síðasta þingi sendi ASÍ umsögn og þar segir orðrétt, með leyfi forseta:

„Alþýðusamband Íslands styður eindregið þau sjónarmið sem frumvarp þetta er byggt á hvað varðar vísitöluviðmiðun skaðabótalaga og telur frumvarpið stuðla að því meginmarkmiði skaðabótalaga að tjónþolar verði eins settir og þeir voru fyrir tjón.“

— Þetta gilti að vísu um fyrri frumvarpið um hækkun vísitöluviðmiða skaðabótalaga. Um gjafsókn segir orðrétt, með leyfi forseta:

„Hvað varðar skilyrðislausa gjafsókn vegna líkamstjóna þá telur ASÍ rétt, að heimildir til gjafsóknar fyrir efnaminni einstaklinga þurfi að rýmka verulega, hvort sem um skaðabótamál sé að ræða eða ekki. ASÍ telur hins vegar að ekki sé ráðlegt að falla alfarið frá skilyrðum 1. mgr. 126. gr. einkamálalaga en það geti stuðlað að tilefnislausum málaferlum og hamlað samkomulags uppgjörum og sáttum innan og utan réttar.“

Ef við tökum þetta saman og áttum okkur á hvernig málunum er háttað í dag þá miðum við í frumvarpinu við meðaltekjur einstaklings árið 2019, 5.677.000 kr. Eins og staðan er í dag er miðað við aðra upphæð, eins og segir orðrétt í upplýsingum um gjafsókn:

„Við mat á því hvort gjafsókn verði veitt vegna efnahags umsækjanda skal miða við að stofn til útreiknings tekjuskatts og útsvars og fjármagnstekjur nemi ekki hærri fjárhæð en samtals kr. 3.724.000. Sé umsækjandi í hjúskap eða sambúð ber að hafa hliðsjón af tekjum maka og skulu samanlagðar árstekjur ekki nema hærri fjárhæð en sem nemur kr. 5.594.000. Þegar umsækjandi er yngri en 18 ára skal höfð hliðsjón af samanlögðum tekjum foreldra. Hækka skal viðmiðunarmörk tekna um kr. 414.000 fyrir hvert barn undir 18 ára aldri, þ.m.t. stjúp- og fósturbörn, sem búa hjá umsækjanda eða hann elur að mestum hluta önn fyrir.“

Þarna á milli er rosalega breitt bil. Ef við áttum okkur á því hvað við erum að tala um í tekjum þá mega allar tekjur, stofn til útreiknings tekjuskatts og útsvars og fjármagnstekjur, ekki fara yfir 3,7 millj. kr., sem eru rétt rúmar 300.000 kr. á mánuði. Ef við setjum þetta í samhengi við tekjur hjá hjónum verða þær samanlagt undir 300.000 kr. Það eru því eiginlega mjög fáir einstaklingar sem geta nýtt sér gjafsóknarleið. Og ef þeir komast fram hjá þessum tekjuviðmiðum taka við alls konar hindranir sem eru til þess fallnar að það verður mjög erfitt fyrir viðkomandi að fá gjafsókn.

Staðan er því miður þannig að það er orðið mjög misjafnt hvernig fólk, sem lendir í slysum, stendur gagnvart tryggingafélögum upp á það að geta varið sig fyrir dómi. Það gera sér fæstir grein fyrir því, ef þeir lenda í umferðarslysum, í hvaða ferli hlutirnir fara. Ef viðkomandi verður fyrir slæmum líkamlegum áverkum og þarf að fara í aðgerðir og endurhæfingu og annað getur það tekið langan tíma. Og þegar hlutirnir fara loksins af stað og það á semja um skaðabætur geta verið liðin allt að þrjú, fjögur ár. Þá er fjárhagur viðkomandi yfirleitt kominn í rúst. Í ferlinu þarf fyrst að taka út, ef hann var í vinnu, réttindi til vinnulauna í veikindum. Síðan þarf að sækja um dagpeninga hjá Tryggingastofnun eða endurhæfingarlífeyri og það vita allir að ferlið hjá mörgum fer síðan í örorku og það vita það allir að þá má þakka fyrir að tekjugrunnurinn sé helmingurinn af því sem áður var. Allt þetta veldur því að fjárhagsleg staða einstaklingsins versnar og versnar.

Því miður er staðreyndin sú að þessa stöðu nýta tryggingafélögin sér. Þau nýta hana og valda því að fólk sem ætlar að berjast og vill berjast getur það ekki. Það verður að fara í mat og samþykkja það mat gagnvart matsmönnum sem tryggingafélögin leggja fram, ásamt kannski lögmanni sínum. Þar er oft himinn og haf milli þeirra bóta sem metnar eru að viðkomandi eigi rétt á og ef hann gæti fengið gjafsókn og farið í mál og fengið dómkvadda matsmenn sem meta tjón. Fyrir vikið eru þeir, sem eru svo heppnir að fá eitthvað í bætur, að fá kannski 10, 20, 30 eða 40% af því sem þeir áttu rétt á miðað við 100% bætur. Það er ömurlegt til þess að vita. Og þeir fá jafnvel ekki neitt vegna þess að málin eru snúin.

Það er hægt að sækja um gjafsókn og þegar einhver ætlar að sækja um gjafsókn í núverandi kerfi, þarf hann að snúa sér til gjafsóknarnefndar, sem er flókið ferli, flókin framkvæmd, svo er tekjuviðmiðið og þarf að fylla í nokkur box til að vera tækur þar inn. En það sem er auðvitað furðulegast og kemur mest á óvart er að þá kemur nefnd sem metur hvort hún telji viðkomandi eiga einhvern séns á að vinna tryggingafélögin. Því miður hef ég orðið var við að í þessa gjafsóknarnefnd fóru menn sem voru jafnvel tengdir inn í tryggingafélögin. Það er auðvitað alveg ömurlegt að vita til þess að til að reyna að koma máli í dóm þá ferðu fyrir gjafsóknarnefnd sem dæmir um það hvort málið sé hæft fyrir dómi. Hún er orðin dómstóll í sjálfu sér.

Það er með ólíkindum að við skulum vera með svona kerfi og það er með ólíkindum hversu gífurleg þögn ríkir um þetta kerfi sem varðar vátryggingafélögin. Á sama tíma og viðkomandi er að berjast við tryggingafélög og fær kannski smánarbætur, hafa þau heimild til að meta tjónið og leggja inn í bótasjóð þá upphæð sem þau telja að tjónið muni kosta. Þau meta að tjónið sé upp á 100 milljónir, leggja það inn í bótasjóðinn, en borga kannski ekki út nema 20, 30% eða ekki neitt. Þar safnast upp fé, fé án hirðis, eins og Pétur Blöndal orðaði það svo vel á sínum tíma. Fé án hirðis sem við höfum séð hverfa úr bótasjóðum tryggingafélags til Tortóla, Cayman-eyja eða endaði í lúxusíbúð í Kína eða Hong Kong og kom svo til baka og var hálfgert veð í sundlauginni á Álftanesi, sem var alveg stórfurðulegt mál, eftir bankahrunið.

Það er líka furðulegt að þessi bótasjóður er aldrei gerður upp á Íslandi. Það eru engin lög um uppgjör á bótasjóði, hann safnar og safnar fé. Tryggingafélög mega ávaxta féð og fá þá ávöxtun. En siðaðar þjóðir gera upp slíka bótasjóði með reglulegu millibili.

Ef við rýmkum gjafsóknarheimildina og sjáum til þess að fleiri geti fengið gjafsókn eru meiri líkur á að viðkomandi hafi getu til að fara í mál og klára málið og fá réttar og sanngjarnar bætur fyrir sitt tjón. Við eigum að stefna að því að fólk fái þær bætur sem það á rétt á í kerfinu en ekki einhverjar smánarbætur sem því er úthlutað, bara vegna þess að það er komið í þá fjárhagslegu stöðu að það verður líklega samþykkja hvað sem er, liggur við, í þessum málum.

Við vitum líka að stór hópur fólks er með skaðabótatryggingar, gjafsóknartryggingar, í sínum tryggingum en því miður eru ekki allir með það og því miður er stór hópur af fólki sem hefur ekki efni á því að vera með það. Þess vegna þurfum við að tryggja að þeir sem þurfa á því að halda geti barist við tryggingafélögin. Það á að vera skylda okkar og ætti að vera sjálfsagt mál. Ef maður lendir í alvarlegu líkamstjóni eða minni háttar líkamstjóni sem er skaðabótaskylt þá eigi maður rétt á að fá það sem er réttur manns samkvæmt lögum og það sé metið nákvæmlega rétt. Það sé hægt að leita allra þeirra úrræða sem möguleg eru til þess að fá bæturnar. Ef það væri gert værum við að fara eftir skaðabótalögum því að tilgangur þeirra hlýtur að vera að bæta skaðann að fullu, eða eins og hægt er, en ekki að skaðinn sé bættur að því eina leyti sem tryggingafélögunum þóknast. Það segir sig sjálft að það er algjörlega hagur þeirra að borga sem minnst, sem minnstar bætur. Því minna sem þau borga út, því meira er í bótasjóði og því meira hafa þau til ávöxtunar. Það hlýtur að segja okkur og gerir það að verkum að þetta er ömurlegt kerfi og ég vona heitt og innilega að við breytum þessu.

Ég vil líka benda á grein sem birtist í Kjarnanum 8. ágúst 2018. Þar segir orðrétt, með leyfi forseta.

„Af hverju skiptir þetta máli? Lágar fjárhæðir í reglum um gjafsókn hafa lengi verið gagnrýndar. Ragnar Aðalsteinsson lögmaður segir til dæmis í nýlegu viðtali við Stundina að gjafsóknarkerfið sé ónýtt. „Við hér á stofunni höfum fengið til okkar fólk sem hefur viljað áfrýja málum sem það hefur tapað í héraði, fólk sem ekki hefur getað borgað neitt. Við höfum þá sótt um gjafsókn fyrir það en fengið neitun með þeim röksemdum að héraðsdómurinn sé svo góður, það þurfi ekki að áfrýja málinu. Það er hins vegar ekki gjafsóknarnefndar að taka afstöðu til þess en þeir telja að svo sé. Þá höfum við þurft að áfrýja málinu á okkar kostnað og á okkar áhættu. Við höfum hins vegar unnið slík mál, fleiri en eitt og fleiri en tvö. Svo má líka nefna að tekjuviðmiðin sem lögð eru fyrir gjafsókn eru langt neðan við allt og meira að segja hafa ráðherrar sett reglugerðir sem takmarka slíkt enn frekar.“

Ragnar sagði þetta standa réttarríkinu fyrir þrifum, það er þeim hluta borgaranna sem höllustum fæti stendur í samfélaginu. Erfitt sé að komast fyrir dómstóla með réttindamál almennings, því það sé allt of dýrt og möguleikinn á gjafsókn oft lítill sem enginn.

Í lögum um meðferð einkamála segir að gjafsókn verði aðeins veitt ef málstaður umsækjanda gefi nægilegt tilefni til málshöfðunar eða málsvarnar og öðru hvoru eftirfarandi skilyrða er að auki fullnægt:

a. að fjárhag umsækjanda sé þannig háttað að kostnaður af gæslu hagsmuna hans í máli yrði honum fyrirsjáanlega ofviða, enda megi teljast eðlilegt að öðru leyti að gjafsókn sé kostuð af almannafé,

b. að úrlausn máls hafi verulega almenna þýðingu eða varði verulega miklu fyrir atvinnu, félagslega stöðu eða aðra einkahagi umsækjanda.“

Ég segi ykkur að það er alveg með ólíkindum, þegar maður les þetta upp, hver á að vera ástæðan fyrir því að viðkomandi á að fá gjafsókn og að það skuli koma fram, eins og segir hér, að gjafsóknarnefnd taki að sér dómsvaldið og segi: Nei, þetta er ekki möguleiki, dómur héraðsdóms er svo rosalega réttur. Það sem maður furðar sig mest á er að þegar maður getur lesið svona rök frá gjafsóknarnefnd og hægt er að sýna fram á það að dómur héraðsdóms er kolrangur, þá skiptir það engu máli. Og að það skuli vera hægt að berjast gegn gjafsóknarnefnd svo árum skipti og loksins þegar þeir geta ekki annað en kyngt því, þegar búið er að fara til umboðsmanns og ganga á milli Pontíusar og Heródesar og út um allt, þá kyngja þeir því loksins að jú, það sé grundvöllur fyrir gjafsókn. Það er grundvöllur fyrir því að viðkomandi hafi orðið fyrir meira tjóni. Hann fær gjafsókn. En hvað gerist þá? Málið er fyrnt. Tryggingafélagið fær allan peninginn, hverja einustu krónu.

Svona mál eru til. Svona mál eru í umferð. Svona mál sýna okkur svart á hvítu að það er kominn tími til að ríkisstjórnin hysji upp um sig buxurnar, taki skaðabótalögin algerlega í nefið, hækki viðmiðin svo fólk fái það sem það á rétt á og hún tryggi að skaðabótalögin séu til þess sem þau eiga að vera, að bæta skaða viðkomandi en ekki stórbæta hag tryggingafélaga á kostnað þeirra sem verða fyrir líkamstjóni.