151. löggjafarþing — 23. fundur,  19. nóv. 2020.

skipagjald.

313. mál
[16:02]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til nýrra laga um skipagjald. Skipagjald er skattur sem lagður er á eigendur skipa árlega, samkvæmt 28. gr. laga um eftirlit með skipum. Í frumvarpi til skipalaga sem lagt hefur verið fram á Alþingi, samanber 208. mál, þskj. 209, er ekki að finna ákvæði um skipagjald. Í greinargerð með því frumvarpi segir að talið hafi verið við samningu frumvarpsins að ákvæði um skipagjald eigi betur heima í lögum um aukatekjur ríkissjóðs, nr. 88/1991.

Lagt er til í frumvarpi þessu að ákvæði um skipagjald verði í nýjum lögum um skipagjald. Ekki er talið að ákvæði um skipagjald eigi heima í lögum um aukatekjur ríkissjóðs þar sem skipagjald er eðlisólíkt þeim gjöldum sem kveðið er á um í þeim lögum og ber þannig til að mynda dráttarvexti sé gjaldið ekki greitt á gjalddaga líkt og aðrir skattar. Þá er kveðið á um fjárhæð skipagjalds eftir stærðarflokkum skipa og umsjón með álagningu, sem verður í höndum Samgöngustofu eins og áður hefur verið enda heldur stofnunin utan um aðalskipaskrá.

Nokkrar efnisbreytingar er að finna um skipagjald í frumvarpi þessu frá 28. gr. laga um eftirlit með skipum. Þannig er lagt til að eindagi verði ekki sá sami og gjalddagi heldur 15. maí og að dráttarvextir reiknist frá gjalddaga en ekki degi eftir gjalddaga. Þá er horfið frá ákvæði um haldlagningarrétt Samgöngustofu á haffærisskírteinum, samanber 5. mgr. 28. gr. laganna, þar sem ljóst þykir að heimildinni hafi aldrei verið beitt í reynd. Einnig er kveðið á um að lögveð vegna vangoldins gjalds skuli vera gilt í tvö ár í stað eins árs en innheimtumenn telja eitt ár allt of skamman tíma til að ljúka innheimtu. Þá er jafnframt skýrt kveðið á um hver annast álagningu gjaldsins, innheimtu þess og kæruleið gjaldanda.

Virðulegi forseti. Frumvarpið mun ekki hafa áhrif til breytinga á stjórnsýslu ríkisins eða hagsmunaaðila, þ.e. gjaldendur skipagjalds. Þó mun lenging á lögveði úr einu ári í tvö ár, vegna vangoldins skipagjalds, hafa áhrif í þá veru að auka líkur á árangursríkari innheimtu gjaldsins. Frumvarpið mun ekki hafa teljandi áhrif á afkomu ríkissjóðs verði það óbreytt að lögum. Um er að ræða nauðsynlegar leiðréttingar og aðrar breytingar sem munu leiða til þess að viðkomandi löggjöf á sviði skattamála verði skýrari.

Að þessu sögðu legg ég til að frumvarpi þessu verði vísað til hv. efnahags- og viðskiptanefndar og til 2. umr. að lokinni þessari umræðu.