151. löggjafarþing — 24. fundur,  24. nóv. 2020.

framlög til lífeyrisþega.

[13:57]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Nú fyrir helgi kynnti ríkisstjórnin aðgerðaáætlun, nýjan pakka, sem fól í sér m.a. „gæsku“, myndi ég kalla það, að vísu gæsku innan gæsalappa, til öryrkja. Það felur í sér bónusgreiðslu upp á 50.000 kr. nú í desember. Í fyrsta lagi væri það verulega ánægjulegt ef hæstv. félags- og barnamálaráðherra gæti sagt við okkur hér og nú að þeir þyrftu ekki að bíða eftir þessari greiðslu og fengju hana 1. desember. En það sem ég er að velta vöngum yfir er hvort þessi bónusgreiðsla sé ekki bjarnargreiði, svipað og þær bónusgreiðslur sem komið hafa til öryrkja og fela ekki bara í sér að þær séu skattlagðar, heldur er ekkert samtal við sveitarfélögin. Þau greiða annars vegar styrki til einstaklinga sem eru í sárri fátækt, það eru sérstaklega öryrkjar, og við vitum það öll, og skerða síðan sérstakar húsaleigubætur. Og ekki nóg með það, sérstök uppbót á framfærslu lífeyrisþega frá almannatryggingum, sem greidd er mánaðarlega — þessir einstaklingar þurfa að endurgreiða hluta af henni á næsta ári.

Ég spyr: Veit hæstv. félags- og barnamálaráðherra hversu margar krónur öryrkinn kemur hugsanlega út með í mínus þegar upp er staðið, af þessum bjarnargreiða, eins og ég kalla það? Ef hann veit það þætti mér voðalega vænt um að fá að vita það. Og annað líka: Ef gera á góðverk, ef koma á til móts við þá sem minnst mega sín, af hverju er það ekki þannig að það sé virkilega látið virka? Af hverju er það ekki þannig að ekki sé verið að skerða? Af hverju er það ekki þannig að það geti komið að gagni og viðkomandi geti verið sæll og glaður með það? Hvers vegna er verið að mismuna eldri borgurum sem eru einungis á strípuðum almannatryggingabótum og eru jafnvel með lægri framfærslu en fátækustu öryrkjar?