151. löggjafarþing — 24. fundur,  24. nóv. 2020.

framlög til lífeyrisþega.

[13:59]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir. Það voru allmargar spurningar í þessu, í fyrsta lagi af hverju umrædd 50.000 eingreiðsla væri ekki greidd út 1. desember. Ástæðan er sú að við reiknum með að það þurfi að undirbúa að geta haft hana án skerðinga, að hún skerði ekki aðrar tekjur og sé skattfrjáls. Ég held að það sé gríðarlega mikilvægt. Það þarf líka ákveðinn tíma í tölvukerfi Tryggingastofnunar til að geta greitt þetta út.

Í næstu setningu fór hv. þingmaður að velta því fyrir sér hvort þessi desemberuppbót, sem væri góð, væri í rauninni slæm. Þá næ ég eiginlega ekki tengingu við það sem hv. þingmaður er að segja. Ég held að verið sé að stíga jákvætt skref hvað þetta snertir. Við erum líka að undanskilja þetta skatti. Þetta verður skattfrjálst sem er ekki sjálfgefið vegna þess að almennt er það ekki svoleiðis með einskiptisgreiðslur. Þær eru almennt til skerðinga og skattlagðar. Það verður ekki í þessu tilfelli þannig að ég held að við eigum að geta fagnað þessu.

Þegar kemur að málefnum sveitarfélaga verður sveitarstjórnarstigið auðvitað að svara því hvernig það bregst við samhliða þessu. Það getur ekki verið neikvætt að við séum að koma með uppbót sem þessu nemur ofan á desemberuppbót. Á næsta ári munu síðan koma lagabreytingar sem lúta að því að koma sérstaklega til móts við tekjulægsta hópinn.

Síðan er spurt af hverju ekki er sambærileg ráðstöfun fyrir eldri borgara. Að hluta til erum við að gera það sama með desemberuppbótina. Við erum síðan að ráðstafa 1,1 milljarði sem ætlaður var til örorkulífeyrisþega í fjárlögum yfirstandandi árs og var eyrnamerktur ákveðnum breytingum sem við erum að víkja frá (Forseti hringir.) til að koma fjármagninu til þeirra sem sannarlega þurfa á því að halda. Ég skal útskýra það betur í seinna seinna svari mínu.