151. löggjafarþing — 24. fundur,  24. nóv. 2020.

húsakostur Landakots og sóttvarnaaðgerðir.

[14:18]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Ráðherra vill það bara alls ekki neitt. Hv. þingmaður spyr hérna um húsakost á Landakoti. Það er svo að húsakostur íslenskrar heilbrigðisþjónustu er víða barn síns tíma. En það er líka svo að það þarf sérútbúinn húsakost til að uppfylla ströngustu kröfur um sóttvarnir á öllum tímum. Það er jafnframt svo, af því að hv. þingmaður spurði um hvað sá ráðherra sem hér er hefði verið að aðhafast síðustu þrjú árin, að við höfum t.d. hafið uppbyggingu Landspítala við Hringbraut, sem er löngu tímabært verkefni. Við höfum hafið uppbyggingu hjúkrunarrýma víða um land og verkefni sem ætluð eru til að bæta aðbúnað hjúkrunarrýma víða um land þar sem enn eru tvíbýli eða þríbýli.

Og af því að hv. þingmaður talar um blauta tusku er það svo, því miður, að Landspítalinn veit og vissi af þessum halla og vissi af því hvernig hann liti út. En aðhaldskrafa stjórnvalda er 0,5% á ári hverju á heilbrigðisþjónustu. (Forseti hringir.) Og fjárlagafrumvarpið er núna til afgreiðslu á Alþingi. Ég geri ráð fyrir því að fjárlaganefnd muni ljúka afgreiðslu á því og gera tillögu til þingsins.