151. löggjafarþing — 24. fundur,  24. nóv. 2020.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 67/2020 um breytingu á IX. viðauka við EES-samninginn.

218. mál
[14:35]
Horfa

Frsm. utanrmn. (Ari Trausti Guðmundsson) (Vg):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti um tillögu til þingsályktunar um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 67/2020 um breytingu á IX. viðauka, fjármálaþjónustuviðauka við EES-samninginn.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Gaut Sturluson frá utanríkisráðuneyti og Benedikt Hallgrímsson frá fjármála- og efnahagsráðuneyti.

Með tillögunni er leitað heimildar Alþingis til að staðfesta umrædda ákvörðun og fella inn í EES-samninginn. Hér eru fimm liðir þar sem gerð er grein fyrir því hvað þetta fjallar um og hvað verið er að staðfesta:

a. reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins, nr. 1286/2014, frá 26. nóvember 2014 um lykilupplýsingaskjöl fyrir pakkaðar og vátryggingatengdar fjárfestingarafurðir fyrir almenna fjárfesta,

b. reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins, nr. 2340/2016, frá 14. desember 2016 um breytingu á reglugerð ESB nr. 1286/2014 um lykilupplýsingaskjöl fyrir pakkaðar og vátryggingatengdar fjárfestingarafurðir fyrir almenna fjárfesta að því er varðar gildistökudag hennar,

c. framselda reglugerð framkvæmdastjórnar ESB, 2016/1904, um viðbætur við reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins, nr. 1286/2014, að því er varðar afurðaíhlutun,

d. framselda reglugerð framkvæmdastjórnar ESB, 2017/653, um viðbætur við reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins, nr. 1286/2014, og rúsínan í pylsuendanum, um lykilupplýsingaskjöl fyrir pakkaðar og vátryggingatengdar fjárfestingarafurðir fyrir almenna fjárfesta með því að mæla fyrir um tæknilega eftirlitsstaðla að því er varðar framsetningu, inntak, yfirferð og endurskoðun lykilupplýsingaskjala og skilyrðin fyrir því að uppfylla kröfur um að láta slík skjöl í té,

e. framselda reglugerð framkvæmdastjórnar ESB, 2019/1866, um breytingu á framseldri reglugerð, 2017/653, til laga um breytingarfyrirkomulag framleiðenda pakkaðra og vátryggingatengdra fjárfestingarafurða fyrir almenna fjárfesta, sem bjóða hlutdeildarskírteini í sjóðum eins og um getur í 32. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins, nr. 1286/2014, sem undirliggjandi fjárfestingarmöguleika, að framlengdu undanþágutímabilinu sem um getur í þeirri grein.

Nefndin kemst að þeirri niðurstöðu að framsetning tillögunnar teljist í samræmi við 7. gr. reglna um þinglega meðferð EES-mála. Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt.

Nefndarálitið er dagsett 18. nóvember. Undir það skrifa hv. þingmenn Sigríður Á. Andersen, formaður og framsögumaður, Ari Trausti Guðmundsson, sem leysir framsögumann af, Bryndís Haraldsdóttir, Gunnar Bragi Sveinsson, Logi Einarsson, Njáll Trausti Friðbertsson, Rósa Björk Brynjólfsdóttir, Silja Dögg Gunnarsdóttir og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir.

Herra forseti. Ég hef lokið við að gera grein fyrir þessu nefndaráliti.