151. löggjafarþing — 24. fundur,  24. nóv. 2020.

opinber fjármál.

6. mál
[15:13]
Horfa

Frsm. fjárln. (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni spurningarnar. Ég vil fyrst víkja að inngangi andsvarsins sem kom inn á stefnu hæstv. ríkisstjórnar í upphafi. Það er rétt, sem hv. þingmaður segir, að fjármálaráð gagnrýndi að ríkisstjórnin hefði með þeirri stefnu sett sig í ákveðna spennitreyju. Þar vil ég segja: Jú, sú stefna byggði á efnahagsspám sem voru bjartsýnar og þar með gekk hún út á að standa við gefin loforð í stjórnarsáttmála, m.a. um innviðauppbyggingu, að styrkja heilbrigðiskerfið og ég gæti lengi talið. Það mátti hins vegar lítið út af bregða, á það benti fjármálaráð og það raungerðist. Við vorum þá tilneydd að koma hingað og endurskoða þá stefnu vegna þess að hún gekk ekki upp. Þá var hins vegar byggt inn í stefnuna óvissusvigrúm. Ég held að þetta óvissusvigrúm sé mjög mikilvægt fyrir alla sem setja sér stefnu í framtíðinni.

Í því samhengi vil ég víkja að spurningunni um hvort fjármálareglur eigi að vera klossfestar í lögum. Nú get ég bara svarað fyrir það hvaða skoðun ég hef á því. Ég hef þá skoðun að ríkisstjórnin eigi að setja sér þau markmið en ekki klossfesta þau í lögum. Mér finnst einhvern veginn blasa við, og þá er ég kannski að svara lokaspurningunni, að það sé farið að virka svolítið þannig að við getum haft stífar reglur í uppsveiflu og góðæri en eigum mjög erfitt með að halda svona reglur (Forseti hringir.) í niðursveiflu og ég tala nú ekki um í kreppu. Þá ráðum við ekkert við þetta. Þá kann maður að spyrja: Þegar reglurnar (Forseti hringir.) gilda bara í aðra áttina er þá skynsamlegt að hafa þær í lögunum?