151. löggjafarþing — 24. fundur,  24. nóv. 2020.

opinber fjármál.

6. mál
[15:15]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Strax eftir efnahagshrunið og hrun bankanna haustið 2008, eða fljótlega eftir það, var farið að vinna að nýjum lögum um opinber fjármál enda ekki vanþörf á. Það þurfti að gera hvort sem er en var mikilvægt í ljósi aðstæðna. Heilmikið samráðsferli fór í gang, starfshópar voru myndaðir og farið var í samráð og ráðgjöf hjá viðurkenndum stofnunum o.s.frv. Fjórir fjármálaráðherrar komu að samningu þessara laga um opinber fjármál sem síðan voru samþykkt hér árið 2015.

Síðustu greinarnar sem inn í frumvarpið komu voru um fjármálareglurnar. 7. gr. og 10. gr. um stefnurnar og allt í kringum fjármálareglurnar fóru ekki í gegnum þetta samráðsferli enda kom í ljós, við afgreiðslu málsins í þingsal, að þar voru ágreiningsefni. Greinarnar eru 64, ef ég man rétt, og allar til bóta að mínu mati nema 7. gr. um fjármálareglurnar.

Ég er innilega sammála hv. þingmanni þegar hann segir að það sé hans persónulega skoðun að skynsamlegra sé að hver ríkisstjórn setji sér sínar fjármálareglur því að auðvitað skrifar maður ekki pólitík inn í lög um opinber fjármál sem þurfa að gilda bæði fyrir ríkissjóð og sveitarsjóði landsins. Við erum sammála um þetta, ég og hv. þingmaður, en ég vil spyrja hvort það hafi þá komið til tals, annaðhvort í hv. fjárlaganefnd eða innan ríkisstjórnar og stjórnarliða, að gera breytingar á lögum um opinber fjármál í þessa veru.