151. löggjafarþing — 24. fundur,  24. nóv. 2020.

á opinber fjármál.

6. mál
[15:18]
Horfa

Frsm. fjárln. (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Oddnýju G. Harðardóttur fyrir að rifja þetta upp með okkur. Hv. þingmaður átti sæti í fjárlaganefnd og var fjármálaráðherra þegar þessi vinna fór öll í gang. Hún þekkir þetta mun betur en ég. Ég hafði hins vegar mikinn áhuga á þessu og fylgdist með á þessu tímabili, í aðdraganda þess að við samþykktum þetta 2013–2016. Ég hef haft þá skoðun og hef í raun og veru, í ljósi þeirra efnahagslegu atburða sem við erum að kljást við, staðfest í þeirri trú að það sé miklu skynsamlegra að ríkisstjórn setji sér skilyrði í upphafi hvers kjörtímabils. Það kann að vera að skuldaregla geti átt þar heima en á einhverju bili og snúi þá að einhvers konar sjálfbærni sem setur okkur einhverjar skorður í því sem snýr að skuldsetningu gagnvart komandi kynslóðum. Auðvitað höfum við rætt þetta að einhverju marki í fjárlaganefnd, kannski á göngum og í upphafi funda o.s.frv., en við höfum ekki tekið þetta til markvissrar skoðunar. Ég fór svolítið yfir þetta í minni framsögu og vísaði þá til margra aðila sem kalla eftir endurskoðun á lögunum. Mér finnst blasa við að áður en 7. gr. verður gangsett aftur fari fram umræða og endurskoðun og greinargóð skoðun á gildi slíkra skilyrða í lögum. Ég hins vegar studdist við álit fjármálaráðs í þeirri spurningu sem hefur komið upp: Af hverju segjum við að stöðva eigi skuldasöfnun 2025 og gangsetja skilyrðin 2026? Ég tel það afar mikilvægt og er sammála fjármálaráði í því (Forseti hringir.) upp á trúverðugleika stefnu.