151. löggjafarþing — 24. fundur,  24. nóv. 2020.

opinber fjármál.

6. mál
[15:28]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Meginefni frumvarpsins sem við ræðum hér, breytingu á lögum um opinber fjármál, er að láta skilyrði laganna um heildarjöfnuð og skuldahlutföll hins opinbera, svonefndar tölulegar fjármálareglur, ekki gilda fyrir árið 2023–2025. Auk þess er verið að leggja til að ekki þurfi sérstaka undanþágu frá lögunum vegna mögulegrar endurskoðunar á fjármálastefnu á sama tímabili. Hún hefur reyndar verið endurskoðuð í tvígang í tíð þessarar ríkisstjórnar. Með frumvarpinu er fjármálaráði falið það hlutverk að leggja mat á það í umsögnum sínum um þingsályktunartillögur fyrir komandi ár, þ.e. um fjármálastefnu og fjármálaáætlun, hvort yfirlýst markmið stjórnvalda í opinberum fjármálum og framfylgd þeirra muni gera kleift að skilyrði 7. gr. taki aftur gildi frá og með árinu 2026.

Við þekkjum það að markmið laganna um opinber fjármál er að stuðla að góðri hagstjórn og styrkri ábyrgri stjórn opinberra fjármála líkt og kveðið er á um í 1. gr. laganna. Þessi ábyrga fjármálastjórn, sem sætir leiðsögn trúverðugra fjármálareglna, eykur traust og stuðlar að hagstæðari fjármagnskjörum hins opinbera. Reynslan hefur sannað gildi slíkra reglna, held ég að sé óhætt að segja. Það er jafnframt mikilvægt að fjármálareglurnar stuðli að aðhaldssamri stefnu á uppgangstímum þannig að búið sé í haginn fyrir niðursveiflu.

Maður spyr sig: Hefur þessi ríkisstjórn búið í haginn fyrir þessa niðursveiflu? Ég er ekki alveg á því vegna þess að við sjáum það bara að samkvæmt ríkisreikningi 2019 er alveg ljóst að ríkisstjórnin var í hálfgerðri afneitun gagnvart því að dregið hefði verulega úr hagvexti og við værum komin í niðursveiflu. Í ríkisreikningi er ofáætlun í tekjum ríkisins upp á tugi milljarða. Maður veltir því fyrir sér hvort það sé yfir höfuð góð fjármálastjórn. Mönnum átti að vera það ljóst að það væri að draga verulega úr komu ferðamanna til landsins. Síðan verður áfall, það verður loðnubrestur á árinu 2019 og það verður gjaldþrot flugfélags sem menn sáu fyrir. Hvort sem menn hafa þrætt fyrir það eða ekki sáu þeir í hvað stefndi með flugfélag sem flutti 35% allra farþega til landsins. Það var alveg í kortunum að hér væri að bresta á niðursveifla og þá að sama skapi stefndi í minni tekjur fyrir ríkissjóð. Engu að síður voru ríkisútgjöldin þanin til hins ýtrasta og bætt í báknið eins og þessi ríkisstjórn hefur verið svo iðin við á sínu kjörtímabili og þá með Sjálfstæðisflokkinn í fararbroddi í þeim efnum.

Ég held að óhætt sé að segja að menn hafi ekki haft uppi aðhaldssama stefnu á uppgangstímum og að ekki hafi verið búið í haginn fyrir niðursveiflu í tíð þessarar ríkisstjórnar. Eðli málsins samkvæmt aukast skatttekjur þegar vel árar og síðan skapast svigrúm til aukinna útgjalda til skamms tíma. Auknum tekjum fylgja alltaf háværar kröfur um aukin útgjöld. Það er einmitt á því sviði sem menn verða að vera aðeins á bremsunni, þegar þeir átta sig vonandi á því að tekjur fara minnkandi og hagvöxtur að sama skapi.

Í álitsgerð fjármálaráðs um tillögu til þingsályktunar um fjármálaáætlun fyrir árin 2021–2025 kemur fram að ráðið telji þetta ákvæði, verði það að lögum, kalla á nýtt verklag og vinnubrögð fjármálaráðs við gerð álita sinna sem og hjá stjórnvöldum í stefnumörkun. Mikilvægt er að fjárlaganefnd skoði þetta ákvæði sérstaklega enda stangast það verkefni á við hlutverk fjármálaráðs sem er að leggja mat á hvort fjármálastefna og fjármálaáætlun fylgi þessum svonefndu grunngildum laga.

Það er fróðlegt, herra forseti, að skoða umsagnir við frumvarpið sem bárust til nefndarinnar. Þær voru í sjálfu sér ekki margar en þar eru athyglisverðir punktar. BSRB varar t.d. við því í umsögn sinni við frumvarpið að fjármálaráð verði gert ábyrgt fyrir stefnumótandi ákvörðunum í ríkisfjármálum. Taka skal undir það hér.

Niðurstaða fjárlaganefndar er að tilefni sé til þessara breytinga vegna þeirra aðstæðna sem nú hafa skapast í íslensku efnahagslífi vegna heimsfaraldurs kórónuveirunnar. Miðflokkurinn tekur undir það að opinber fjármál leiki lykilhlutverk í hagstjórnarviðbrögðum við þeirri miklu efnahagsvá sem heimsfaraldurinn er fyrir íslenskt efnahagslíf. Þörf er á að víkja til hliðar tölulegum fjármálareglum laganna þannig að hægt sé að nýta þetta mikilvæga hagstjórnartæki sem best við núverandi aðstæður. Það er einkum þess vegna sem ég, sem fulltrúi Miðflokksins í fjárlaganefnd, stend að þessu nefndaráliti. Miðflokkurinn leggur líka áherslu á að þær aðhaldsaðgerðir sem reglurnar kveða á um megi ekki draga úr getu ríkissjóðs til að sinna verkefnum sínum og alvarlegum áskorunum. Fjármálaráð bendir á að sjálfbærni opinberra skulda sé ekki áhyggjuefni að svo stöddu. Hún sé jafnframt breytileg vegna afkomu hagvaxtarþróunar og vaxtastigs. Þessir hlutir geta breyst, vextir geta hækkað o.s.frv. Við erum enn þá stödd í óvissunni og við vitum ekki nákvæmlega um hagvaxtarþróunina. Við vitum ekki hvenær ferðamenn fara að koma aftur hingað til lands og lífið að ganga sinn vanalega gang á ný. Vonandi verður það fljótlega á nýju ári og gætir ákveðinnar bjartsýni með það vegna frétta af bóluefnum við veirunni. Bent er á að flest lönd ætli sér að vaxa út úr þessum efnahagslegu erfiðleikum og afleiðingum kreppunnar. Ráðið ítrekar líka ábendingu sína um að áhersla á jákvæða afkomu megi ekki valda rýrnun eignahliðar efnahagsreiknings hins opinbera. Undir það skal tekið hér. Þá hefur fræðafólk á þessu sviði bent á að fjármálareglur megi ekki koma í veg fyrir að ráðist verði í mikilvægar fjárfestingar til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og aðrar þær fjárfestingar sem leiða til verðmætasköpunar og velsældar til lengri tíma. Með breytingunum má sem sagt nýta ríkisfjármálin til að tryggja meiri stöðugleika í efnahagsmálunum sem er eitt af grunngildum fjármálastefnu og fjármálaáætlunarinnar líkt og er tilgreint í lögunum um opinber fjármál.

Ég nefndi hér áðan, herra forseti, að það væru athyglisverðir punktar í umsögnum sem hafa borist við frumvarpið. Þar vil ég nefna umsögn frá Samtökum atvinnulífsins. Þar er kafli sem ber yfirskriftina: Huga þarf að trúverðugleika. Þar kemur fram:

„Ítrekuð endurskoðun á núverandi fjármálastefnu hins opinbera vekur upp spurningar um framkvæmd þeirra skilyrða sem finna má í lögum um opinber fjármál. Nauðsynlegt er að sú stefna sem er mörkuð í fjármálastefnu setji viðmið um árangur en sé ekki markmið í sjálfu sér. Það er, að t.d. afkoma hins opinbera sem sett er fram í stefnu setji ákveðið gólf sem ekki skuli fara undir, en svigrúm sé til þess að skila betri afkomu en gert er ráð fyrir í stefnu. Þegar stefna markar jafnframt ákveðin endamarkmið leiðir það til þess að ekkert megi út af bregða til þess að forsendur stefnu bresti sem kallar á endurskoðun. Vinnur það gegn grunngildum laganna sem snúa að stöðugleika og festu. […] Enda svo að ítrekaðar endurskoðanir grafa undan trúverðugleika laganna og áætlunargerðar hins opinbera.“

Þetta er nefnilega lykilatriði og rétt að hafa það í huga að ef menn ætla að endurskoða stefnuna og lögin þá grefur það náttúrulega undan trúverðugleika. Á sínum tíma var lögð verulega mikil vinna í undirbúning og samningu þessara laga. Það var í raun og veru ekki gert ráð fyrir því að til þess þyrfti að koma að taka lögin að hluta til úr sambandi. Vissulega eru þær aðstæður einstakar sem við búum við akkúrat núna. Þær hafa brostið á með skyndilegum hætti, með kórónuveirunni, og enginn sá það fyrir. En sú staðreynd að fráviksheimildin sé útvíkkuð með tímabundinni lagasetningu í kjölfar fyrsta efnahagsáfallsins sem gengur yfir íslenska hagkerfið eftir að lögin tóku gildi gengur að mati Samtaka atvinnulífsins einnig gegn markmiðum laganna og setur ekki síður hættulegt fordæmi. Þetta eru athyglisverð orð sem hér eru sett fram af hálfu Samtaka atvinnulífsins og þess virði að veita þeim eftirtekt. Þeir segja hér áfram að ekki sé æskilegt að vikið sé frá lagalegum skilyrðum eftir hentiseminni einni saman. Að sjálfsögðu skal tekið heils hugar undir það. Að lokum segir í umsögninni:

„Mikilvægt er að fráviksheimildir, líkt og sú sem nú er útvíkkuð tímabundið, séu raunsæjar og taki mið af íslenskum aðstæðum […] Til þess að varðveita trúverðugleika er mikilvægt að heimild hins opinbera til að víkja frá tölulegum markmiðum laganna sé þess eðlis að ekki gerist þörf á viðlíka aðgerðum og hér eru til umsagnar. Heimildin verður að vera til þess fallin að viðhalda aga í opinberum fjármálum.“

Miðflokkurinn hefur lagt ríka áherslu á þetta, ráðdeildarsemi í fjármálum hins opinbera, sem að mörgu leyti hefur ekki ríkt í tíð þessarar ríkisstjórnar. Við höfum fært rök fyrir því að þessi ráðdeildarsemi hafi því miður ekki verið nægileg af hálfu ríkisstjórnarinnar. Það birtist t.d. í því að verið er að blása út ríkisbáknið og ekki að taka á þeim vanda sem blasir við. Hæstv. fjármálaráðherra hefur sagt að það sé blóðug sóun, eins og mig minnir að hann hafi orðað það, í ríkiskerfinu þegar kemur að fjármálum hins opinbera. Það eru náttúrlega alvarleg orð sem þarfnast frekari skýringa og að á því verði þá tekið. En það hefur ekki komið fram hjá hæstv. fjármálaráðherra.

„Heimildin verður að vera til þess fallin að viðhalda aga í opinberum fjármálum en þó þannig að nauðsynlegur sveigjanleiki til þess að bregðast við framtíðaráföllum sé tryggður.“ — Undir þetta skal heils hugar tekið.

Með því að setja fjármálareglurnar til hliðar þá veita grunngildin í lögum um opinber fjármál ein leiðsögn í þessari stefnumörkun. Mikilvægt er að Alþingi og fjármálaráð fylgist vel með því að framsetning um opinber fjármál feli í sér gagnsæi og festu. Það er rétt að taka sérstaklega fram að nú þarf að fylgjast mjög vel með. Með þessu frumvarpi, verði það að lögum, er stefnt að því að taka hluta laganna úr sambandi. Breytingarnar á lögum kalla á breytt hlutverk fjármálaráðs og einnig breytingu á verklagi stjórnvalda og Alþingis. Fjármálaráð mun gegna lykilhlutverki í því að greina hvort yfirlýst markmið stjórnvalda, að virkja aftur fjármálareglurnar árið 2026, sé mögulegt.

Herra forseti. Það gæti orðið nokkur áskorun að viðhalda bærilegum hagvexti hér á landi á næstu árum. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur áætlað að á Íslandi sé hagvaxtargeta til lengri tíma litið u.þ.b. 2%. Það verður því mikil áskorun að virkja reglurnar aftur árið 2026 með raunsæjum markmiðum. Í fjármálaáætlun er hins vegar gert ráð fyrir um 2,5% hagvexti til lengri tíma litið. Það er margt sem má ekki út af bregða á komandi árum ef þetta á allt að ganga eftir.

Ég vil segja það hér í lokin að vonandi þarf ekki að rýmka þetta umrædda svigrúm frekar. Fréttir af bóluefni gegn veirunni sem er að koma á markaðinn gefur okkur væntingar um að faraldurinn, sem hefur valdið gífurlegu efnahagstjóni um allan heim, og náttúrlega manntjóni eins og við þekkjum og sem er ekki metið til fjár, dragist ekki frekar á langinn og efnahagslegar afleiðingar hans fari minnkandi. Við vonum það svo sannarlega. Það er mjög mikilvægt, einnig fyrir íslenskan efnahag.

Að þessu sögðu þakka ég fyrir umræðuna vegna þess að hún er mikilvæg. Það er óvenjulegt að víkja reglum og lögum til hliðar með þessum hætti. Ég held að enginn hafi séð fyrir þegar lögin voru sett að við ættum eftir að verða í þessum aðstæðum. Að sama skapi er rétt að geta þess og árétta það að lögin eru mannanna verk og þau mega náttúrlega ekki vinna gegn því að við náum okkur hratt og vel á strik aftur í efnahagslífinu og atvinnulífið nái þeirri viðspyrnu sem það þarf svo sannarlega á að halda um leið og ferðamenn koma og efnahagslífið tekur á sig eðlilega mynd á ný. Þá er afar mikilvægt að ekki séu hindranir í veginum. Auðvitað gegna ríkisfjármálin gríðarlega mikilvægu hlutverki í þeirri viðspyrnu sem fram undan er og það er hluti af þessum aðgerðum sem ríkisstjórnin hefur lagt fram, að viðspyrna verði góð.

Við í Miðflokknum höfum stutt þessar aðgerðir. Við höfum líka komið með hugmyndir, góðar hugmyndir, um aðrar aðgerðir sem nauðsynlegt er að ráðast í. Ríkisstjórnin hefur því miður ekki sýnt þeim neinn áhuga. Þó að hún hafi kallað eftir samráði í upphafi þessara aðgerða þegar ósköpin dundu yfir hefur hún ekki farið eftir einni einustu tillögu sem Miðflokkurinn hefur lagt fram heldur fellt þær allar. Það er að sjálfsögðu dapurlegt. Við höfum komið þeim skilmerkilega á framfæri. Það er erfitt að koma sumu af þessu á framfæri. Fjölmiðlar hafa t.d. ekki haft mikinn áhuga á tillögum frá Miðflokknum hvað þetta varðar. Við brugðum einfaldlega á það ráð að auglýsa þær bara í fjölmiðlum (Forseti hringir.) svo að almenningur gæti séð að við viljum leggja okkar af mörkum til að endurreisnin verði sem allra best fyrir íslenskt þjóðfélag.