151. löggjafarþing — 24. fundur,  24. nóv. 2020.

opinber fjármál.

6. mál
[16:06]
Horfa

Smári McCarthy (P):

Herra forseti. Ég get tekið undir mjög margt af því sem hv. þm. Jón Steindór Valdimarsson sagði hér rétt í þessu og ég ætla ekki að tala jafn vítt eða breitt um þetta málefni enda er búið að fjalla nokkuð vel um það í fyrri ræðum. En því er kannski við ræðu hv. þingmanns að bæta að mörg verkefni hafa að sama skapi fengið vandræðalega litla fjármögnun af hálfu ríkisins og oft er erfitt að fjármagna verkefni sem allir eru sammála um að þurfi að fara í og jafnvel verið að velta kostnaði við verkefni sem allir eru sammála um að þurfi að framkvæma yfir til sveitarfélaga eða einkafyrirtækja og annarra, oft með þeim afleiðingum að einkafyrirtæki fá að taka til sín hagnað fyrir að inna af hendi verkefni sem allir eru í grunninn sammála um að séu samfélagsleg nauðsyn. Það er ekkert að því að fyrirtæki græði og það vel að öllu jöfnu en þegar við erum að tala um grunnstoðir samfélagsins þá er rosalega pínlegt að horfa upp á það að ríkið sinni verkefnum illa og velti þeim einhvern veginn yfir til fyrirtækja, sem, svo maður tali hreint út, tengjast oft einhverjum með einhverjum hætti þannig að kannski verður gróðasjónarmiðið ekki alveg jafn kristaltært og maður vildi helst óska. En það er ekki það sem ég ætlaði að fjalla um þó að það væri hægt að tala um tilhneigingu stjórnmálamanna til að víkja sér undan ábyrgð og hygla sínum nákomnu alveg endalaust.

Það sem mig langaði að fjalla um er að hér fyrr í umræðunni var talað um að það væri kannski ekki endilega jákvætt, og að fólk væri að reyna að forðast það, að setja einhvers konar pólitík inn í lög, þ.e. að lög um opinber fjármál ættu að vera einhvern veginn hafin yfir pólitík sem er alveg mjög viðeigandi og jákvætt sjónarmið. En það er þess vegna sem mér finnst ástæða til að benda á að afkomureglan og skuldareglan eru að sjálfsögðu pólitískar reglur, eins og reyndar allar reglurnar í lögum um opinber fjármál. Það kann að vera að þau endurspegli pólitík sem allir eða flestir voru sammála um þegar lögin voru sett á sínum tíma en þau byggjast þó engu að síður á pólitískum og efnahagslegum kreddum frekar en náttúrulögmálum og það er mikilvægt að við gerum okkur grein fyrir því. Þetta eru ekki náttúrulögmál. Þetta er hugmyndafræði sem vissulega er algeng og vinsæl en það eru engu að síður hugmyndafræðilegar ákvarðanir að þessar reglur skuli vera settar upp með þessum hætti.

Um þær kreddur má segja að þær eru alls ekki óumdeildar. Meðan allir geta eflaust verið sammála um að það sé ágætt að hafa einhverjar reglur um hvernig ríkisútgjöld eigi að vera og hvernig þau eigi að ganga fyrir sig þá eru þær reglur sem voru settar, og nú er verið að fjalla um að taka úr sambandi, byggðar á mjög íhaldssamri túlkun á mjög íhaldssamri grein hagfræðinnar, nýklassískum hagfræðikenningum sem er að einhverju leyti meira að segja búið að sanna að séu rangar. Höfum í huga að þetta er sama hugmyndafræði, sami efnahagslegi skóli, og hefur leitt af sér þó nokkur hrun á heimsvísu, einhverja tugi ef ekki hundruð peningamarkaðskrísa, kreppur og heimtar stöðugt aðhald á kostnað velferðar og uppbyggingar samfélagsins. Þetta eru ekki einu sinni umdeildar staðreyndir sem ég er að nefna hér. Þetta er eitthvað sem er búið að skrifa þó nokkuð margar bækur um. Það sem má kannski rífast um er hvort einhver önnur hagfræðikenning eða annar skóli hagfræðinnar hefði leitt af sér aðra og verri niðurstöðu og vissulega eru til skólar sem myndu alveg örugglega leiða af sér verri niðurstöðu en til eru aðrir skólar sem gætu mögulega leitt af sér betri niðurstöðu og það hefur verið talað mikið fyrir þeim undanfarin ár, m.a. hef ég reynt það af veikum mætti.

Til að setja það í samhengi við þessa umræðu þá er verið að tala um að taka nokkrar reglur úr sambandi og laga þær að því að hér höfum við gengið í gegnum gríðarlegt efnahagslegt áfall í kjölfar heimsfaraldurs og ekki bara í kjölfar heimsfaraldurs því hann er áframhaldandi og verður það um einhverja hríð í viðbót þannig að „samhliða heimsfaraldri“ er kannski réttara orðalag. Þegar maður er að skipuleggja einhvers konar regluverk, þegar maður er að hanna eitthvert kerfi, þá ber kerfishönnuðinum ákveðin skylda til að hugsa sér hvernig kerfið muni bregðast við ef forsendurnar standast ekki. Ef maður er að hanna kerfi og gerir það ekki vil ég meina að viðkomandi sé í besta falli fúskari og í versta falli sekur um mjög alvarleg afglöp í starfi. Við verðum að hanna reglur til að þola högg, til að þola mistök, til að þola það að kerfið gangi ekki upp, að forsendurnar klikki. Þegar reglur eru hannaðar til þess að halda eingöngu þegar gott er í ári og gífurlegur uppgangur þá er maður er að búa til slæmar reglur.

Þegar maður horfir á skuldaregluna og afkomuregluna sem eru báðar byggðar eingöngu út frá þeirri forsendu að hér sé endalaus og viðvarandi vöxtur og hamingja — það er mjög erfitt að horfa á þær reglur og sjá það öðruvísi — þá er ekki hægt að komast hjá þeirri hugsun að þarna hafi verið alvarleg afglöp á ferð. Það að kippa þeim úr sambandi núna er bara hið besta mál. En mig langar bara til að leggja það til að þegar við komumst á þann tímapunkt að mögulega eigi að taka þær upp að nýju þá ætti kannski að fara í þá vinnu að hanna kerfið vel, ekki bara betur heldur vel, vegna þess að það hefur vantað. Við höfum verið með lög um opinber fjármál í einhver ár núna sem hafa verið hönnuð út frá einhvers konar bjartsýni sem hefur aldrei átt rétt á sér. Nú er talað um að þetta sé einhver atburður sem eigi sér stað á 100 ára fresti en það eru ekki 100 ár frá síðustu efnahagskreppu á Íslandi. Það eru rétt rúm 12 ár og ef maður hugsar um hvernig þessum reglum hefði vegnað í því árferði þá er ekki hægt að sjá það að við værum ekki í nákvæmlega sömu stöðu, að kippa þeim úr sambandi, og ef við getum ekki byggt reglur sem duga í 12 ár, hvers vegna ættum við að ímynda okkur að þær ættu að eiga rétt á sér yfir höfuð? Hvað þá ef við byggjum þær með það í huga að þær eigi bara að klikka einu sinni á 100 ára fresti, sem mér finnst ekki góð kerfishönnun heldur.

Ég vildi bara leggja til málanna að við vitum það, það er búið að fjalla um það innan fræðanna í mörg ár núna, að undir undirliggjandi forsendur flestra hagfræðikenninga sem hafa átt upp á pallborðið hjá stjórnendum ríkja, sérstaklega Vesturlöndum, sérstaklega undanfarna skulum við segja þrjá til fjóra áratugi, byggjast á rugli sem er mjög oft búið að afsanna. Við getum gert betur vegna þess að við vitum betur hvernig þessir hlutir virka. Ef við gerum ekki betur núna þegar við sjáum þetta, þegar við horfum fram í vandamálin nákvæmlega eins og þau raungerast, þá erum við flón og ég vil helst ekki að við séum það.