151. löggjafarþing — 24. fundur,  24. nóv. 2020.

ráðstafanir gegn óréttmætri takmörkun á netumferð o.fl.

23. mál
[16:29]
Horfa

Smári McCarthy (P):

Herra forseti. Mig langaði bara til að koma aðeins inn í þetta mál af því að mér fannst áhugavert, þegar við vorum að fara í gegnum málið í nefndinni, að heiti frumvarpsins er ráðstafanir gegn óréttmætri takmörkun á netumferð o.fl. En þegar rýnt er í málið, eins og kom fram í máli hv. þm. Bryndísar Haraldsdóttur rétt í þessu, þá snýst málið kannski fyrst og fremst um neytendavernd á mjög afmörkuðu sviði og það svið er að mínu mati mjög takmarkað um takmarkanir á netumferð per se heldur meira um hvernig viðskiptum er háttað þegar þau eru stunduð í gegnum net. Að því marki sem það er tilfellið þá er þetta fínt frumvarp, enda er ég á nefndaráliti meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar og styð að málið sé afgreitt og því fyrr því betra.

Mig langar samt til að nefna að þetta frumvarp tekur í sjálfu sér ekki á mörgum óvissuþáttum sem snúa að skipulagi og rekstri netkerfa að því marki sem þau geta haft áhrif á líf fólks í samfélaginu nú þegar við reiðum okkur þetta mikið á netið í okkar daglega lífi. Hér er ég kannski að fara út fyrir neytendaverndarþáttinn per se — og ég tek eftir því, herra forseti, að ég er byrjaður að sletta orðunum per se, sem er latína, of mikið og biðst afsökunar á því. Það sem er að gerast í viðskiptum á netinu og í rekstri netkerfa, og bara almennt í öllu sem snýr að neti og tölvukerfum, er að við erum að horfa upp á mikla sýndarvæðingu á ýmsum þjónustuþáttum. Í stað þess, eins og var hér áður fyrr í upphafi netsins, að á bak við hverja þjónustu var ein tölva sem hafði fastan viðverustað í heiminum, yfirleitt vegna þess að tölvan var upp á einhver tonn, erum við að tala um eina til tvær tölvur sem eru staðsettar einhvers staðar á jörðinni, sem kann jafnvel að breytast mörgum sinnum á klukkutíma, og með þjónustu liggjandi ofan á sem er í raun ekkert annað en hugbúnaður sem getur breyst og aðlagast og færst til eftir atvikum. Þannig gæti þjónustuverið hýst eitthvað hér á landi eitt augnablik sem væri svo afgreitt frá Kambódíu næsta augnablik. Þetta býður upp á ótrúlega mikla möguleika, t.d. fyrir rekstraraðila að kjósa staðsetningu sem er með ódýrara rafmagn eða lægri kostnað við netumferð eða hvaðeina. En þetta býður líka upp á ýmsa möguleika í því, fyrir rekstraraðila, að veita þjónustu frá þeim stað sem er lagalega hagkvæmast hverju sinni og hentar jafnvel best upp á hluti að gera eins og samskipti við neytendur.

Til að gera þetta ögn flóknara erum við að horfa upp á brotthvarf þess sem var hér áður fyrr kallað POTS, með leyfi forseta, eða Plain Old Telephone System, eða gamla góða símkerfið. Í stað þess eru að koma stafræn eða netvædd símkerfi, sem við tölum í daglegu máli um sem 3G, 4G og 5G, og síðan eru einhverjar stafrænar símstöðvar sem byggja á gömlum kapallögnum en eru samt stafrænar að einhverju leyti. Í þessu felst, eins og kom m.a. fram í umsögn sem við fengum til okkar í nefndinni, að hlutar símkerfisins sem maður kannski heldur að séu á tilteknum stað eru það ekki endilega. Þegar maður fær símhringingu úr íslensku númeri, með +354 á undan, gengur maður yfirleitt út frá því að verið sé að veita þá þjónustu, eða alla vega verið að hringja það símtal, frá Íslandi. En það er bara engin trygging fyrir því, enda vitum við öll að við getum farið með farsímann okkar til Ítalíu og hringt þaðan og samt verið á íslensku símanúmeri ef maður er með gamla SIM-kortið. En þetta getur verið útfært á ótal vegu. Það væri hægt að reka símþjónustu í Síle og samt birtast hvar sem er í heiminum sem íslenskur aðili. Þetta mun endurspeglast í því að þjónustustig breytist smám saman með tíð og tíma. Þegar við tölum um þjónustustig þá hugsar fólk yfirleitt kannski bara um vefsíðuna sem maður heimsækir til að stunda viðskipti og kaupa vörur eða þjónustu af, en ekki endilega að sama marki vefþjóninn sem liggur undir þeirri þjónustu eða netþjóninn, hina eiginlegu tölvu sem verið er að keyra þann vefþjón á, hvað þá einhvern greinarmun á undirliggjandi samskiptastöðlum, http eða hvað það er.

Ég er ekki að reyna að flækja þessa umræðu heldur er ég kannski frekar að reyna að sýna fram á það að hún er í eðli sínu flókin og neytendavernd er út af fyrir sig ekki nema lítill hluti þess sem þetta snýr að. Ég hef svo sem lýst þeirri skoðun nokkrum sinnum að það að þingmenn setji sig ekki inn í það hvernig internetið er uppbyggt og hvernig það starfar á þessum tímapunkti er mögulega jafn hættulegt og að fólk setji sig ekki inn í hvernig afleiðuviðskiptum var háttað rétt fyrir hrun. Þetta er í vaxandi mæli flækjustig sem kemur okkur öllum við, því miður. Ég vildi gjarnan að þetta væri einfaldara en þangað til við erum búin að ná að búa til almennilegt regluverk utan um þetta er hætta á því að þessir þættir sem geta skaðað neytendur og skaðað almenning hvað allt þetta varðar, t.d. með takmörkunum á netumferð sem slíkri en ekki endilega bara einhverjum viðskiptalegum hindrunum sem varða vistun eða veitingu á vörum eða þjónustu innan Evrópska efnahagssvæðisins. Þetta geta orðið þættir sem verða ráðandi í niðurstöðum dómsmála í framtíðinni, geta verið andlag viðskiptastríða, geta jafnvel í einhverjum tilfellum verið grunnurinn að því að gengið sé gegn mannréttindum fólks. Ég er ekki einu sinni viss um að ég hafi ímyndunarafl til að sjá fyrir mér allar mögulegar leiðir þar sem þetta getur raungerst. En mér finnst ástæða til að við sem þing séum alla vega meðvituð um og eigum samtal um að þetta gæti gerst og þetta er eitthvað sem við verðum að vera vakandi fyrir.

Ég ætla ekki að hafa þetta lengra, bara skilja eftir þessa hvatningu. Ég veit að margir hv. þingmenn hafa reynt að setja sig vel inn í þessi mál, þetta er flókið. En vonandi getum við haldið áfram að gera góð frumvörp, eins og þetta er, og horfa á þetta frá nógu mörgum hliðum; taka upp fleiri hliðar á þessu máli og vonandi veita eins góðar lagalegar tryggingar og hægt er miðað við það að við erum að tala í lok dags um alþjóðlegt fjarskiptakerfi.