151. löggjafarþing — 24. fundur,  24. nóv. 2020.

opinber stuðningur við nýsköpun.

322. mál
[16:50]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um opinberan stuðning við nýsköpun. Markmið frumvarpsins er að efla opinberan stuðning við nýsköpun á landinu með einföldu verklagi, skýrri ábyrgð og sterkum tengslum við háskólasamfélag, atvinnulíf og hagaðila. Áhersla er lögð á eflingu nýsköpunar á landsvísu, stuðning við nýsköpun á sviði hátækni og rannsóknir og fræðslu í byggingariðnaði. Leitast verður við að forgangsraða verkefnum, draga úr yfirbyggingu og auka sveigjanleika þannig að opinbert fé nýtist sem best til þeirra verkefna sem það er veitt í.

Því markmiði verður náð með eftirfarandi aðgerðum sem felast að hluta í frumvarpi þessu en eru einnig verkefni sem unnið er að nú þegar í ráðuneytinu.

Vegna aukinnar áherslu á stuðning við frumkvöðla og sprotafyrirtæki í nýsköpun verður stofnað tæknisetur í samstarfi við háskólasamfélagið. Tæknisetrið mun byggja á grunni Efnis-, líf- og orkutækni, Rannsóknastofu byggingariðnaðarins og hluta Frumkvöðlaseturs hjá Nýsköpunarmiðstöð Íslands. Frumvarpið gerir ráð fyrir heimild til að stofna óhagnaðardrifið einkahlutafélag um slíkt tæknisetur þar sem ríkið er eigandi, en aðkoma háskólastigsins er stjórnunarlegs eðlis. Mikilvægt er að tryggja formlega aðkomu háskólasamfélagsins að rekstri tæknisetursins og að háskólarnir taki virkan þátt í að þróa verkefnið áfram. Lagt er upp með að félagið styðji við starfsemi frumkvöðla og fyrirtækja á sviði hátækni, verkfræði, raunvísinda og skyldra greina og sé vettvangur fyrir rannsóknir og þróun á þessum sviðum.

Þá er lögð sérstök áhersla á eflingu nýsköpunar á landsbyggðinni og til að vinna með skilvirkum hætti að því markmiði verður settur á fót verkefnasjóður um nýsköpun á landsbyggðinni. Sjóðnum er ætlað að styðja við nýsköpunarverkefni í samvinnu við landshlutasamtök, atvinnulíf og þekkingarsamfélög á viðkomandi svæðum og auka þannig slagkraft nýsköpunarverkefna sem studd eru af byggðaáætlun, sóknaráætlunum landshlutanna og öðrum áhersluverkefnum svæðanna. Hér er um að ræða verkefni sem birtist ekki beint í frumvarpinu en er í vinnslu í ráðuneytinu þar sem unnið er að því að koma slíkum verkefnasjóði á fót og skilgreina betur þær kröfur og skilyrði sem fylgja eigi stuðningi úr sjóðnum.

Ráðuneytið mun stuðla að áframhaldandi stuðningi við frumkvöðla á fyrstu stigum, svo sem með samstarfi við bæði opinbera aðila og einkaaðila um þjálfun og leiðsögn fyrir frumkvöðla. Áhersla verður lögð á að samræma og samþætta slíka aðstoð við starfsemi atvinnuþróunarfélaga og klasa um land allt. Auk þess verður áfram haldið stuðningi við stafrænar smiðjur eða á ensku, með leyfi forseta, „Fab Labs“, víðs vegar um landið, auk stuðnings við nýsköpunar- og frumkvöðlamennt á öllum skólastigum í samstarfi við mennta- og menningarmálaráðuneytið og skólayfirvöld.

Í frumvarpinu er kveðið á um áframhaldandi rannsóknir, fræðslu, upplýsingamiðlun og gagnasöfnun á sviði mannvirkjamála og mun sú starfsemi byggja á grunni Rannsóknastofu byggingariðnaðarins. Í samvinnu við félagsmálaráðuneytið verða verkefni á þessu sviði flutt til Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, þar á meðal útgáfa svokallaðra Rb-blaða, upplýsingamiðlun og gagnasöfnun ásamt því að Húsnæðis- og mannvirkjastofnun tekur yfir þær prófanir á byggingarvörum sem nauðsynlegt er að halda áfram með til að tryggja samfellu í verkefnum og þjónustu. Jafnframt verður unnið að því að prófanir á byggingarvörum verði í framtíðinni framkvæmdar af faggiltum aðilum í samræmi við alþjóðlegar gæðakröfur. Þær prófanir sem forsendur eru til að framkvæma á markaði verða síðan látnar einkaaðilum eftir.

Settur verður á fót samkeppnissjóður byggingarrannsókna í þeim tilgangi að efla rannsóknir í greininni. Sjóðurinn er samstarfsverkefni félags- og barnamálaráðherra og ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra en verður í umsýslu Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar. Um þennan sjóð er kveðið á í frumvarpinu með breytingu á lögum um mannvirki, nr. 160/2010.

Enn fremur verður unnið að aukinni samþættingu og einföldun í opinberri þjónustu við atvinnulífið. Þetta á m.a. við um mælingaþjónustu og prófanir sem krefjast flókins tækjabúnaðar og gæðastjórnunarkerfis og annan stuðning við atvinnulíf og nýsköpun.

Starfsemi efnagreininga hjá Nýsköpunarmiðstöð verður sameinuð efnamælingum Hafrannsóknastofnunar í þeim tilgangi að ná fram aukinni samþættingu, hagræðingu og auknum gæðum í þjónustumælingum á vegum hins opinbera.

Í frumvarpinu sjálfu felast nánar tiltekið efnisákvæði sem heimila stofnun einkahlutafélags um rekstur tækniseturs, skerpa á heimildum ráðherra og fella brott lög nr. 75/2007, um opinberan stuðning við tæknirannsóknir, nýsköpun og atvinnuþróun, en þau lög leggja grunninn að starfsemi Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands og stofnunin hefur starfað eftir þeim.

Þá eru í frumvarpinu lagðar til breytingar á öðrum lögum sem vísa til Nýsköpunarmiðstöðvar, þ.e. lögum um byggingarvörur, nr. 114/2014, og lögum um vísitölu byggingarkostnaðar, nr. 42/1987.

Jafnframt er lögfest hlutverk Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar við rannsóknir, kynningu, fræðslu og gagnaöflun í tengslum við byggingar- og mannvirkjarannsóknir og settur á fót samkeppnissjóður um slíkar rannsóknir. Þá er í ákvæðum til bráðabirgða kveðið nánar á um niðurlagningu Nýsköpunarmiðstöðvar og flutning verkefna stofnunarinnar, réttindi starfsmanna og tilfærslu eigna stofnunarinnar líka.

Hvað starfsmannamálin varðar munu stöðugildi fylgja með flutningi verkefna auk þess sem tæknisetrið mun ráða til starfa starfsfólk með þekkingu og reynslu. Hluti starfsmanna stofnunarinnar hefur þegar fært sig um set og hluti á rétt á biðlaunum eða eftirlaunum þegar stofnunin verður lögð niður. Ekki verður þó hjá því komist að einhverjir starfsmenn missi starf sitt.

Verði frumvarpið að lögum mun Nýsköpunarmiðstöð hætta starfsemi sinni þann 1. maí nk. og fram að því verður áfram unnið að flutningi verkefna. Upphaflega hafði verið boðað að stofnunin yrði lögð niður um komandi áramót en ákveðið var að færa það til 1. maí, svo klára mætti farsælan flutning verkefna, tilfærslu rannsóknarsamninga og til að starfsfólki og stjórnendum gæfist rýmri tími til frágangs.

Herra forseti. Umhverfi nýsköpunar á Íslandi hefur tekið stakkaskiptum á undanförnum árum og frumvarpið tekur mið af því. Nýsköpunarmiðstöð Íslands hefur gegnt mikilvægu hlutverki í þágu atvinnulífs og nýsköpunar frá því hún var sett á laggirnar árið 2007 og fyrir það mikilvæga starf ber að þakka.

Með frumvarpinu erum við að forgangsraða verkefnum í þágu atvinnulífs og samfélags í takt við nýsköpunarstefnu. Undanfarna mánuði höfum við því unnið að því að endurskoða hlutverk stofnunarinnar og fundið hluta af verkefnum hennar nýtt heimili í öðru rekstrarformi á meðan öðrum verkefnum verður hætt. Það er eðlileg þróun í hinu kvika umhverfi nýsköpunar hér á landi og í samræmi við þróun og forsendur í atvinnulífi að stjórnvöld endurskoði umgjörð stofnana með reglulegu millibili með það að markmiði að opinber stuðningur þjóni sem best þörfum samfélagsins hverju sinni. Það er einlæg trú mín að þær breytingar sem lagðar eru til í frumvarpinu, með þeirri vinnu sem átt hefur sér stað við undirbúning þess, verði til heilla fyrir umhverfi nýsköpunar hér á landi.

Virðulegur forseti. Að lokinni umræðunni legg ég til að frumvarpinu verði vísað til hv. atvinnuveganefndar til umfjöllunar.